133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[17:06]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. formaður nefndarinnar segir. Það kom fram á fundi nefndarinnar að það hefði verið krafa samningamanna, fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Akureyrar, að leiðrétting kaupverðs gæti komið til ef þessi verðmæti yrðu seld á næstu árum fyrir annað verð en hér var um samið.

En það er ljóst að fyrirvararnir í 5. gr., um hvenær undanþága sé frá þessum ákvæðum sem sveitarfélögin vildu fá inn, eru frá ríkisvaldinu en ekki sveitarfélögunum. Það er alveg ljóst. Á bak við þá fyrirvara hlýtur einhver hugsun að vera. Það er líka ástæða til að velta því fyrir sér að nú liggur fyrir að frumvarp um breytingar á lögum á orkusviði, sem líka er á leið í gegnum þingið, hefur breyst með þeim hætti að þar er ekki lengur gert ráð fyrir því að fyrirtækin Rarik og Orkubú Vestfjarða falli undir Landsvirkjun. Það þýðir að viðbótar eigið fé sem átti að ganga til Landsvirkjunar mun ekki ganga til hennar. Er þá ekki ástæða til að velta því fyrir sér hvort hugsanlegt sé að það valdi því að reyna mundi á 5. greinina í samningnum og menn muni fara einhverja þeirra leiða sem þar eru nefndar til að auka eigið fé Landsvirkjunar? Ég vona sannarlega að svo sé ekki. En það er ástæða til þess að muna eftir þessu við afgreiðslu málsins.