133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[12:02]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er því hlynntur að Lánasjóður sveitarfélaga geti veitt veð í tekjum sveitarfélaganna. Og ég er því hlynntur að Lánasjóður sveitarfélaganna búi við skattaívilnanir og skattfríðindi. Ég er hlynntur þessum félagslegu sjónarmiðum og ég er að reyna að færa rök fyrir því að við eigum að verja þessa sérstöðu og þessi félagslegu gildi.

Ég hef hins vegar bent á að þróunin sé hvarvetna í þá átt að grafa undan þessari sérstöðu. Þetta er að gerast á Norðurlöndunum og þetta er að gerast hér. Það kom fram í máli framkvæmdastjóra sjóðsins að hann teldi líkur á því að áfram yrði haldið á þessari braut.

Ég tel að með því að gera sjóðinn að hlutafélagi sem samtök fyrirtækja á fjármálamarkaði, banka og fjármálafyrirtækja, telja skref í rétta átt sé verið að veikja þessar varnir. Ég er sannfærður um að svo sé.

Þess vegna tel ég misráðið af hálfu sveitarfélaganna að styðja þessar breytingar en skil hins vegar að fulltrúar frjálshyggjunnar, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal og fulltrúar banka og fjármálafyrirtækja, taki þessu fagnandi.