133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

búnaðarfræðsla.

189. mál
[20:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður átti sig hreinlega ekki á þeim gjörningi sem þarna er um að ræða. Lögformlega er verið að rjúfa ráðningarsamband á milli stofnunarinnar og fólksins, ekki bara við hópinn heldur líka hvern einstakling. Hv. þingmaður sagði það sem hefur komið fram áður, að þetta eigi að skapa stofnuninni svigrúm til að endurráða og endurskipuleggja störfin. En það er ekki svo og það er nefnilega hættan.

Ég minni á hvernig það var haft þegar Bændaskólanum á Hvanneyri var breytt í landbúnaðarháskóla, nákvæmlega eins og hérna er verið að gera. Meginhluti starfseminnar var óbreyttur. Þá var sett í lögin að skipað og ótímabundið ráðið starfsfólk skyldi halda stöðum sínum. Þeir einir gátu þó orðið prófessorar og dósentar og lektorar sem uppfylltu kröfur þar að lútandi.

Slíkt væri með sama hætti hægt að setja þarna inn. Það hafa heldur ekki komið almennileg rök fyrir því, frá formanni landbúnaðarnefndar, hvers vegna nauðsynlegan er að segja öllu fólkinu upp, önnur en að ráðskast eigi með ráðningarsamninga fólksins upp á nýtt.