133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[22:28]
Hlusta

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni er vorkunn enda nýgræðingur hér í þinginu. Hann þekkir greinilega ekki almannatryggingar vegna þess að frítekjumark gagnvart tekjutryggingu í dag er hátt í 50 þús. kr. (Gripið fram í.) Það er verið að breyta almannatryggingunum algjörlega. Samkvæmt þessu frumvarpi, eins og það liggur fyrir, er frítekjumarkið ekki neitt. Það er alveg rétt. En það er ekki orðið að lögum. Lögin sem gilda í dag eru með frítekjumark gagnvart tekjutryggingu. Ég bið hv. þingmenn að kynna sér almannatryggingarnar áður en þeir fara að gaspra svona bull í ræðustóli Alþingis.

Hv. þingmaður, sem er búinn að fara með fleipur nokkrum sinnum í dag, a.m.k. í fjölmiðlum og hér í þessum stóli, ætti nú að kynna sér betur lögin. Ég hélt að þetta væri löglærður maður. Hann veit greinilega ekki meira um almannatryggingar en þetta. Ég held að hv. þingmaður ætti að fara heim og lesa áður en hann fer að halda hér fram öðru eins.

Varðandi það að aldraðir hafi verið undir hótunum þegar þeir samþykktu lífeyriskaflann þýðir lítið að eiga það við mig. Hann verður að ræða um þetta við eldri borgara og fulltrúa þeirra. (GÓJ: Þú ert …) Þeir hafa lýst þessu yfir, (Gripið fram í.) þeir hafa (Forseti hringir.) haldið þessu fram á fundum nefndarinnar, (Forseti hringir.) þeir hafa haldið þessu fram í fjölmiðlum, þeir hafa komið fram í sjónvarpi og lýst þessu yfir. Ásmundur hefur ekki sagt neitt í fjölmiðlum. Hann vildi ekki viðurkenna að þetta hefðu verið hótanir hjá nefndinni en hann er náttúrlega sáttasemjari og hefur án efa oftar beitt hótunum við samningagerð (Gripið fram í.) án þess að ég viti nokkuð um það. Ég hef aldrei verið á samningafundi hjá honum. En þetta verða menn að eiga við fulltrúa eldri borgara. Það þýðir ekki að vera að rífast um þetta við mig.