133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[14:11]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U):

Frú forseti. Þetta var mikil tímamótaræða sem hv. þm. Jón Gunnarsson flutti hér, hún var eins og töluð út úr mínum huga. (Gripið fram í: … tímamótin.) Já, ég hélt um tíma að ég væri einn með þessar vangaveltur en eins og kom fram í minni ágætu og örstuttu ræðu í gær sem væntanlega allir þingmenn hafa hlustað á — (Gripið fram í: Já, hún var örstutt.) já, hún var í styttra lagi og bara aðdragandi að seinni ræðu — vitnaði ég í varaþingmann Framsóknarflokksins, einn af þessum ungu og efnilegu þingmönnum sem því miður eiga margir það til að láta beygjast undir flokksvaldið eins og hv. þm. Jón Gunnarsson gaf hér í skyn. Varaþingmaður þeirra, Eygló Harðardóttir, tók það fram einmitt bæði í blaðagrein og síðan líka í viðtali í sjónvarpi hvað henni blöskruðu starfshættir á Alþingi. Það er sérstakt að varaþingmaður Framsóknarflokksins skuli opna þessa umræðu því að hún er þá í raun og veru að skamma sinn eigin flokk. Það eru að sjálfsögðu þeir sem ráða í Framsóknarflokknum sem stýra því hvernig þingið starfar. Það er mjög miður, frú forseti, að það skuli vera þannig eins og kom fram hjá varaþingmanni Framsóknarflokksins að lagafrumvörpin koma nánast tilbúin, að hennar áliti, frá starfsfólki ráðuneyta, og eftir blessun frá ráðherrum er ekki ætlast til, eins og Eygló orðaði það, að þingnefndir krukki í þau. Þetta er háalvarlegt mál. Hvað erum við þá að gera hér á þingi? Er þetta bara sjónarspil? Til hvers eru þessir nefndarfundir, til hvers eru þessir 150 gestir sem forsvarsmaður menntamálanefndar er stöðugt að hæla sér af að hafi verið kallaðir fyrir á fundi? Er ekkert hlustað á þá? Þetta eru störf þingsins sem ég er að ræða hérna. Mér finnst mjög magnað að varaþingmaður Framsóknarflokksins skuli voga sér að uppljóstra um það hvernig Framsóknarflokkurinn starfar á þingi.

Þingmenn ráða í sjálfu sér engu, það er bara framkvæmdarvaldið, og hinn almenni þingmaður í stjórnarflokkunum er gjörsamlega knésettur af ráðherrunum, því miður. Þetta er varaþingmaður Framsóknarflokksins búinn að viðurkenna og, frú forseti, þetta finnst mér stóralvarlegt mál og mjög mikil ádeila á störf a.m.k. núverandi stjórnarflokka. Það er kannski merki um það hvað þeir eru búnir að sitja lengi og gleyma sér.