133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:42]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Þessi umræða um fundarstjórn forseta er þörf eins og oft áður. Virðulegum forseta hlýtur t.d. að vera ljóst nú eftir þessa umræðu að sú afstaða sem virðulegur forseti tók til beiðni þingflokksformanna stjórnarandstöðunnar hefur líklega ekki verið rétt. Nú hefur verið upplýst í þessari umræðu, sem virðulegur forseti hefur væntanlega ekki heyrt áður því að hún var stödd erlendis, að formaður menntamálanefndar hafi sagt í fjölmiðlum að háttalag menntamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis í samskiptum við menntamálanefnd hafi verið ótækt og óásættanlegt og í umræðunni hér kemur varaformaður menntamálanefndar og tekur í raun sterklega undir það, því að hv. þm. Dagný Jónsdóttir sagði að þetta hefði verið afar óheppilegt og ástæðulaust. Það er því spurning hvort virðulegur forseti telur ekki ástæðu til að endurskoða afstöðu sína og leita a.m.k. eftir því við hæstv. menntamálaráðherra að það komi skýring á þessu háttalagi. Því að eins og hv. þm. Mörður Árnason sagði áðan bjuggust trúlega flestir við því að hæstv. ráðherra kæmi hér og bæðist afsökunar á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru.

Ég get endurtekið það sem ég sagði áðan, virðulegi forseti, að þegar menntamálanefnd fjallaði um þessi mál leitaði formaður menntamálanefndar ítrekað til menntamálaráðuneytisins varðandi þennan þátt málsins og fékk ætíð sömu svör, að þar væri ekkert að hafa, þ.e. þeim bréfaskriftum sem þá höfðu staðið yfir mánuðum saman var leynt. Það er rétt bæði hjá hæstv. ráðherra og formanni menntamálanefndar að vissulega voru gögnin afhent þegar á reyndi, þegar fjölmiðill var búinn að upplýsa að þau væru til staðar. (Gripið fram í.) Hv. formaður menntamálanefndar, Sigurður Kári Kristjánsson, notaði sjálfur þau orð að það væri ótækt og óásættanlegt hvernig ráðuneytið hefði komið fram í þessu máli. Gögnunum var ekki leynt eftir að þau voru afhent en þeim var leynt fram að þeim tíma. Ég er viss um að hv. þingmenn, bæði formaður og varaformaður menntamálanefndar, geta staðfest að það hefði verið upplýsandi fyrir nefndina að fá þetta strax, þó að það hefði ekki verið fyrr en í þinghléinu um jólin þegar nefndin fór sérstaklega að sinna þessum þætti, sem að vísu var margoft búið að reyna að fá fram en tókst aldrei.

Virðulegi forseti. Ég tek undir og æski þess að virðulegur forseti svari þeirri beiðni hv. þm. Marðar Árnasonar að það verði tryggt að umræðunni um frumvarpið sem hér er á dagskrá á eftir ljúki ekki fyrr en hið merka bréf 17.2 frá ESA hefur borist.