133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[11:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (frh.):

Hæstv. forseti. Ég gerði hlé á ræðu minni um miðnætti í gær. Ég á eftir að fara yfir nokkur efnisatriði en vil jafnframt vekja athygli á að við 3. umr. hafa menn kost á að tala tvisvar og mun ég fara ítarlegar yfir þetta mál í síðari ræðu minni. Ég mun því aðeins stikla á helstu atriðum í málinu núna.

Ég vil byrja á að taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Merði Árnasyni. Hann talar fyrir sáttaleið í þessu máli. Ég hvet alþingismenn til að leggja við hlustir þegar hann setur sáttargjörð sína fram. Ég vek athygli á því að stjórnarandstaðan stendur heils hugar að baki þessum tillögum. Þær snúa að því að við sameinumst um lágmarksbreytingar á Ríkisútvarpinu en látum deilumálin bíða síðari tíma. Þetta held ég að sé hyggilegt að gera. (KÓ: Hver eru deilumálin?) Hver eru deilumálin? er spurt úr sal. Þau snúa að sjálfsögðu að rekstrarformsbreytingunni, því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi.

Hæstv. forseti. Ég ætla í örfáum orðum að rifja upp það helsta sem fram kom í máli mínu í gærkvöldi. Ég byrjaði á að fjalla upp EFTA-pappírana, þ.e. samskipti ríkisstjórnar eða ráðuneyta, fjármálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis, við Eftirlitsstofnun EFTA, þ.e. ESA. Þingið varð þess áskynja, fyrst eftir að Fréttablaðið vakti athygli á því fyrir fáeinum dögum, að fram hefðu farið samskipti milli ríkisstjórnarinnar og ESA allt árið 2005 án þess að þingið hefði fengið um það upplýsingar. Reyndar stóðu þessi samskipti fram til 9. janúar síðastliðins og enn eiga eftir að koma plögg þar að lútandi. Enn á eftir að koma staðfesting frá ESA sem ríkisstjórnin segir að liggi í loftinu, við eigum eftir að fá það plagg í hendur.

Ég fór lítillega yfir efnisinnihald umræddra pappíra en þeir snúa einkum að þremur þáttum, þ.e. spurt var um eftirlit með Ríkisútvarpinu, bókhaldi og öðru slíku. Þeir snúa síðan að þeim reglum sem til komi með að verða viðhafðar við að aðgreina almannaþjónustuhluta Ríkisútvarpsins og hitt sem er viðskiptalegs eðlis, m.a. varðandi ákvörðun nefskattsins. Hugsunin er sú að hann gangi einvörðungu til almannaþjónustu. En einnig, ef verksvið Ríkisútvarpsins kemur til með að breytast á komandi árum, hvaða ferli verði viðhaft til að greina að þessa tvo hluta. Við álítum að þetta snúi að grundvallaratriðum þessa máls. Margir hafa efasemdir um að Ríkisútvarpið komi til með að standast samkeppnislög og hins vegar Evrópurétt hvað þetta snertir.

Ég er ekki aðdáandi Evrópuréttar, miðstjórnarvaldsins í Brussel eða heilagrar ritningar markaðarins sem þar er í hávegum höfð. Mér finnst Samkeppnisstofnun líka hafa fært sig upp á skaftið. Það gerir hún hins vegar samkvæmt þeim lögum og reglum sem henni er gert að starfa samkvæmt, lögum sem sett eru á þinginu og mér finnst mikilvægt að við göngum ekki gruflandi að þessum málum. Ef við búum ekki vel um þetta mál og hnýtum alla hnúta þá er hætt við að örlög Ríkisútvarpsins verði ráðin fyrir dómstólum.

Ýmsa þætti þyrfti að gaumgæfa miklu betur. Ég spyr t.d.: Hvað með þá staðhæfingu að iðgjöldin, sem koma til með að verða nefskattur, niðurgreiði auglýsingar, haldi auglýsingaverði niðri eins og samkeppnisaðilar hafa haldið fram? (Gripið fram í: Hvernig er það í dag?) Hvað með þennan þátt í dag? er spurt úr sal. Ég held að það sé ekki kannað nægilega vel. Ég hef grun um að Ríkisútvarpið sé komið á mjög hálar brautir hvað þetta snertir á þessari stundu. Það er jafnvægiskúnst að finna hinn gullna meðalveg þannig að allir geti unað vel við sitt, bæði Ríkisútvarpið sem almannaútvarp og aðrir fjölmiðlar á markaði. Þetta eru hlutir sem skoða þarf rækilega.

Ég hef grun um að Ríkisútvarpið, varðandi auglýsingatekjur og hugsanlega verðlagningu á þeim, sé komið út á hálar brautir. Þar er sitthvað sem eðlilegt hefði verið að færa betur upp á yfirborðið og ætla ég þá ekki að minnast á kostun í Ríkisútvarpinu, sem ég tel yfir höfuð vera afar varhugaverða.

Það kom fram í aðdragandanum að þessari umræðu, í umræðu um störf þingsins og fundarstjórn forseta, að enn eiga eftir að koma upplýsingar sem snúa að fjárhag Ríkisútvarpsins sem eiga fullt erindi inn í þessa umræðu. Af þeim sökum hefði verið eðlilegt að skjóta umræðunni á frest þannig að öll gögn lægju fyrir. Ég vakti einnig athygli á því að ríkisstjórnin var tilbúin að afgreiða þetta mál í desember þótt, eins og nú hefur komið fram, ekki lægi fyrir þinginu endanlegt uppgjör gagnvart ESA eins og eftir hafði verið leitað. Þetta vekur athygli. Það vekur óhug hjá mér að stjórnarmeirihlutinn sé reiðubúinn að skilja Ríkisútvarpið eftir í annarri eins óvissu varðandi framtíðina gagnvart ásókn samkeppnisaðila frammi fyrir íslenskum dómstólum á grundvelli samkeppnislaga og hugsanlega einnig Evrópuréttar og ESA. Í grundvallaratriðum gengur röksemdafærsla okkar út á að Ríkisútvarpið, eftir að því er breytt úr almannaútvarpi og opinberri stofnun yfir í einkaréttarlegt fyrirtæki, komi til með að standa berskjaldað frammi fyrir þeim aðilum sem munu sækja að því á grundvelli þessara laga, samkeppnislaga og Evrópuréttar. Þetta var fyrsta atriðið sem ég fór ítarlegra yfir í máli mínu í gærkvöldi.

Ég ræddi einnig um að ég óttaðist að rofin yrði sátt sem ríkt hefði um Ríkisútvarpið allar götur frá því að það var sett á laggirnar árið 1930. Mjög hægri sinnað fólk hefur gagnrýnt Ríkisútvarpið og löggjafann á undanförnum árum, fólk sem ekki sættir sig við að greiða til almannaútvarps lögþvingað gjald. En sú gagnrýni hefur takmarkast við tiltölulega lítinn hóp að ég tel. Nú er sú hætta fyrir hendi að þessi hópur fari stækkandi auk þess sem margir í hinu pólitíska litrófi munu hafa sínar efasemdir um að greiða lögþvingaðan skatt til opinberrar starfsemi sem tekin er undan lögum og reglum sem gilda um slíkar stofnanir og starfsemi. Þar vísa ég í stjórnsýslulög og önnur lög, að ekki sé minnst á réttindi starfsmanna sem þeir hafa barist fyrir og samið um í ára og áratuga rás en eru nú að engu höfð, eru í besta falli skilin eftir í mikilli óvissu.

Ég vitnaði í grein sem útvarpsstjóri, Páll Magnússon, skrifaði í Morgunblaðið fyrr í þessari viku. Þar heldur hann því fram að 60% þjóðarinnar séu hlynnt breytingu Ríkisútvarpsins í hlutafélag. Hann notar þær niðurstöður til að að hvetja alþingismenn til dáða, að þeir skuli láta þær niðurstöður örva í ákvarðanatökunni.

Í fréttum Ríkisútvarpsins frá 20 sept. síðastliðnum sagðist Páll Magnússon útvarpsstjóri afar ánægður með niðurstöðuna úr viðhorfskönnunum RÚV og hann vonaðist til að niðurstaðan virkaði hvetjandi á stjórnmálamennina þegar þeir tækju ákvörðun um framtíð Ríkisútvarpsins. Hann vísar þar í Gallup-könnun sem hann sjálfur lét gera. Hann segir í umræddri Morgunblaðsgrein, með leyfi forseta:

„Í nýlegri skoðanakönnun Gallup kemur í ljós að um 60% þjóðarinnar, af þeim sem tóku afstöðu, eru hlynnt breytingu RÚV í opinbert hlutafélag.“

Bíðum nú við. Hér er þessi margumtalaða könnun Gallups, viðhorfsrannsókn sem gerð er fyrir RÚV. Hún er mjög ítarleg. Þar kemur fram að almennt eru landsmenn mjög ánægðir með Ríkisútvarpið eins og það hefur verið rekið og í því umhverfi sem það hefur starfað.

Undir lok hinnar viðamiklu könnunar þar sem spurt er um aðskiljanleg efni er spurt eftirfarandi spurningar: Til stendur að breyta rekstrarformi RÚV þannig að það verði hlutafélag í ríkiseigu. Ertu almennt ánægður eða óánægður með hið nýja rekstrarfyrirkomulag?

Með öðrum orðum er gengið út frá því sem vísu að breytingin sé orðin að veruleika nánast, að Ríkisútvarpið verði hlutafélag, eftir allar þessar spurningar um hvort fólk sé ánægt eða óánægt með það sem þegar hefur. Varðandi þessa spurningu kemur í ljós að 12,6% eru mjög ánægð með þetta nýja rekstrarfyrirkomulag — sem ekki er orðið að veruleika — frekar ánægð 33,5%, hvorki né 23,7%. Ég sagði hér í gær í ræðu að þessi tala hefði verið 28% en hið rétta er 23,7%. Frekar óánægð voru 16,4% og mjög óánægð 13,8%.

Bíðum nú við. Varðandi spurninguna um hvort fólk sé ánægt með rekstrarfyrirkomulagið kemur með öðrum orðum í ljós að 12,6% eru mjög ánægð og 33,5% frekar ánægð. Hvað gerir það? Það gerir 46,1% en ekki þau 60% sem útvarpsstjóri víkur að í grein sinni, þótt hann taki jafnframt fram að ekki sé þar tekið tillit til þeirra sem eru hvorki ánægð né óánægð með rekstrarfyrirkomulagið. Þarna kemur fram að undir 50% getur sætt sig við þessa breytingu.

Ég legg áherslu á að hér erum við að tala um stofnun sem næstum 100% samstaða hefur verið um í samfélaginu. Það á þeim forsendum sem ég vara við þessari breytingu, að rjúfa þá sátt sem ríkt hefur um Ríkisútvarpið. Það er kannski heldur djúpt í árinni tekið að tala um 100% sátt en yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar hef ég trú á að hafi verið hlynntur Ríkisútvarpinu í almannaeign. Þeirri sátt er ógnað með því að gera það að hlutafélagi og færa það í einkaréttarlegt horf. Ég óttast það í þessu máli.

Menn hafa velt fyrir sér hvað gerist í framtíðinni. Ég fór einnig yfir það í gær að verið sé að stíga spor aftur á bak með þessari breytingu. Í raun er verið að herða pólitískt tak á þessari stofnun á óeðlilegan hátt. Mér finnst ekki óeðlilegt fyrir mitt leyti að stjórnmálamenn eða fulltrúar Alþingis komi að Ríkisútvarpinu. Ég berst fyrir því að Ríkisútvarpið lúti Alþingi, það setji því reglurnar, en Alþingi hafi einnig að gegna ákveðnu eftirlitshlutverki. Í frumvarpi sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram í þinginu um Ríkisútvarpið og gerbreytta stjórnsýslu þess viljum við að þingið tilnefni fulltrúa í það sem við köllum dagskrárráð. Það á að sjá til þess að Ríkisútvarpið fari að þeim lögum og reglum sem því eru sett og verði vettvangur á milli þjóðar og útvarps um upplýsingar og skoðanaskipti en öll stjórnsýsla fari inn í stofnunina.

Með þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar er því fyrirkomulagi komið á að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hverju sinni hafi jafnan meiri hluta í útvarpsráði, sem kosið er árlega. Þetta útvarpsráð kýs síðan útvarpsstjóra sem fer með einræðisvald, alræðisvald innan veggja stofnunarinnar, ræður þar einn öllu um mannahald, getur ráðið og rekið starfsmenn og hefur einn yfirráð yfir dagskrárgerð Ríkisútvarpsins. Þetta er mjög óeðlilegt, afar óeðlilegt fyrirkomulag, andlýðræðislegt og byggir ekki á þeim hefðum sem skapast hafa í Ríkisútvarpinu, sem byggja á samvirkni og samkennd, að virkja sameiginlegan kraft starfsmanna en ekki píramídahugsun fyrirtækisins þar sem forstjórinn einn ræður. Þetta er skref aftur á bak og sérstaklega dapurlegt fyrir þessa stofnun sem byggir á allt öðrum hefðum hvað þetta snertir.

Annað sem ég hef gagnrýnt í máli útvarpsstjóra er þegar hann gefur til kynna í grein sinni að starfsmenn Ríkisútvarpsins séu hlynntir þessari breytingu. Í því sambandi hefur útvarpsstjórinn vitnað í bréf sem starfsmannasamtökin skrifuðu alþingismönnum fyrir nokkru síðan þar sem þau hvöttu til breytinga á lögum um Ríkisútvarpið. Í fyrrnefndri grein útvarpsstjóra segir, með leyfi forseta:

„Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins styðja einnig breytingar á rekstrarformi RÚV — þótt þau hafi ekki tekið afstöðu til þess hvaða form skuli verða fyrir valinu. Stjórn samtakanna sendi öllum þingmönnum áskorun um breytingar snemma á síðasta ári. Og það þarf væntanlega ekki að fjölyrða um afstöðu stjórnenda Ríkisútvarpsins til málsins.“

En bíðum nú við. Hvað er hér verið að segja? Í fyrsta lagi skulum við hafa í huga að Starfsmannasamtök Ríkisútvarps eru eins konar regnhlífarsamtök sem láta sameiginlegan hag starfsmanna sig varða. Þetta eru ekki samtökin sem semja um réttindi og kjör starfsmanna. Það gera önnur félög og vísa ég þar í Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins. Ég vísa í Útgarð. Ég vísa í Félag fréttamanna. Ég vísa í Rafiðnaðarsambandið. En fyrrnefndu félögin eiga síðan aðild að BHM og BSRB sem samið hafa um réttindi og kjör. Það eru þau samtök sem starfsmenn hafa falið að gæta hagsmuna sinna.

Hins vegar hefur það lengi verið krafa starfsmannafélaganna og starfsmanna innan Ríkisútvarpsins að breytingar verði gerðar á lögum um stjórnsýslu Ríkisútvarpsins og um það er breið samstaða í þinginu líka. Þar þarf ýmsu að breyta. Við erum aldeilis ekki á því máli að óbreytt ástand eigi að ríkja. Ýmsar brotalamir þarf að laga þótt ég minni aftur á að Ríkisútvarpið, þrátt fyrir ýmsa galla í löggjöfinni, hefur gert margt afar vel á undanförnum árum og áratugum eins og alþjóð er kunnugt. En þegar við ráðumst í breytingar þurfum við hins vegar að vanda okkur.

Við skulum líka gæta okkur á því að fordæma ekki allt það sem er eða verið hefur að óathuguðu máli. Við skulum til dæmis ekki gleyma því að afskipti útvarpsráðs, sem ég tel þó vera meingallað í því formi sem það er í núna, eru þó ekki meiri en þau að útvarpsráð hefur umsagnarrétt um ráðningu fréttamanna og dagskrárgerðarmanna, umsagnarrétt. Það er síðan tekin ákvörðun um það innan stofnunarinnar af hálfu útvarpsstjóra hver það er sem er ráðinn. Núna, og eftir þessar breytingar kemur valdið til með að vera hjá útvarpsstjóra einum. Enginn hefur einu sinni umsagnarrétt um málið.

Víkjum síðan aðeins að því hvernig starfsmannasamtökin og önnur samtök launafólksins hafa brugðist við í þessu máli. Sendar hafa verið inn álitsgerðir frá nánast öllum hagsmunasamtökum starfsmanna og þar á meðal frá umræddum Starfsmannasamtökum Ríkisútvarps. Þar kemur fram að menn telja ýmsu ábótavant í þessu frumvarpi. Ég vitna í umsögn stjórnar Starfsmannasamtaka Ríkisútvarps þar sem segir, með leyfi forseta:

„SSR telur kaflann um réttindi starfsmanna ófullnægjandi. Ljóst er að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins geta ekki gilt um starfsmennina eftir breytingu Ríkisútvarpsins í Ríkisútvarpið ohf. Réttindi starfsmanna ríkisins samkvæmt ofannefndum lögum teljast hluti af kjörum þeirra og verða því ekki afnumin án þess að í felist skerðing á kjörum.“

Er þetta mikil hrifning? Ég hefði nú haldið ekki. Síðan segir undir lokin í þessari ályktun, með leyfi forseta:

„Auk þess vísar SSR til umsagnar BHM og BSRB varðandi réttarstöðu starfsmanna.“

Hér er réttilega vísað til umsagna til þeirra aðila sem um þau mál fjalla og er falið að fjalla. Þetta eru samtökin sem hafa samið um kjörin og um þau réttindi sem verið að skerða með þessum lögum. Hver skyldi nú vera afstaða þeirra samtaka sem SSR, Starfsmannasamtök Ríkisútvarps, vísa í og gera þar með að sínum. Þar er mjög afdráttarlaus gagnrýni sett fram á þessar lagabreytingar. En undir lok ítarlegs álits frá þessum samtökum segir, með leyfi forseta:

„Að öllu framangreindu virtu er það eindregin afstaða BSRB og BHM að leggja til að frumvarp þetta nái ekki fram að ganga.“

Að þetta frumvarp nái ekki fram að ganga. Þetta er afdráttarlaus krafa frá starfsmönnum Ríkisútvarpsins og þeirra samtökum.

Hvað gerir ASÍ? Rafiðnaðarsambandið er innan Alþýðusambands Íslands. Hvaða afstöðu skyldi Alþýðusamband Íslands taka í þessu máli? Þar kemur fram mjög ákveðin afstaða. Ég ætla að leyfa mér að vitna í athugasemdir frá Alþýðusambandi Íslands, frá 3. nóvember 2006. Hér segir, með leyfi forseta:

„Alþýðusambandið gaf umsagnir um frumvörp þau sem til umfjöllunar voru á tveimur síðustu þingum. Þá var lýst andstöðu við fyrirhugaðar breytingar á bæði rekstrarformi og fjármögnun Ríkisútvarpsins ... ASÍ var og er þeirrar skoðunar að víðtækt hlutverk RÚV í almannaþágu, bæði í óháðri fréttamiðlun og menningarlegu hlutverki, sé þess eðlis að afar mikilvægt sé að RÚV verði með öruggum hætti áfram í almannaeigu. Ákvæði 1. gr. frumvarps þess sem nú er til umfjöllunar mætir þeim sjónarmiðum að nokkru.

ASÍ telur mikilvægt er að standa vörð um sjálfstæði RÚV og telur að það megi gera með því að taka upp svipað fyrirkomulag og þekkist víða, þ.e. að starfsmönnum og sjálfstæðum aðilum utan stofnunar verði auk þings og ráðherra gert að skipa fulltrúa í stjórn stofnunarinnar. Fyrir þessu er ekki gert ráð í því frumvarpi sem nú er til umfjöllunar.“

Síðan segir undir lokin, með leyfi forseta:

„Þá er og bent á, að til þess að tryggja sjálfstæði starfsmanna gagnvart stjórn og framkvæmdastjóra er og nauðsynlegt að lögin geymi sérstök ákvæði um málefnalegar, rökstuddar og áfrýjanlegar uppsagnir.“

ASÍ gagnrýnir þetta sem sagt líka og lýsir andstöðu við fyrirhugaðar breytingar bæði á rekstrarformi og fjármögnun Ríkisútvarpsins. Þetta er afdráttarlaus afstaða líka. Engu að síður kýs útvarpsstjóri að ógleymdum hæstv. menntamálaráðherra að virða þessi sjónarmið að vettugi og gefa í skyn að þetta sé allt saman í sátt bæði við þjóðina og starfsmenn Ríkisútvarpsins. Það er mjög ósvífinn málflutningur að halda slíku fram.

Ég vék að því í gær einnig að samningsbundnum rétti starfsmanna til aðkomu að stjórn Ríkisútvarpsins er ekki sinnt. Samningum er í reynd einhliða rift hvað þetta snertir. Fulltrúar starfsmanna hafa haft aðgang að framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins í rúma tvo áratugi og það grundvallast á samningum sem BSRB og ríkisvaldið gerðu árið 1980. Vísa ég þar í undirskriftir frá ágústmánuði og frá því í september, að ég hygg, það ár, frá 20. ágúst og frá 8. september árið 1980. Í samræmi við það voru settar reglur um starfsmannaráð í ríkisstofnunum.

Á grundvelli þessara laga og þessa samkomulags, þessa samnings BSRB og ríkisins gerðu starfsmannafélögin í Ríkisútvarpinu samkomulag við stjórn stofnunarinnar um aðkomu að framkvæmdastjórninni. Þessu er núna ýtt út af borðinu og það er ekki einu sinni rætt. Það er ekki einu sinni um að ræða það af hálfu ríkisstjórnarinnar sem fer svona með samninga.

Þar sem ég er að tala um kjör starfsmanna þá vil ég nefna að í haust, nánar tiltekið 20. nóvember, var efnt til fundar með starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Það gerði útvarpsstjóri. Áréttaði hann það síðan skriflega sem fram kom á þeim fundi um réttindi starfsmanna svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að hið nýja félag yfirtaki allar skuldbindingar stofnunarinnar gagnvart starfsmönnum, — bæði skv. ráðningarsamningum og kjarasamningum.

Réttindi starfsmanna haldast því óskert — verði frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. að lögum — þó eru „sólarlagsákvæði“ varðandi biðlaunaréttinn.

LSR hefur sömuleiðis staðfest áframhaldandi rétt starfsmanna RÚV til aðildar að A-deild sjóðsins — að fengnu samþykki vinnuveitanda — sem gert er ráð fyrir að hið nýja félag veiti, — verði frumvarpið að lögum.“

Þetta er yfirlýsing sem kom fram hjá Páli Magnússyni. Hvað segir þessi yfirlýsing? Þessi yfirlýsing segir í reynd harla lítið. Hún segir það að á meðan núverandi kjarasamningar halda — og það gera þeir fram á árið 2008 — haldist réttindi starfsmanna óskert, þ.e. það sem bundið er í ráðningar- og kjarasamningum.

En síðan eru ýmis lög og réttindi sem er grundvölluð í lögum sem Ríkisútvarpið yrði fært undan samkvæmt þessu frumvarpi ef það verður lögfest. Þar er ég að tala um stjórnsýslulög og ég er að tala þar um lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Í þeim lögum er að finna ýmis ákvæði sem tryggja starfsmönnum tiltekin réttindi. Ég nefni til dæmis áminningarskyldu. Við erum að tala um umhverfi þar sem útvarpsstjóri fær rétt til að ráða og reka starfsmenn og þá eru ýmsir varnaglar slegnir inn í kjaraumhverfi opinberra starfsmanna. Eitt af þeim er áminningarskyldan. Annað er svokallaður andmælaréttur, þ.e. að starfsmenn hafa rétt til að andmæla ef þeir telja á sér brotið. Áminningarskylduna er að finna í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Ætlar útvarpsstjóri að virða áminningarregluna og ný stjórn Ríkisútvarpsins? Ætlar hann að virða hana? Ætlar hann að virða andmælaréttinn sem er grundvallaður í stjórnsýslulögum og einnig í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna? Verður hann virtur eða er þetta óskrifað blað? Fleiri réttindi mætti eflaust tína til en ég nefni þessi sérstaklega.

Ég vek einnig athygli á því að enda þótt lögum samkvæmt við hlutafélagavæðingu eða niðurlagningu stöðu hjá hinu opinbera eigi menn rétt á áframhaldandi aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, ef um slíkt er að ræða, þá getur verið fólgin í því kjaraskerðing. Einstaklingur sem færist upp launastigann, svo dæmi sé tekið, nýtur ekki ávinningsins af því klifri eftir að stofnun hefur verið hlutafélagavædd eða færð undan opinberum lögum.

Hitt er alveg rétt að svo lengi sem fólk á aðild að heildarsamtökum opinberra starfsmanna getur það áfram átt aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og það á reyndar einnig við um nýráðningar. Ef stjórn hlutafélags fellst á að opna greiða leið fyrir starfsmenn inn í A-deild Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna þá er það hægt svo fremi sem samningsréttur aðildarfélaga BSRB eða BHM er virtur. Þegar spurt hefur verið um þetta og leitað svara um þetta efni fáum við engin svör. Og þegar ég hef sagt að útvarpsstjóri sé afvegaleiðandi í upplýsingum sínum til starfsmanna og ummæli hans misvísandi gagnvart þeim annars vegar og því sem hann segir innan þingsins hins vegar þá er ég að vísa til þess að á nefndarfundum menntamálanefndar hefur útvarpsstjóri sagt að það sem taki við þegar kjarasamningum og ráðningarsamningum sleppi 2008, þegar kjarasamningar eru úti, sé óljóst, það sé óskrifað blað. Þess vegna vitum við og starfsmenn ekkert um hvað tekur við eftir að kjarasamningar renna út á árinu 2008. Það er þetta sem stéttarfélögin hafa viljað fá svör við áður en þessi lög verða afgreidd. Þau lögðu einnig til að inn í lagafrumvarpið yrði skotið bráðabirgðaákvæði til þess að loka fyrir ýmsa óljósa þætti en ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur ekki fallist á slíkt.

Lágmarkskrafa hefði verið sú að gengið væri til samkomulags við stéttarfélögin þar sem rammayfirlýsing, þó ekki væri annað, væri gefin eða gengið frá sem tryggði aðkomu félagslegra aðila, sem tryggði aðkomu stéttarfélaganna að samningum um kaup og kjör eftir að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi sem ég svo sannarlega vona að verði ekki. Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að gera það? Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að ganga frá slíku samkomulagi? Ef mönnum væri alvara með að tryggja að lágmarki óbreytt kjör og rétt fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins ætti mönnum ekki að vera skotaskuld úr því að ganga til slíkra samninga. Hvers vegna er það ekki gert?

Við fáum hins vegar að heyra það þegar vakin er athygli á fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins sem hefur farið versnandi í tíð núverandi ríkisstjórnar þegar á heildina er litið með þeim afleiðingum að Ríkisútvarpið hefur þurft að draga saman seglin, og við höfum heyrt það hér í salnum, að engin áform eru uppi um það, því miður, að bæta stöðu þessarar stofnunar fjárhagslega. Og þegar útvarpsstjóri eða forsvarsmenn Ríkisútvarpsins aðrir hafa verið spurðir hvernig þeir ætli að bregðast við fjárhagsvandanum segja þeir: „Við munum mæta henni með hagræðingarkröfu.“

Í hverju felst hún? Engin svör. Á að segja upp fólki? Hverjum? Hve mörgum? Á hvern hátt á að hagræða? Hvers vegna fáum við ekki svör við þessum spurningum? Ég ítreka aftur, hæstv. forseti, að það er eðlilegt að við fáum, áður en þessari umræðu lýkur og helst ætti að skjóta henni á frest, upplýsingar um þau fjárhagsatriði sem þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, hefur óskað eftir og gerði í desember og átti að vera búin að fá svör við innan tíu daga en þau svör hafa ekki borist enn og það stríðir gegn þingskapalögum.

Síðan vil ég vekja athygli á því að þau samtök sem hafa sérstaklega látið sig hag Ríkisútvarpsins varða, Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins, hafa lagst mjög eindregið gegn þessari lagabreytingu. Þau hafa lagst mjög eindregið gegn því að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi og ekki bara þau samtök, það má vísa í fjölmarga aðra aðila, einstaklinga. Ég vísa í varnaðarorð Hrafns Gunnlaugssonar sem á sínum tíma gegndi stjórnunarstöðu hjá Ríkisútvarpinu. Hann telur þetta hið mesta óráð og verður sá maður seint sakaður um einhverja vinstri villu, eins og einhver kynni að hafa komist að orði. Hann telur að með hlutafélagavæðingunni séum við að fara inn á mjög hálar brautir. Ég vísa einnig í grein sem þrír fyrrverandi menntamálaráðherrar þjóðarinnar skrifuðu í Morgunblaðið 1. júní í vor, Sverrir Hermannsson, Ingvar Gíslason og Ragnar Arnalds, þar sem þeir vara mjög eindregið við þessari lagabreytingu í opnu bréfi til allra alþingismanna. En ég nefndi hollvinasamtökin, þau hafa efnt til nokkurra funda um þetta málefni og hér er ég með lítinn pésa frá þeim samtökum þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Nú eru allar líkur á því að nýtt frumvarp um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins verði samþykkt á Alþingi við upphaf þings.“ — Þetta var síðastliðið haust. Áfram segir, með leyfi forseta: „Samtökin okkar eru trú þeirri meginstefnu sinni sem verið hefur frá upphafi að berjast gegn einkavæðingu Ríkisútvarpsins og gegn hverju skrefi sem kynni að verða stigið í þá átt, hvort sem það væri svokölluð hlutafélagavæðing eða eitthvað annað. Hollvinasamtökin hafa ávallt lagt áherslu á að snúa vörn í sókn og efla Ríkisútvarpið til að gegna því hlutverki sem það hefur samkvæmt núgildandi lögum svo að það megi áfram vera ríkisútvarp í almannaeign og hornsteinn menningar og lýðræðis í landinu.“

Þetta kemur frá samtökum sem eru sérstaklega stofnuð til að styðja og styrkja Ríkisútvarpið og þau vara við því að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi. Ég minni á, eins og margoft hefur reyndar komið fram, að okkur er sagt að ekki standi til að selja Ríkisútvarpið. Við skulum ekkert gefa okkur í þeim efnum. Ég efast ekkert um góðan og heiðarlegan ásetning margra þingmanna í stjórnarmeirihlutaliðinu hvað þetta snertir en spurningin er hverju þeir fá ráðið þegar fram líða stundir. Annars vegar, eins og ég færði rök fyrir í upphafi máls míns, er hætt við því að eftir að Ríkisútvarpið verður fært í einkaréttarform og varnir þess veiktar gagnvart samkeppnisaðilum þá verði framtíð þess ráðin frammi fyrir dómstólum og m.a. muni það gerast að undirstöður þeirrar stofnunar muni molna. Ég held t.d. að það kunni að verða erfitt fyrir Ríkisútvarpið að standa á því að fjármagna sig nákvæmlega með þeim hætti sem það gerir núna, að 1/3 eru það auglýsingatekjur og að 2/3 eru það iðgjöld sem eiga að færast yfir í nefskatt. Ég er fylgjandi þessari skiptingu einfaldlega vegna þess að ég vil að fjárhagur Ríkisútvarpsins sé rúmur til að það geti sinnt menningarlegum skyldum sínum sem fjölmiðill og menningarstofnun sem rís undir hlutverki sínu.

Ég hef efasemdir um að það sé vilji til þess hjá fjárveitingavaldi, löggjafa og almenningi að greiða miklu meira, láta miklu meira af hendi rakna til Ríkisútvarpsins en nú er gert. Þess vegna þarf Ríkisútvarpið á auglýsingatekjum að halda auk þess sem ég tel auglýsingar geta verið efni í fjölmiðlum sem er góðra gjalda vert til að koma upplýsingum á framfæri við almenning í landinu. Svo er önnur saga hvernig auglýsendur fara með það vald, en það er önnur saga og önnur umræða. Ég óttast að þessum undirstöðum, þessum leiðum Ríkisútvarpsins til að fjármagna sig sjálft sé í voða stefnt með þessari breytingu. Ég hef áður vakið máls á því að ég tel að Ríkisútvarpið hafi ekki vandað sig sem skyldi í þeim efnum. Þetta er atriði sem við hefðum þurft að ræða miklu betur og fara betur í saumana á.

Það er á þennan hátt sem jafnvel góður ásetningur þeirra sem vilja breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins og gera það að hlutafélagi mun ekki ná fram að ganga, ég óttast að hann muni lenda í erfiðleikum frammi fyrir dómstólunum vegna þeirrar breytingar sem við erum að gera núna.

Í annan stað minni ég á að til eru þeir þingmenn og sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins sem eiga sér þá hugsjón að koma Ríkisútvarpinu á markað, að selja það. Ég man eftir ágætum hv. þingmanni, Kjartani Ólafssyni, sem sagði að vísu um aðra starfsemi, ég held að það hafi verið raforkuveiturnar: Það er allt til sölu ef við fáum rétt verð — ef við fáum rétt verð, ég skal ekki gleyma að bæta því við. Svo erum við mörg sem teljum að sumir hlutir verði vart metnir til fjár og vitna ég þar aftur í blaðagrein, hið opna bréf sem þrír fyrrverandi menntamálaráðherrar skrifuðu alþingismönnum og birt var í Morgunblaðinu 1. júní sl. Þeir sögðu einmitt eitthvað á þá lund að sumir hlutir, sum gildi, sumar stofnanir, starfsemi, yrði vart metin til fjár, gildi þess fælist í öðru. Ég finn ekki nákvæmlega þá tilvitnun og minni á að ég las þetta bréf upp í gær þannig að það er komið í þingtíðindi, ég ætla þess vegna ekki að eyða tíma mínum í að finna þessa tilvitnun nákvæmlega en hana er hér eftir að finna í Alþingistíðindum. Það er verið að stefna Ríkisútvarpinu í hættu og ég vildi sérstaklega vekja athygli á afstöðu Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins sem eru samtök áhugafólks, opin öllum að sjálfsögðu, þar er að finna fólk úr öllum stjórnmálaflokkum sem tekur þessa afstöðu, biður Alþingi um að fara með gát og varar við því að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir.

Síðan er náttúrlega einn þáttur í þessu máli sem er pólitískur og snýr að þeim stjórnmálaflokkum sem standa að þessari makalausu lagasmíð og vísa ég þar í samþykktir sem bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa sent frá sér í áranna rás. Ég vil nefna það við hæstv. forseta að ég hef ákveðið að gera það sérstaklega að umræðuefni í síðari ræðu minni um þetta mál, síðari ræðu minni við 3. umr. málsins. Þá mun ég fara mjög rækilega yfir afstöðu Sjálfstæðisflokksins til málsins annars vegar og Framsóknarflokksins hins vegar, en það er mikil sorgarsaga hvernig sá vesalings flokkur kemur að þessu máli og reyndar ýmsum öðrum sem komið hafa til kasta þingsins allar götur frá því það hjónaband hófst vorið 1995 þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsókn gengu í eina sæng.

Í hverju málinu á fætur öðru hefur þessi vesalings flokkur lyppast niður. Flokkur sem einu sinni var reiðubúinn að standa vörð um samvinnuhugsjón hlýðir núna Sjálfstæðisflokknum í einu og öllu, gefur eftir á öllum sviðum og núna gagnvart Ríkisútvarpinu, útvarpi allra landsmanna, sem hann ályktaði um að aldrei skyldi gert að hlutafélagi.

Síðan var víglínan færð til og menn segja: Tíminn líður. Einn þingmaður sagði meira að segja fyrir nokkrum dögum af öðru tilefni að mánuður væri langur tími í pólitík og okkur var gefið til kynna að á slíkum tíma væri hægt að svíkja margt, hlaupa frá fyrri samþykktum og yfirlýsingum. Svo var að skilja á þingmanni af yfirlýsingu af öðru tilefni. Þetta hefur Framsóknarflokkurinn einmitt gert. Hann hefur ályktað mjög ákveðið um Ríkisútvarpið og afstöðu sína til þeirrar stofnunar, að hann mundi standa vörð um hana. Hana átti alls ekki að hlutafélagavæða. Síðan átti að efla Rás 2, það mátti ekki selja Rás 2. En hvað er að gerast með þessu frumvarpi? Dregið er úr lagaskyldu Ríkisútvarpsins að reka tvær rásir, nú er það ein rás. Nú er hægt að opna fyrir söluna eða lokun á Rás 2. Hvar er Framsókn? Að sjálfsögðu hvergi, heldur tekur undir með íhaldinu um að málið verði keyrt til lykta hið allra fyrsta.

Núna heldur Framsóknarflokkurinn sér í það strá að það sem málið snúist fyrst og fremst um sé eignarhaldið á Ríkisútvarpinu, það skipti öllu máli. Núna eftir að við sannfærðumst um að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að selja, þá er alveg óhætt að hlutafélagavæða, segir Framsókn.

En við erum að horfa til langs tíma, við erum ekki að tjalda til einnar nætur. Við erum að horfa mörg ár fram í tímann, ekki eitt eða tvö, ekki einn eða tvo áratugi heldur. Við erum að horfa inn í framtíðina. Og hvað gerist þegar hugsjónir núverandi formanns menntamálanefndar, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, þegar hugsjónir hv. þm. Péturs H. Blöndals, þegar hugsjónir hv. þm. Birgis Ármannssonar, þegar hugsjónir ungra sjálfstæðismanna, hópa og einstaklinga innan Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu og sölu Ríkisútvarpsins fá aukinn hljómgrunn innan þess flokks, hvað þá? Þá er búið að setja Ríkisútvarpið í búning þar sem salan verður auðveldari, enda sagði hv. þm. Pétur H. Blöndal við umræðuna um málefni stofnunarinnar að hann væri ekki sáttur við frumvarpið en hann mundi greiða götu þess og styðja það í atkvæðagreiðslu vegna þess að það auðveldaði söluna.

Þess vegna spyr ég Framsóknarflokkinn sem segir að hann standi núna og hangi á því að Ríkisútvarpið verði í almannaeign og standa eigi vörð um Ríkisútvarpið. En þegar við bendum á að verið sé að veikja undirstöðurnar — lögfræðingar eru að vara okkur við þessu, Samkeppnisstofnun varar okkur við þessu — og veikja varnirnar gagnvart ásókn samkeppnisaðila sem án efa munu láta reyna á sína stöðu og réttarstöðu Ríkisútvarpsins frammi fyrir íslenskum lögum og Evrópurétti, við erum vöruð við því að með þessari lagabreytingu séum við að veikja varnir Ríkisútvarpsins, hvað gerir Framsókn þá? Fulltrúar flokksins koma hér hver á fætur öðrum í ræðustól og hvetja okkur til að ljúka málinu hið allra fyrsta. Þeir þjóna íhaldinu sem aldrei fyrr. Ég ætla að vona að kjósendur minnist þeirrar afstöðu Framsóknarflokksins þegar gengið verður til kosninga hinn 12. maí næstkomandi. Þá muni menn hvernig þingmenn Framsóknarflokksins koma fram í þessu máli, reyna að finna réttlætingu fyrir því að ganga á bak orða sinna, að víkja fyrri yfirlýsingum og skuldbindingum til hliðar til að geta hangið á ráðherrastólunum. Í hverjum umræðuþættinum á fætur öðrum í útvarpi og sjónvarpi eru þeir að biðla til íhaldsins um að fá að sitja áfram í kjöltu þess. Út á það gengur stríð þeirra.

Auðvitað mun það henda nú eins og fyrri daginn, eins og í bæjarstjórnarkosningunum og síðustu alþingiskosningum einnig, að reynt verður með hjálp pólitískra fegrunarfræðinga að setja Framsóknarflokkinn í enn eina lýtaaðgerðina, búa til nýjan flokk án fortíðar. Þetta verður gert án efa með hjálp auglýsingastofa. Mun það gerast sem gerðist síðast að auglýsingastofan sem tók að sér þetta verkefni fékk sérstök verðlaun fyrir að vinna það afrek að gera úr Framsókn nýjan stjórnmálaflokk, alveg glænýjan? Hann hafði farið með húsnæðismál frá árinu 1995. Hvað gerði Framsóknarflokkurinn? Hann óskapaðist fyrst og fremst út í ófremdarástandið í húsnæðismálum. Hann hafði farið með þetta ráðuneyti frá árinu 1995.

Mun það gerast núna að menn muni óskapast út í alla einkavæðinguna, skyldi það gerast? Hann ætlar sko aldeilis ekki að einkavæða, Framsóknarflokkurinn, aldeilis ekki. Umhverfisvernd, þar stendur hann í fararbroddi. Hann vill fjölbreytt atvinnulíf, hann er á móti stóriðjustefnu. Mun þetta gerast? Ég bara spyr. Ég er að minna kjósendur á að gleyma ekki framgöngu Framsóknarflokksins í þessu máli, hvernig hann er að svíkja eigin hugsjónir, svíkja Ríkisútvarpið, svíkja starfsmenn Ríkisútvarpsins sem á að svipta réttindum sínum.

Hæstv. forseti. Ég mun fara betur yfir þetta í seinni ræðu minni. Í henni mun ég einnig víkja nánar að því fyrirkomulagi sem er við lýði hjá öðrum þjóðum, einnig grannþjóðum okkar. Ég mun staðnæmast sérstaklega við það ríkisútvarp eða þær ríkisútvarpsstöðvar sem best vegnar, m.a. á alþjóðamarkaði um útvarps- og sjónvarpsefni, sérstaklega sjónvarpsefni og þar vísa ég í frændur vora, Dani. Þeir brillera í þáttagerð og kvikmyndagerð, Örninn, og hvað heitir þetta, Matador, er selt víða um lönd. Hvers konar rekstrarfyrirkomulag er það? Það er ríkisstofnun eins og okkar, nákvæmlega. Hvernig vegnar BBC, breska útvarpinu? Það er fyrirkomulag sem er skyldara okkar en fyrirtæki í einkaréttarlegum búningi. Ég mun fara nánar yfir þetta í síðari ræðu minni.

Ég mun einnig fara rækilega yfir það frumvarp sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð, þingflokkur okkar, hefur lagt fram á þinginu um framtíð Ríkisútvarpsins þar sem við gerum tillögur um róttækar breytingar á stjórnsýslu stofnunarinnar, færum hana inn fyrir veggina, þó á lýðræðislegum grunni. Við drögum úr pólitískum afskiptum af Ríkisútvarpinu sem þó eru miklu minni núna en menn vilja vera láta — að forminu til. Þau liggja í hugrenningatengslunum og tengslunum milli einstaklinga en þau eru minni að forminu til en margir vilja ætla vegna þess að eins og ég gat um áðan hefur útvarpsráð fyrst og fremst umsagnarrétt en ekki ráðningarvald. Við gerum tillögur um gerbreytt fyrirkomulag að þessu leyti. Við gerum tillögur um gerbreytt innheimtuform á gjöldum til Ríkisútvarpsins sem yrði bundið fasteign, höfnum nefskattsleiðinni og viljum fara inn á nýjar brautir hvað þetta snertir. Öllu þessu mun ég gera rækilegar grein fyrir í síðari ræðu minni.

Ég mun einnig fara yfir þá stöðu sem nú er uppi í stofnunum sem hafa verið hlutafélagavæddar gagnvart starfsmönnum, kjörum þeirra, hvernig komið er fram við þá t.d. í Matís ohf., stofnun þar sem stjórnin nánast neitar að ræða við stéttarfélögin og stillir síðan einstökum starfsmönnum upp við vegg, dregur fólk út undir vegg og lætur það skrifa undir ráðningarsamninga án þess að fá að sjá alla samningana og án þess að sýna þá öðrum, eru að reyna að sundra stéttarlegri samstöðu fólksins. Þetta mun ég allt ræða nánar þegar kemur að síðari ræðu minni um þetta mál.

Hæstv. forseti. Ég gat um það í upphafi ræðu minnar að ég mundi ekki hafa mál mitt ýkja langt að þessu sinni og hafði ég innra með mér gert ráð fyrir að halda mig innan við klukkutíma í ræðu minni. Ég hef nú talað í 59 mínútur og 8 sekúndur. Ég læt máli mínu lokið.