133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[11:41]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður er enn á þeirri skoðun að það eigi að takmarka umfang Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði allverulega frá því sem hér er gert. Hér er ekki verið að takmarka það út frá núverandi stöðu, hvað sem framtíðin svo aftur ber í skauti sér, því það sem ég var að spyrja hv. þingmann um lítur að pólitískri grundvallarspurningu. Hv. þingmaður hefur flutt hér frumvarp ásamt félögum sínum úr Sjálfstæðisflokki um að það eigi að selja og einkavæða Ríkisútvarpið. Þetta er algert grundvallarmál, pólitískt mál sem hlýtur að liggja til grundvallar hans viðhorfum.

Það frumvarp sem hann ber síðan fram og talar fyrir er ekki hægt að túlka öðruvísi en að verið sé að fara með einhverjum hætti að frjálsri ljósvakamiðlun í landinu. Það er verið að ríkisvæða ljósvakamiðlun enn þá meira en frá því sem nú er. Samkeppnisforskot Ríkisútvarpsins mun aukast töluvert. Það verður hlutafélag með meðgjöf upp á 2,8 milljarða á ári frá ríkinu auk þess að hafa óheft umfang á auglýsingamarkaði, þó svo að það sé verið að stemma stigu við því að umfang þess aukist á veraldarvefnum o.s.frv.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann. Hvernig getur það verið pólitískt forsvaranlegt, pólitískt réttlætanlegt út frá viðhorfum þeirra sem styðja frjálsa fjölmiðlun í landinu, að ganga fram með þetta frumvarp sem gæti orðið til þess að laska verulega frjálsa ljósvakamiðlun? Til dæmis með því að draga úr framleiðslu á innlendu efni, draga úr framleiðslu á menningartengdu efni eða með því að stórskaða rekstur á annarri fréttastofu á ljósvakamarkaði en þeirri ríkisreknu. Af því að á þeim 20 árum sem þessir fjölmiðlar, útvarpið og sjónvarpið, hafa verið reknir þá hafa þeir barist í bökkum. Þeir gera það enn þá.

Þetta frumvarp er ekkert annað en aðför að stöðu þeirra. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvernig getur hann réttlætt það að hér sé verið að ganga fram með ríkisvæðingu á ljósvakamarkaði?