133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:43]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert sem fram kom í máli hv. formanns þingflokks Frjálslynda flokksins að það hefði ekki verið rætt, eins og ég hafði skilið, á fundum með þingflokksformönnum að ætlunin væri að fella niður fyrirspurnir á miðvikudag. En fram kemur í máli hv. þingmanns að hann hafi heyrt þetta fyrst í fjölmiðlum. (MÞH: Í Ríkisútvarpinu.) Í Ríkisútvarpinu sjálfu sem er svo sem viðeigandi, má segja. Það er algerlega óviðunandi að þingstörf að loknu hinu svokallaða jólaleyfi hefjist með þessum hætti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er enginn svipur á þinghaldinu með þeim hætti að því sé stjórnað með tilskipunum dag frá degi. Það nær varla deginum vegna þess að ekki var hægt að skilja t.d. minn ágæta hv. þingflokksformann á þingflokksfundi í dag öðruvísi en að ætlunin væri að hafa fund fram á kvöld. Það hafi verið skilningur þingflokksformanna á fundi með forseta, fram á kvöld.

Það er alveg ljóst, eins og tímasetningin sýnir okkur, að vissulega hefur fundur staðið fram á kvöld. Nú segir virðulegur forseti að það sé ekki ætlunin að ræna þingmenn nætursvefni. Það kallar auðvitað á það og ég ítreka það þar sem ég er næstur á mælendaskrá að það mundi auðvelda mér skipulag ræðu minnar ef ég fengi upplýst frá virðulegum forseta hvenær hann telur að ránið á nætursvefninum hefjist, á hvaða tímapunkti það rán hefjist. Ég gæti miðað ræðu mína að einhverju leyti við það að ég hefði þá fullvissu að nætursvefni yrði ekki rænt að þessu sinni. Það segði mér þá hvenær búast megi við að virðulegur forseti ljúki fundi í kvöld. Ég nota ekki orðið nótt því að það liggur fyrir að þetta er kvöldfundur og virðulegur forseti hafði sagt það á fundi að fundur væri fram á kvöld.

Ég vil einnig taka undir það svo virðulegur forseti hafi það alveg skýrt að það eru býsna mörg mál, sem hér hafa verið nefnd, í nefndum sem er óviðunandi að slíta þurfi í sundur. Ég tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar að í fjárlaganefnd á fimmtudag tökum við fyrir afar stóra og mikla skýrslu frá Ríkisendurskoðun um eftirlit með styrkjum til aðila utan ríkiskerfisins. Það er algjörlega ljóst að tvær klukkustundir eða tæplega það munu ekki duga nefndinni til að fara yfir það viðamikla mál og komast að niðurstöðu um það hvernig við skuli brugðist því að það hlýtur að kalla á verulega skoðun í þeirri ágætu nefnd.