133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:20]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson veit að það sem mikilvægast er í lífi stjórnmálamanns er að hlusta vel, hlusta á kjósendur, hlusta á það sem sagt er. Ég hvet hann til þess að hlusta betur á svar mitt en áðan sagði ég að það hefði aldrei verið hreyft við lögum um Ríkisútvarpið vegna þess að ekki var samstaða um hvert ætti að stefna.

Nú, þegar báðir stjórnarflokkarnir eru algjörlega einhuga um að halda eigi áfram sterku ríkisútvarpi í eigu ríkisins, höfum við lagt fram þetta frumvarp vegna þess að við trúum því að við séum með því að gefa útvarpinu tækifæri til að þróast og til að styrkja frekar stöðu sína.

Ég spyr mig líka, eftir umræðuna í þinginu í dag, hver sé þá samstaðan hjá hv. stjórnarandstöðu eða svokölluðu kaffibandalagi, eins og menn hafa stundum kallað hana. Það er nefnilega þannig, eins og hv. þingmaður veit, að lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eiga ekki frekar við um sjálfseignarstofnanir en önnur félagaform. Hver er þá samstaðan í kaffibandalagi Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og annarra aðila ef menn setja fram tillögur eins og hv. þingmaður hefur gert um sjálfseignarstofnun? Ég hlýt að spyrja mig að því.

Hv. þingmaður ræddi mikið um traust í ræðu sinni en það er nú einu sinni þannig að sá sem hefur verið rúinn trausti undanfarna daga er þingflokkur Samfylkingarinnar og það var sjálfur formaður flokksins sem sagði það.