133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:38]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef fylgst af athygli með þeirri umræðu sem hefur farið fram síðustu fjóra daga um þetta mál og maður má hafa sig allan við að greina aðalatriðin í ræðum hv. þingmanna, það sem skiptir höfuðmáli varðandi framgang frumvarpsins og svo annað sem skiptir engu máli. Það eru örfáar mínútur í ræðum manna sem eru höfuðatriði.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kom að þáttum sem skipta verulegu máli fyrir frumvarpið og það er einmitt þessi samkeppni Ríkisútvarpsins sem á að vera ohf. í eigu ríkisins 100% og þeirra fyrirtækja sem eru á þeim markaði og það er auðvitað stórmál hvað þetta frumvarp varðar. Hann ræðir um auglýsingar og nefskattinn og ég ætla ekki að endurtaka það.

En í fyrra andsvari mínu langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist að það sé of í lagt af hálfu ríkisins með tekjur til Ríkisútvarpsins. Eigum við að færa það niður, að nefskatturinn lækki og minnka umsvif Ríkisútvarpsins? Eigum við að takmarka möguleika til tekjuöflunar hjá Ríkisútvarpinu varðandi auglýsingar og kostun? Mér fannst hv. þingmaður slá svona í og úr og það er þannig með samþingmenn hans í Samfylkingunni að þeir tala ekki einu máli. Það er ljóst og klárt með Vinstri græna. Þeir segja alveg klárlega að tekjur séu vanreiknaðar, það þurfi að efla útvarpið, það þurfi að ná öllum auglýsingatekjum sem það geti til að efla megi útvarpið. Ég vil fá skýr svör við þessu, hvað á hv. þingmaður við á þessari braut?