133. löggjafarþing — 44. fundur,  7. des. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

57. mál
[23:37]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Framtíð hljóðvarps á sinfóníutónleikum á Íslandi virðist ráðast af því hvernig menn túlka það sem hv. þingmaður kallar núna prentvillu í málskjali. Það verður þá að prenta þetta málskjal upp.

Við erum að vísu búin að ljúka hér 2. umr. En þetta ræður algerlega úrslitum um það hvort hægt er að ná áframhaldi á þessu samstarfi Ríkisútvarpsins og Sinfóníunnar.

Það kemur hérna fram hjá hv. þingmanni að í málskjalinu er talað um þjónustusamninga. Ég var þeirrar skoðunar að það væri einmitt þangað sem ætti að leita þessa fjármagns. Ég hafði að vísu, eins og hv. þm. Mörður Árnason í dag, bent á að það er nú heldur lítið að verða úr þeim fjárhæðum sem eiga að koma í gegnum þjónustusamninginn.

Samkvæmt þessu eru það kostunarsamningar. Þá liggur alveg ljóst fyrir að það er ekki til fé til þess að standa undir þessu. Ástæðan er sú, eins og kom fram við meðferð málsins í fyrra, að það að hafa þetta óbreytt kostar 140–150 millj. kr. Í máli Páls Magnússonar um daginn í menntamálanefnd kom fram að kostunarsamningarnir í dag allir samtals, á íþróttaefni og öllu, eru 90 millj. kr. Þeir mega ekki hækka sem hlutfall.

Það er því alveg ljóst að þótt allt kostunarféð yrði lagt til sinfóníutónleika sem Ríkisútvarpið mundi þá standa straum af, dugar það ekki. Hvort sem hér er um prentvillu að ræða eða ekki, þá er það alveg ljóst, að þetta er úrslitaatriði varðandi þessa tegund menningarstarfsemi Ríkisútvarpsins.

Það kom í ljós í síðasta andsvari hv. þingmanns að mistök meiri hlutans valda því að hljóðvarp á Sinfóníunni er núna í uppnámi. Kannski hv. þingmaður ætti að velta því fyrir sér að láta prenta þetta skjal upp eða kalla til fundar og athuga hvort ekki sé rétt að leiðrétta þessa prentvillu.