133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:57]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. menntamálaráðherra vegna þeirra yfirlýsinga frá BHM og BSRB sem ég las upp hér í morgun. Mér fannst ráðherra ekki koma nógu mikið inn á þau mál áðan í sinni ræðu eins og hún talaði um í morgun að hún mundi gera.

Ráðherrann minntist áðan á útvarpsstjóra. Er ráðherra kunnugt um að útvarpsstjóri er þegar farinn að vinna eftir frumvarpinu án þess að nokkur viti hvort það verði samþykkt, þ.e. að ráða án þess að auglýsa? Er ráðherra samþykkur þessum vinnubrögðum?

Síðari spurningin er þessi: Er ráðherra sammála þeirri fullyrðingu sem ég hef komið með í þessari umræðu um að við samþykkt frumvarpsins RÚV ohf. geti lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ekki lengur gilt um starfsmennina?