133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:21]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér er breytingartillaga sem lýtur að því að tryggt verði öflugt verðlagseftirlit með verði á matvöru. Það er mikilvægt að hægt sé að fylgjast með því að þær lækkanir og þau skref sem eru tekin í dag, skili sér í vasa í neytenda.

Þess vegna þarf að tryggja að slíkt eftirlit fari fram og það þarf sömuleiðis að gæta að því að verslanir freistist ekki til að fara í einhvers konar verðlagshækkanir áður en kemur að gildistökunni til að mæta síðan væntingum hvað varðar lækkanirnar 1. mars.

Það er líka mikilvægt að þetta fari fram í ljósi þess að hagsmunaaðilar sem komu fram fyrir efnahags- og viðskiptanefnd deildu talsvert á útreikninga fjármálaráðuneytisins þegar kom að áhrifum þessara aðgerða. Þess vegna leggur Samfylkingin og stjórnarandstaðan í heild sinni þessa tillögu fram hér í dag.