133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

sjófuglarannsóknir og breytingar á náttúrufari.

200. mál
[15:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra svörin og ekki síður þakka ég þessa fróðlegu litlu sjávarlíffræðilegu fyrirlestra sem tveir hv. þingmenn Frjálslynda flokksins hafa flutt. Ég verð samt að segja að þeir hjálpuðu mér ekki mikið. Því ef ýsustofninn er hér eins og engisprettufaraldur, er hann það þá líka við Bretlandseyjar, við Norður-Noreg, (Gripið fram í: Já.) um allt norðanvert Atlantshafið eða Norðursjó?

Ég held nú satt að segja, (Gripið fram í.) og þá verður líka að skýra út fyrir mér hver togar í þann Tvíbjörn því hér togar eitt í annað. Ég vil að því loknu þakka fyrir svörin.

Ég held þvert á þá sem hér töluðu áðan að það hald ráðherra að umræddar breytingar tengist loftslagsvandanum sé merkileg yfirlýsing af hennar hálfu og nokkuð djarfari en aðrir ráðherrar hafa þorað að gefa undir fótinn. Og ég tel að hvað sem líður einstökum stofnum, stærð þeirra og áföllum sem þeir verða fyrir, að við eigum að stórauka rannsóknir á þessu sviði. Það eina sem ég var óánægður með, eða kvarta yfir í svari ráðherrans, var það að samstarf Náttúrufræðistofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Háskóla Íslands virðist vera ákaflega dauft og það eina sem hér var talið var bjargfuglatalning. Þar þarf nú kannski ekki Hafrannsóknastofnun mikið til eða Háskóla Íslands, og Náttúrufræðistofnun ætti að nægja ef hún fær fé til.

Við þurfum að stórefla rannsóknir einmitt á þessu því við verðum að taka alla þætti lífríkisins hér með. Mig grunar að sjófuglarnir séu ekki síst vísbending um hvað kynni að vera að gerast í kringum okkur sem skiptir okkur öll gríðarlega miklu máli.