133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér sýnist að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafi í sjálfu sér játað þessari spurningu minni að það sé hans hjartans mál, ef hann ætti að tala frá hjartanu, að það eigi að selja Ríkisútvarpið og það gildi einu hvort það standi einhver setning þarna að það eigi ekki að selja það, það gildi einu hvort það verði sjálfseignarstofnun eða jafnvel bara B-hluta stofnun, það sé alltaf hægt að ráðast á Ríkisútvarpið og selja það. Ég las það út úr svari hv. þingmanns. (Gripið fram í.) Ég leyfi mér að halda því fram að það sé enn hjartans mál hv. þingmanns að selja Ríkisútvarpið.

Við höfum haldið því fram í ræðum okkar, a.m.k. við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að hér sé verið að einkavæða því það sé verið að færa stofnunina úr umhverfi opinbers rekstrar í umhverfi rekstrar sem er einkaréttarlegs eðlis þannig að einkavæðingin er að eiga sér stað, salan er bara eftir. En þetta skref er fyrsta skrefið í átt til sölu Ríkisútvarpsins og ég skil að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar sé ánægður með það skref.