133. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:45]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við göngum nú til atkvæða eftir 2. umr. um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem greidd eru atkvæði um þetta mál enda er það nú lagt fram í þriðja skipti hér á Alþingi.

Ýmislegt hefur verið sagt í tengslum við þetta mál og nú síðast hefur verið lagt til að skipuð verði einhvers konar þverpólitísk nefnd til að fjalla um þessi mál frá A til Ö. Sú hugmynd er góðra gjalda verð en fyrir mína parta sé ég ekki ástæðu til að stofna enn eina nefndina. Menntamálanefnd Alþingis er þverpólitísk nefnd sem hefur haldið tugi funda um málefni Ríkisútvarpsins og mun eflaust gera það áfram í komandi framtíð.

Í allri þeirri vinnu sem átt hefur sér stað um málefni Ríkisútvarpsins hefur stjórnarandstaðan komið að ákveðnum sjónarmiðum og athugasemdum. Stjórnarmeirihlutinn hefur í veigamiklum atriðum komið til móts við þau sjónarmið sem stjórnarandstaðan hefur haldið fram.

Það frumvarp sem við greiðum atkvæði nú um kveður m.a. á um það að upplýsingalög verði látin gilda um Ríkisútvarpið ohf. sem sett var inn í frumvarpið, m.a. að kröfu stjórnarandstöðunnar. Það hafa líka verið sett ákvæði um að hinu nýja félagi verði óheimilt að selja frá sér eignir sem varða menningarlegan arf íslensku þjóðarinnar. Og svo lengi mætti telja.

Enn fremur hefur við þessa yfirferð verið komið til móts við sjónarmið sem hafa komið fram frá a.m.k. einum stjórnarandstöðuflokknum, Samfylkingunni, að setja takmörkun við umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Þess vegna veldur það mér nokkrum vonbrigðum að hlusta á fulltrúa stjórnarandstöðunnar í umræðu hér um þetta mál áður en við göngum til atkvæða og heyra stjórnarandstöðuna segja að lítið hafi verið á hana hlustað.

Þrátt fyrir að stjórnarandstaðan segist vera sameinuð í þessu máli er það aðeins rétt að einu leyti. Stjórnarandstaðan er sameinuð gegn málinu en efnisleg rök hennar og efnislegar áherslur eru ekki hinar sömu. (Gripið fram í.)

Samfylkingin hefur lagt til, a.m.k. hluti hennar, að Ríkisútvarpið verði gert að sjálfseignarstofnun en reyndar er varaformaður flokksins hlynntur hlutafélagaleiðinni. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill að Ríkisútvarpið verði áfram ríkisstofnun og Frjálslyndi flokkurinn vill fara enn aðra leiðina. (Forseti hringir.) Frú forseti. Nú göngum við til atkvæða og við í stjórnarmeirihlutanum munum greiða þessu frumvarpi atkvæði okkar.