133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[14:08]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Sú umræða sem nú fer fram undir liðnum fundarstjórn forseta skiptir miklu máli. Hún snýst um grundvallaratriði í störfum og starfsháttum þingsins og hún er farin að fjalla um samskipti Alþingis við hæstvirta ráðherra og ríkisstjórn.

Ég get alveg viðurkennt að eitt af því sem hefur komið mér mest á óvart þann tíma sem ég hef setið hér á Alþingi er einmitt hvernig þessum samskiptum milli hæstvirtra ráðherra og Alþingis er háttað. Ég gerði mér grein fyrir því sem áhorfandi utan frá að ráðherrarnir höfðu hér mikil áhrif á störf þingsins og höfðu mikil áhrif á framvindu og hvernig mál gengju fyrir sig. Ég verð þó að viðurkenna alveg um leið að ég gerði mér enga grein fyrir því að þetta væri svona svakalegt eins og ég hef upplifað það frá því að ég settist hér á þingbekki. Það verður að segjast alveg eins og er að framkvæmdarvaldið ræður þinginu í einu og öllu, nema framkvæmdarvaldið hefur enn ekki vald yfir ræðutíma stjórnarandstöðuþingmanna. Að öðru leyti fara þingstörf að öllu leyti eftir óskum, kröfum og vilja framkvæmdarvaldsins og einstakra ráðherra. Ég veit að þetta eru stór orð en svona er þetta og ég held að við ættum bara að vera heiðarleg við okkur sjálf, sem sitjum hér, og viðurkenna þetta.

Þess vegna kemur mér á óvart í svona grundvallarumræðu, sem skiptir miklu máli, að þeir fáu stjórnarþingmenn sem í salnum sitja telji sig ekki þurfa að taka þátt í umræðunni. Annaðhvort vita þeir upp á sig skömmina eða þeir treysta sér ekki til að koma hingað og verja það að verklagið sé með þessum hætti. Eins og verklagið er liggur mér við að segja að það skipti sáralitlu máli hvaða stjórnarþingmenn sitja hér á Alþingi, einfaldlega vegna þess að það eru ráðherrarnir sem ráða og stjórnarþingmennirnir sem beygja sig undir vilja ráðherranna.

Ég held að það sé kominn tími til þess fyrir hv. stjórnarþingmenn að gera sér grein fyrir því að þeir eru kjörnir alþingismenn. Þeir eiga að hafa skoðanir og þeir eiga að taka hér þátt í umræðu. Þeir eiga ekki að beygja sig undir þetta sjálfgefna ok sem framkvæmdarvaldið virðist hafa lagt á herðar þeirra. Það tekur afar stuttan tíma að beygja unga þingmenn sem koma hér inn, það tekur afar stuttan tíma að setja okið á herðar þeirra þannig að þeir fari að kinka hér kolli eins og allir hinir. Þetta er alvarlegt mál, frú forseti.