133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

lífeyrisréttindi starfsmanna RÚV – málefni Byrgisins.

[10:43]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það virðist sem hv. þm. Valdimar L. Friðriksson sé orðinn sjálfskipaður talsmaður starfsmanna Ríkisútvarpsins í forföllum formanns BSRB. Hann vék hér að réttindum starfsmanna. Það er alveg ljóst að þetta frumvarp um Ríkisútvarpið tryggir starfsmönnum Ríkisútvarpsins sömu réttindi og aðrir ríkisstarfsmenn hafa fengið þegar ríkisstofnunum hefur verið breytt í hlutafélag. Réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningum og kjarasamningum munu haldast og það sem skiptir líka máli er að útvarpsstjóri hefur lýst því yfir að (Gripið fram í.) þeir starfsmenn sem óska eftir því fái aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem er mjög mikilvæg yfirlýsing sem við höfum tekið mark á (Gripið fram í.) í vinnu með þetta mál.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstarfsmenn hjá Ríkisútvarpinu eigi að fá sömu réttindi þegar stofnuninni er breytt í hlutafélag og ríkisstarfsmenn annarra stofnana sem hefur verið breytt í hlutafélag, hvorki minni né meiri. Mér heyrist hins vegar að hv. þingmaður mæli fyrir því að það eigi að gera upp á milli ríkisstarfsmanna eftir því hvar þeir starfa. Ég get ekki skilið málflutning hv. þingmanns og hv. þm. Ögmundar Jónassonar öðruvísi en svo að þeir vilji binda í lög ráðningarkjör þessa fólks til framtíðar. Það viljum við ekki gera. Við viljum ekki svipta almenna launþega samningsréttinum eins og hv. þingmaður virðist vilja gera með því að lögfesta ráðningarkjör til allrar framtíðar.

Frú forseti. Auðvitað er hneisa að ekki sé hægt að ræða mikilvæg mál eins og málefni Byrgisins. Það er afar miður að við skulum ekki komast í umræðu um slík mál og að þjóðþingið skuli vera í þeirri stöðu sem það er í núna. (Gripið fram í.) Það er vegna þess að (Forseti hringir.) stjórnarandstaðan hefur staðið hér fyrir málþófi um málefni Ríkisútvarpsins (Gripið fram í.) og getur sjálfri sér um kennt en ekki ríkisstjórnarflokkunum. (Menntmrh.: Greiðum atkvæði.)