133. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[10:07]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessari breytingartillögu er lagt til að afnema tekjutengingu við tekjur maka, en í c-lið er lagt til 75 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna lífeyrisþega, svo að lífeyrisþegi geti fengið að halda 75 þús. kr. án þess að bætur hans skerðist.

Fyrir þremur dögum lagði ríkisstjórnin til að koma til móts við þessa tillögu okkar og leggja til 25 þús. kr. frítekjumark og það er auðvitað til bóta. En það er allt of skammt gengið. Við leggjum hér sem sagt til 75 þús. kr. án þess að þær skerði tekjutryggingar lífeyrisþega. Ég hvet þingmenn til þess að styðja það til þess að lífeyrisþegar geti orðið virkir í samfélaginu. Það er bæði samfélaginu og þeim sjálfum til hagsbóta.