133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:38]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við göngum nú til atkvæðagreiðslu um frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. eftir 2. umr. Nú er ljóst að þunginn í þessari umfjöllun þingsins um frumvarpið verður í 3. umr. ef hún fer fram. Það verður ekki fyrr en á næsta ári og óljóst svo sem hvenær á næsta ári það verður. En auðvitað greiðum við atkvæði hér eins og áætlað var.

Þetta er vont frumvarp. Engin rök hafa komið fram fyrir áætluðu hlutafélagsformi og ekki hefur heldur verið mótuð stefna um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps í framtíðinni. Það er líklegt að þetta tvennt valdi miklum ágreiningi áfram í samfélaginu meðal stjórnmálamanna, hjá almenningi og á markaði og sennilegt er að þetta frumvarp eigi eftir að valda málaferlum bæði heima og erlendis. Gert er ráð fyrir því að ríkisstjórnarmeirihluti taki allar stefnuákvarðanir um rekstur og ráði síðan útvarpsstjóra sem meiri hlutinn getur rekið þegar honum sýnist, en útvarpsstjórinn á að vera valdamikill og valdameiri en við þekkjum almennt í fjölmiðlafyrirtækjum. Þannig er opin leið til áframhaldandi flokkspólitískra ítaka og inngripa. Nefskatturinn sem gert er ráð fyrir stuðlar ekki að sjálfstæði Ríkisútvarpsins og það er ekki líklegt að hann auki samstöðu meðal almennings um þetta mikilvæga fyrirtæki. Réttindi starfsmanna eru í uppnámi og enginn veit hvernig þeim málum yrði háttað ef þetta frumvarp verður samþykkt í nýja ohf.-fyrirtækinu.

Forseti. Málinu er ekki lokið. Það heldur áfram á nýju ári. Formaður Samfylkingarinnar hefur lagt til að nú eftir að haustþingi lýkur vegna skemmtiferðanna sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hefur rætt svo mikið um þá verði settur niður hópur fólks úr öllum flokkum til að leita sáttaleiðar. Ég tel að það sé skylda menntamálaráðherra og annarra forustumanna stjórnarflokkanna að bregðast við þessari tillögu með almannahagsmuni að leiðarljósi um þetta mál, einhverrar mikilvægustu menningar- og lýðræðisstofnunar á Íslandi í nútímasögu þess.

Hér á eftir koma til atkvæða breytingartillögur stjórnarsinna í menntamálanefnd, tillögur um auglýsingabann á vef Ríkisútvarpsins og tillögur um hlutfall kostunar af auglýsingum sem eru illa grundaðar tilraunir til að koma til móts við hvassa gagnrýni á frumvarpið í heild, tillögur sem eru eiginlega án takmarks og tilgangs, hvorki fugl né fiskur. Við sitjum hjá við þessar tillögur. Við sýnum andstöðu okkar við þetta frumvarp í heild sinni með því að greiða atkvæði gegn 1. gr. þess en sitjum hjá um aðrar greinar og greiðum frumvarpinu för yfir áramótin í því trausti að ráðherrann og aðrir forustumenn sjái að sér yfir jólahátíðina.