133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (frh.):

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir nokkur atriði sem varða frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið ohf., hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Ég byrjaði á að tala um þá kröfu hæstv. menntamálaráðherra að við lykjum þessari umræðu hið allra fyrsta og létum lýðræðislegan vilja ná fram að ganga. Við höfum minnt á að við erum tilbúin að ljúka umræðunni þegar í stað og lagt fram sáttaboð og reyndar fleiri en eitt. Í fyrsta lagi að við sameinumst um að gera breytingar á Ríkisútvarpinu, lágmarksbreytingar, sem samstaða yrði auðveldlega um en við létum hitt bíða lengri tíma sem ósættið væri um þannig að við gætum leitað að leið sem hugnaðist öllum.

Í annan stað höfum við boðist til að stytta umræðuna verulega ef fallist verður á að breyta gildistökuákvæði laganna þannig að þau kæmu ekki til framkvæmda fyrr en að afloknum næstu alþingiskosningum. Það í reynd væri lýðræðislegt í þeim skilningi að ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi næði sínu fram, að gera frumvarpið að lögum, en þjóðin hefði síðan síðasta orð um hvernig næsti stjórnarmeirihluti yrði myndaður og þá kæmi þetta eflaust til umræðu í aðdraganda kosninga og nýjum stjórnarmeirihluta gæfist ráðrúm til að endurmeta málið. Hvorugt hefur hlotið náð fyrir augum stjórnarmeirihlutans, við hvorugu þessara tilboða höfum við fengið jákvæð svör.

Við höfum einnig minnt á að afar vafasamt sé að knýja fram grundvallarbreytingar á stofnun sem víðtæk sátt hefur ríkt um í áratugi á naumum meiri hluta á Alþingi. Umrædd stofnun eigi annað og betra skilið af hálfu Alþingis en að skila henni inn í framtíð sem ósætti ríkir um. Ég fór yfir þá valkosti sem okkur bjóðast varðandi Ríkisútvarpið og fór yfir frumvarp þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um Ríkisútvarpið en þetta frumvarp höfum við lagt fram í þrígang. Þar er gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á stjórnsýslu stofnunarinnar. Hún er færð inn fyrir veggi hennar og síðan er dregið úr yfirráðum stjórnarmeirihlutans yfir stofnuninni með því að breyta skipan í útvarpsráð sem við viljum láta kalla dagskrárráð og hefur annað verksvið og verkefni en núverandi útvarpsráð. Ég gat þess reyndar að menn vildu gjarnan ýkja hin pólitísku áhrif sem núverandi útvarpsráð hefur og minnti á að það er ekki svo að útvarpsráð ráði fréttamenn og dagskrárgerðarmenn núna, heldur hefur það einvörðungu umsagnarrétt um slíkar ráðningar og iðulega hafi útvarpsstjóri gengið gegn slíku. Við viljum færa allar þessar ráðningar alfarið inn í stofnunina. Menntamálaráðuneytið skipar til starfa nokkra æðstu yfirmenn eða stjórnendur öllu heldur, mér er illa við þetta orð yfirmaður, þeirrar stofnunar og við teljum eðlilegt að færa allt ráðningarvald inn í stofnunina en þegar um er að ræða ráðningu dagskrárgerðarmanna og fréttamanna viljum við að fleiri komi að málum en útvarpsstjórinn einn. Við erum með tillögu um gjald sem sé bundið fasteign í stað núverandi afnotagjalds og í stað nefskattsins sem ríkisstjórnin leggur til og við teljum vera óhagstæðan, sérstaklega fyrir barnafólk. Ég fór yfir þær hugmyndir sem Samfylkingin hefur sett fram og reyndar Frjálslyndir einnig og tel að í þeim hugmyndum sé að finna vísi að samnefnara sem menn geti sameinast um.

Þá fór ég yfir frumvarp þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hafa lagt til að Ríkisútvarpið verði í reynd lagt niður. Hins vegar verði búin til stofnun sem lúti meirihlutavaldi Alþingis og hún hafi vald til þess að bjóða út og skapa reglur um slík útboð fyrir dagskrárgerðarefni, þar með talið fréttaefni væntanlega og þótti mér þar vera komið æðinálægt múrum Kremlar. Með öðrum orðum, pólitískt vald á að úthluta og hafa yfirráð samkvæmt tillögum þeirra yfir gerð fréttaefnis á vegum Ríkisútvarpsins. Síðan fór ég yfir frumvarp ríkisstjórnarinnar sem er hið þriðja í röðinni í þessari lotu og fór yfir það hvernig ég tel það vera fullkomlega úr takt við tímann, þótt hæstv. menntamálaráðherra hafi allhátt um það að hún sé með þessu barni sínu að halda með okkur á vit nýrra tíma. Staðreyndin er sú að hún reynir að komast eins langt aftur í tímann og mögulegt er. Það á að taka upp stjórnarhætti í fyrirtækjum sem tíðkuðust á fyrri hluta 20. aldar og um miðbik þeirrar aldar en allt látið fyrir róða sem til framfara horfði þegar leið á 20. öldina, lýðræðisleg stjórnun og annað af því tagi. Nei, nú er það gamli píramídinn, verkstjórinn og yfirmaðurinn og hins vegar hinir undirgefnu, þ.e. húsbændur og hjú. Þetta er framtíð hæstv. ráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

Eitt af því sem ég hefði gjarnan mátt nefna — og oft hefur verið haft á orði þegar þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar er annars vegar og mun ég eiga eftir að koma að því þegar ég fer yfir afstöðu Framsóknarflokksins til málsins — er að uppi eru miklar heitstrengingar um það af hálfu stjórnarmeirihlutans að ekki standi til að selja Ríkisútvarpið, þetta sé ekki einkavæðing og hæstv. menntamálaráðherra sagði í dag að það væri af og frá, það þyrfti hvort sem er ákvörðun um það á þingi, en við fyrir okkar leyti höfum minnt á ýmsa þingmenn Sjálfstæðisflokksins og þá ekki síst hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hefur verið mjög heiðarlegur í svörum og að flestu leyti sjálfum sér samkvæmur. Hann samþykkti frumvarpið við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr., eða hvort það var við 1. umr. eða einhvern tíma gerði hann það alla vega á þeirri forsendu að þetta væri ekki gott frumvarp, ekki algott en það væri skref í átt til einkavæðingar og þess vegna styddi hann það. En ástæðan fyrir því að við gefum lítið fyrir slíkar yfirlýsingar hvort sem þær koma frá sjálfstæðismönnum eða framsóknarmönnum sem hafa komið í pontu og lýst því yfir að nú sé öldin önnur, nú geti Framsókn hlutafélagavætt vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn segist ekki ætla að selja. Framsókn segir: Ja, þá er óhætt að hlutafélagavæða. Við vísum einfaldlega til sögunnar hvað þetta snertir. Staðreyndin er sú að nánast alltaf þegar starfsemi hefur verið breytt í hlutafélag hefur eftirleikurinn verið sala, það er bara þannig. Það átti við að sönnu með bankana þó að þar væru ekki heitstrengingar um að aldrei stæði til að selja. Þó var það látið í veðri vaka stundum en vissulega var það gert þegar Landssíminn var annars vegar eða Póstur og sími. Ég er með tilvitnanir í tvo ágæta menn frá þeim tíma þegar við ræddum Landssímann eða hlutafélagavæðingu hans, þá sagði Halldór Blöndal, þáverandi samgönguráðherra, það mun hafa verið í september árið 1995, með leyfi forseta:

„Það er ekki á dagskrá hjá mér að selja Póst og síma og slík hugmynd hefur ekki komið upp í viðræðum við starfsmenn.“

Það hefur nefnilega ekki komið upp í neinum viðræðum og er ekki á dagskrá að gera það. En dagskráin lengdist eitthvað og breyttist og nú er náttúrlega búið að selja Símann, enda var sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í einkavæðingarmálum á þessum tíma, Hreinn Loftsson, með það alveg á hreinu til hvers menn breyttu stofnunum í hlutafélög því hann sagði í febrúarmánuði árið 1996, með leyfi forseta:

„Reynsla erlendra sérfræðinga er eindregið sú að það sé einungis skynsamlegt að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög sé ætlunin að selja þau. Hlutafélagavæðingin er bara fyrsta skrefið að mínu áliti.“

Ég held ég muni það rétt að Hreinn Loftsson hafi verið fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar, gott ef hann var ekki formaður þeirrar nefndar um skeið. Spurningin er síðan þessi: Hvað verður um Ríkisútvarpið? Ég efast ekki um að menn, margir hverjir meina það núna, þessa stundina, að þeir telji óráðlegt að selja Ríkisútvarpið og séu því ekki fylgjandi. En hvað verður uppi eftir daginn í dag er alveg óskrifað blað. Ef að líkum lætur verða menn farnir að feta sig út á slíka braut og má vel vera að menn kjósi þá leið sem þremenningar Sjálfstæðisflokksins, frjálshyggjuhópurinn þar, leggur til að í reynd verði Ríkisútvarpið, hin opinbera stofnun ekkert annað en eins konar skurn, blóminn verði einkavæddur, öll starfsemin, allt það sem eitthvert kjöt er á fari út á markað. Þessi háttur hefur iðulega verið hafður á. Ég minnist þess hvernig slíkar hugmyndir voru reifaðar sem annað stig í tilraunum borgaryfirvalda til að einkavæða Strætisvagna Reykjavíkur. Fyrst reyndi íhaldið að gera SVR að hlutafélagi, var rekið til baka með þá ákvörðun en síðan komu eftirmennirnir sem voru af sömu pólitísku fjölskyldu og ég tilheyri og voru um skeið með hugmyndir uppi um að búa til eins konar þunna skurn á vegum sveitarfélagsins um strætisvagnana sem síðan yrðu einkavæddir. Það eru því alls konar leiðir að þessu marki. Ég tel að við eigum ekki að stíga það fyrsta skref sem Hreinn Loftsson varar okkur við þó að hann geri þetta undir öðrum formerkjum en ég geri. Hann var hlynntur einkavæðingu eins og menn kunna að vita sem ég er að sjálfsögðu ekki.

Um þessi mál almennt og til að finna leiðir til að ná sáttum um það, sem ég er sannfærður um að gæti tekist, höfum við teflt fram ýmsum formum, bæði hvað varðar stjórnsýsluna og yfirstjórn yfir stofnuninni og einnig um rekstrarformið. Ég hef fyrir mitt leyti og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum verið hlynnt því að Ríkisútvarpið verði ríkisstofnun og lúti þeim skýru lögum sem um opinbera starfsemi gilda. Þau eru sveigjanlegri og betri, gagnsærri og réttlátari en sú mynd sem stundum er dregin upp af þeim.

Önnur hugmynd sem hefur verið reifuð er sjálfseignarstofnunin. Það er hugmynd sem ég fyrir mitt leyti er ekki eins hrifinn af. Þá horfi ég ekki síst til réttinda starfsmanna en ég hef þó bent á að sjálfseignarstofnun getur lögum samkvæmt heyrt undir lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna þótt hún heyri ekki undir samninga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Engu að síður eru fordæmi fyrir því að menn semji sig inn í slíkan farveg og vísa ég þar til öldrunarstofnana og heilbrigðisstofnana sem eru undir sjálfseignarforminu þar sem starfsmennirnir eða stéttarfélög þeirra hafa samið um réttindi sem eru áþekk því sem gerist í hinu opinbera kerfi. Það mætti reyna að fara inn á þá braut í hlutafélagavæddu ríkisútvarpi en þá þyrftu menn að sýna vilja til að smíða slíka samninga. Sá vilji er hreinlega ekki fyrir hendi og slegið er á allar tilraunir til samninga þar að lútandi. Við heyrðum síðast í dag að hæstv. menntamálaráðherra sagði að ekki mætti taka fram fyrir hendurnar á starfsmönnum og skerða frelsi þeirra til samninga. Þetta segir sami ráðherra og nánast rífur í tætlur, í huglægum skilningi, samninga sem gerðir voru snemma á 9. áratug síðustu aldar sem lúta að starfsmannalýðræði í Ríkisútvarpinu.

Ég hef farið yfir ýmsa þætti sem hæstv. menntamálaráðherra vék að í ræðu sinni, bæði hvað varðar hina margrómuðu nútímavæðingu hæstv. ráðherra sem er ekkert annað en hraðlest til öndverðrar 19. aldar, þá er ríkti samskiptaformið húsbændur og hjú. Þetta er það fyrirkomulag sem hæstv. ráðherra telur eiga heima í nútímanum og sérstaklega í framtíðinni.

Ég vék að samkeppnislöggjöfinni og Evrópulöggjöfinni. Hæstv. ráðherra furðaði sig mjög á því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem hefur verið gagnrýnin á slíka löggjöf og telur hana hamlandi um margt, setja lýðræðislegum ákvörðunum fólks of þröngar skorður, hefði áhyggjur af slíku. Ég benti hæstv. ráðherra á að við værum neydd til þess að taka alvarlega skuldbindingar sem er að finna í lögum eða alþjóðlegum samningum sem við höfum undirgengist. Dæmin sýna að við verðum að lúta þeim þegar á reynir og um það nefndi ég dæmi, m.a. um brunatryggingarnar sem í fyrsta EES-samningnum sem við undirgengumst heyrðu ekki til þess samnings, voru síðar færðar undir hann og þá urðum við að breyta því fyrirkomulagi sem við höfðum búið okkur í Reykjavík, t.d. um brunatryggingar sem væri að finna í einni skúffu í skrifborði einhvers staðar í stjórnsýslunni sem buðu upp á ódýrustu og hagkvæmustu brunatryggingar á byggðu bóli að ég hygg. Þessu urðum við að breyta þótt allir sem til þekktu og ég heyrði í væru því fullkomlega andvígir.

Stóra spurningin er: Hvað raunverulega vakir fyrir stjórnvöldum með þessum kerfisbreytingum? Ég hef ekki fundið neina aðra skýringu en þá að þau réttindi sem löggjafinn hefur á undanförnum árum og áratugum og talið eiga að gilda um opinbera stjórnsýslu, um starfsemi sem fjármögnuð er með skattfé almennings, séu til óþurftar, flækist fyrir og torveldi málin fyrir stjórnandanum sem á að stýra fólki sínu, eins og kallað er. Hvaða lög eru það? Það eru lög sem knýja stjórnanda til að áminna starfsmenn sem hann hyggst reka úr starfi og veita þeim tækifæri til andmæla. Þetta á allt að fara burt þannig að stjórnandinn geti rekið fólk skýringalaust. Finnst mönnum þetta horfa til framfara? Nei. Þetta horfir ekki til framfara og er furðulegt að fólk skuli leyfa sér að halda því fram að þessi afturhaldsviðhorf eigi eitthvert erindi inn í framtíðina.

Hæstv. ráðherra gerðist gamansöm á köflum, eða þannig túlkaði ég yfirlýsingar hennar um að með frumvarpi ríkisstjórnarinnar væri klippt á hin pólitísku tengsl. Þá færðust brosviprur yfir margan þingmanninn, tók ég eftir. Allir gera sér grein fyrr því að frumvarp ríkisstjórnarinnar herðir á pólitískum yfirráðum og tengslum við Ríkisútvarpið. Ég hef verið í hópi þeirra sem hef viljað efla og rækta sambandið á milli Ríkisútvarpsins og löggjafans, sem jafnframt á að hafa eftirlit, sinna aðhaldi við opinbera starfsemi. En ég vil ekki gera það á þann hátt sem ríkisstjórnin gerir tillögu um með þessu frumvarpi. Samkvæmt því ræður stjórnarmeirihlutinn því sem snýr að stofnuninni. Hann skipar meiri hluti útvarpsráðs, mann sem ræður og rekur, mann sem er einráður um mannahald og dagskrárgerð. Þetta er eins mikið afturhaldsrugl og hugsast getur og furðulegt að menn skuli komast upp með annað eins í upphafi 21. aldar. Það er dapurlegt að hugsa til þess að svo fari í þessari stofnun, sem byggir á mjög ríkri lýðræðislegri hefð og fagmennsku. Þar hafa reyndar ætíð verið margir smákóngar og drottningar sem hefur að vissu leyti verið styrkur þessarar stofnunar því að allt hefur það fólk fundið samnefnara sinn, þ.e. Ríkisútvarpið og viljann til að gera vel í þágu þeirrar stofnunar. Þessi samvinna, samstaða og samvirkni hefur gert þessa stofnun svo sterka. En þetta eru menn tilbúnir að láta víkja til hliðar.

Þá kemur að blessuðum þjónustusamningnum, sem er reyndar ekki annað en viljayfirlýsing enn sem komið er. Samningurinn er ekki orðinn að veruleika og vel að merkja er mjög ósvífið hvernig viljayfirlýsingin er sett fram. Hún er tvinnuð saman við áform ríkisstjórnarinnar um að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Hún er gerð að óaðskiljanlegum hluta þess pakka en á í reynd ekkert skylt við þá ráðstöfun. Við höfum minnt á að Danmarks Radio, sem er ríkisstofnun, er með nákvæmlega sams konar samning og talað er um að gerður verði við Ríkisútvarpið. En bíðum við, verður allt í góðu standi ef Ríkisútvarpið verður gert að hlutafélagi? Við höfum margoft haldið því fram að gera þurfi ýmsar breytingar og lagfæringar á stjórnskipan stofnunarinnar en jafnframt höfum við bent á að þegar upp er staðið hafi bágur fjárhagur stofnunarinnar staðið henni fyrir þrifum. En þar á ekkert að gera.

Ég hef margoft gengið eftir því við stjórnarliða í þingsalnum hvort þeir séu reiðubúnir að grípa til ráðstafana sem rýmka og bæta fjárhag Ríkisútvarpsins. Menn hafa ekki verið reiðubúnir að gera það. Hins vegar segjast þeir trúa því að með því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi verði hægt að bæta stjórnsýsluna þannig að fjárhagurinn rýmkist. Menn tala um hagræðingarkröfu. Ég þori ekki að fara með þá prósentu sem nefnd hefur verið í því efni, 6% hagræðingarkrafa er það kallað, sem er fínt nafn yfir niðurskurð. Niðurskurðurinn sem menn sjá fram á á næstu tveimur árum felst í að reka fólkið sem annast innheimtu afnotagjalda. Þar telja menn sig geta sparað 90 millj. kr. Þetta á að gerast á næstu tveimur árum að ég hygg.

Annað er að Ríkisútvarpið losar sig við sinfóníuna, sem mér finnst dapurlegt hlutskipti og verður mér hugsað til gamalla frumkvöðla Ríkisútvarpsins sem áttu þátt í því að sinfónían var sett á laggirnar um miðja síðustu öld. Þeir litu á það sem skrautfjöður í hatti Ríkisútvarpsins að vera í nánu sambandi og samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Vel að merkja, Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur aldrei verið baggi á Ríkisútvarpinu. Hún var það um skeið þegar hún lenti í fjárhagserfiðleikum en upp úr því, um miðja síðustu öld, var gerður samstarfssamningur sem veitti Ríkisútvarpinu aðgang að efni hljómsveitarinnar, hljómleikum hennar sem að sjálfsögðu þarf að greiða fyrir úr einhverjum vasa, hvort sem það er úr ríkissjóði eða af Ríkisútvarpinu. Ég hygg að þegar fram líða stundir muni renna upp fyrir mönnum að ekki hafi verið hyggilegt að slíta tengslin milli Ríkisútvarpsins og sinfóníunnar. Ég tel auk þess að það hefði verið styrkur fyrir Ríkisútvarpið og stöðu þess, ekki síst þegar Evrópurétturinn og herskarar samkeppninnar fara að sækja að stofnuninni, að halda ýmsar almannaskyldur. Réttindum sem Ríkisútvarpið óneitanlega býr við fylgja skyldur og þegar skyldurnar eru aðskildar eða kastað fyrir róða þá er hætt við því að dragi úr þeim réttindum einnig. Okkur er sagt að Ríkisútvarpinu muni ætlað að spara einhverja peninga en ég held að þar sé talan um 130 millj. kr. Á þann hátt á að rýmka um fjárhag Ríkisútvarpsins, þ.e. með samdrætti og niðurskurði.

Staðreyndin er sú að Ríkisútvarpið hefur búið við erfiðan fjárhag og síversnandi á undanförnum árum, í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem hér kemur og básúnar að hún vilji hag þessarar stofnunar sem mestan og bestan og vilji halda með hana á vit nýrra tíma.

Staðreyndin er sú að verulegur samdráttur hefur orðið í fjárhag Ríkisútvarpsins. Í ágætri úttekt sem birtist í Morgunblaðinu 6. mars 2005 var rætt við ýmsa forráðamenn í Ríkisútvarpinu. Þar segir m.a., með leyfi forseta.

„Forráðamenn RÚV benda á að tekjur stofnunarinnar á síðustu árum hafi ekki fylgt launaþróun í landinu. Séu afnotagjöldin uppreiknuð miðað við launavísitölu drógust þau saman um 19% á árunum 1994–2004, auglýsingatekjur hafa með sama útreikningi lækkað mun minna en heildartekjur drógust saman um 15% á liðnum áratug, miðað við launavísitöluna. Sé miðað við neysluvísitölu án húsnæðis hækkuðu tekjurnar hins vegar um 25% frá árinu 1994, á meðan vísitalan hækkaði á sama tíma um 30%. Auglýsingatekjur hafa hlutfallslega ekki aukist í tekjustofninum og numið árlega um 700–800 milljónum króna undanfarin ár.“

Síðar segir í þessari grein, með leyfi forseta.

„Ríkisútvarpið hefur eftir megni reynt að hagræða í rekstri sínum og t.d. hefur starfsmönnum fækkað verulega undanfarin ár, eða um 15% frá 1996. Það ár voru fastráðnir starfsmenn að meðaltali 378 en voru um 320 á síðasta ári.“

Á árabilinu 1996 og fram til ársins 2004 fækkaði starfsmönnum um 15%, úr 378 í 320. Bæði mun um raunfækkun að ræða en einnig aukna verktöku í einhverjum tilvikum. Mér er sagt að heldur hafi fjölgað á þeim tíma sem liðinn er frá því að þessi grein var skrifuð og starfsmenn séu nú á bilinu 330–340. Engu að síður er um verulega fækkun að ræða frá árinu 1996 þegar starfsmenn voru 378 talsins.

Stöðugum samdrætti í tekjum Ríkisútvarpsins hefur fylgt fækkun á starfsfólki því Ríkisútvarpið hefur reynt að laga sig að breyttum fjárhagsaðstæðum. Ríkisútvarpið taldi sig þurfa 20% hækkun afnotagjalda síðastliðið haust. En hver var raunin hjá þeirri stórhuga ríkisstjórn sem talar svo mikið um allt hið góða sem í vændum er? Hún hækkaði eða heimilaði hækkun gjalda upp á 8%, ekki 20% eins og Ríkisútvarpið hafði óskað eftir. Nei, hækkunin var 8%.

Ég skal ekki um það segja hvað rétt hefði verið að gera við þær aðstæður sem við höfum búið við, vaxandi verðbólgu o.s.frv. og hvenær rétt er að taka ákvarðanir um hækkun iðgjalda. Ég ætla ekki að slá neinu föstu um það. Ég vil vekja athygli á því að í þessum þingsal er það stjórnarandstaðan sem hefur staðið vörð um þessa stofnun, verið reiðubúin að veita heimildir til hækkunar afnotagjalda nokkurn veginn í takt við það sem sú ágæta stofnun hefur óskað eftir. Það hefur verið ásetningur okkar að styrkja Ríkisútvarpið sem menningarstofnun, sem traustan fjölmiðil og kjölfestu í íslenskri fjölmiðlaflóru.

Auðvitað gerum við þá kröfu til stofnunarinnar að hún rísi undir því trausti sem henni er sýnt. Fyrir okkar leyti höfum við verið því fylgjandi að stuðla að því að ráðist verði í meiri innlenda dagskrárgerð og erum þá að horfa til menningarefnis, vandaðra menningarefnis en verið hefur á boðstólum á undanförnum missirum og árum. Mín tilfinning er sú að þar hafi heldur hallað undan fæti á undanförnum árum. Þar þarf a.m.k. að gera betur en gert hefur verið. Þetta er reyndar einn þáttur í frumvarpi okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við leggjum til að bætt verði í útvarpslögin ákvæði um hlutdeild innlendrar dagskrárgerðar í framboði Ríkisútvarpsins á dagskrárefni. Við höfum verið mjög eindregið á því máli.

Hæstv. ráðherra vék að ýmsum öðrum atriðum en þeim sem ég hef gert að umræðuefni. Ég mun koma að því á eftir hver aðkoma ráðherrans var að réttindamálum starfsmanna en hún var svolítið sérstök. Ég nefndi að staðhæfingar hennar um að skorið yrði á hin pólitísku tengsl gerðu lítið annað en að vekja kátínu í þingsalnum, svo fráleit var sú yfirlýsing og fullyrðing þegar hið gagnstæða var uppi. Ætlunin er að herða á hinum pólitísku hnútum sem bundnir eru um þessa stofnun.

Ég mun síðar koma að réttindamálum starfsmanna, sem ráðherrann vék að, en legg áherslu á að í öllu þessu tali og lúðraþyt um bjarta framtíð Ríkisútvarpsins virðist mér lítið innihald. Þar eru miklar umbúðir en harla lítið innihald. Gefnar hafa verið yfirlýsingar. Þessi samstarfssamningur er ekki annað en yfirlýsing enn þá. Ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir að ef af því verður að þetta lagafrumvarp verði gert að lögum þá verði einhver lúðraþytur og undirskrift samnings, sem auðveldlega væri hægt án þess að til kæmi hlutafélagavæðing Ríkisútvarpsins. Það verður fróðlegt að sjá hvort einhverjum fjármunum verður lofað inn í næsta kjörtímabil eins og hæstv. menntamálaráðherra er byrjaður að gera á öðrum sviðum.

Menn hafa fagnað samningnum sem gerður var við Háskóla Íslands og fyrirheitum um 3.000 millj. kr. framlag til rannsókna í Háskóla Íslands. Það er gott og merki um viðhorfsbreytingu, en vel að merkja, á þessu kjörtímabili er aðeins um það að ræða að 300 millj. gangi til háskólans. Hitt er allt á næsta kjörtímabili, á árunum 2008, 2009, 2010 og 2011. 300 millj. kr. nú og 640 millj. kr. á hverju ári á komandi árum. Það bíður næstu ríkisstjórna að taka á þeim málum.

Ég ætla að vona að ekki fari eins fyrir þeim samningi eins og ýmsum öðrum sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa undirritað í aðdraganda kosninga og svikið að þeim loknum. Ég minni á öryrkjasamkomulagið sem gert var í aðdraganda kosninganna 2003. Það samkomulag var svikið enda þótt ekki vantaði flóðlýsinguna í Þjóðmenningarhúsinu þegar hæstv. heilbrigðisráðherra undirritaði samninginn ásamt formanni Öryrkjabandalags Íslands. Það voru dapurlegar málalyktir.

Þetta er það sem við erum að sjá núna, mikið skrum og umbúðir um nánast ekki neitt, utan um þá von að með því að gefa útvarpsstjóra alræðisvald, vald til að reka fólk og hagræða sem kallað er, leggja niður deildir o.s.frv., rýmkist hagur Ríkisútvarpsins til frambúðar þannig að það geti betur unað hag sínum. En staðreyndin er sú að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur dregið úr framlagi til Ríkisútvarpsins, fjárhagur þess er verri en hann var í byrjun stjórnarsamstarfs þessara tveggja flokka. Ég nefndi tölur áðan um samdrátt í mannahaldi um 15% á tímabilinu 1996 til 2004 til samræmis við þverrandi fjárhag stofnunarinnar. Ég minnti á að jafnvel í haust, þegar ríkisstjórnin blés í sigurlúðrana, neitaði hún Ríkisútvarpinu um þá hækkun sem það taldi nauðsynlega til að rísa undir þeirri starfsemi sem ætlast er til að það sinni.

Ég bið menn að hugleiða þetta, sem eru velviljaðir Ríkisútvarpinu og binda einhverjar vonir við þessar breytingar. Ég hef einnig minnt á að sú sátt sem hefur verið um að greiða til Ríkisútvarpsins kann að bresta þegar stofnunin verður fjarlægð frá almenningi í óþökk stórs hluta þjóðarinnar.

Eitt af því sem hæstv. menntamálaráðherra nefndi í ræðu sinni í dag var yfirlýsing sem við höfum áður heyrt frá útvarpsstjóra og margoft frá hæstv. menntamálaráðherra um að um breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins sé víðtæk sátt í samfélaginu. Það hafa meira að segja verið nefndar tölur þar að lútandi. Bæði hæstv. menntamálaráðherra og einnig útvarpsstjóri hafa lýst því yfir að 60% þjóðarinnar, meira að segja ríflega 60% þjóðarinnar, séu fylgjandi því að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi. Þetta eru harla misvísandi yfirlýsingar. Þær byggjast á skoðanakönnun fyrir Ríkisútvarpið frá því í sumar og haust. Hún var birt 20. september síðastliðinn. Sú könnun var tilefni þess að Páll Magnússon útvarpsstjóri sagði í Morgunblaðsgrein, mánudaginn 15. janúar síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Í nýlegri skoðanakönnun Gallup kemur í ljós að um 60% þjóðarinnar, af þeim sem tóku afstöðu, eru hlynnt breytingu RÚV í opinbert hlutafélag.“ — Þetta hefur hæstv. menntamálaráðherra tekið upp, nú síðast í dag. Þá var eina ferðina enn staðhæft að meiri hlutinn, gott ef hún nefndi ekki einnig 60%, væru því fylgjandi að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi.

Þegar farið er að skoða málin nánar kemur annað í ljós. Þetta byggir á skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Ríkisútvarpið, viðhorfsrannsókn í september 2006. Í þessari könnun, sem er allítarleg, er fólk spurt aðskiljanlegra spurninga um Ríkisútvarpið, um hlutverk þess, hvað þeim finnist um Ríkisútvarpið, hvaða íslenski fjölmiðill fólki finnst vera mikilvægastur, hvert menn leiti helst um fréttir, hvort fólk sé jákvætt eða neikvætt gagnvart Ríkisútvarpinu o.s.frv. Bæði er spurt um hljóðvarp, um sjónvarp og um dagskrána og á heildina litið er afstaða fólks mjög jákvæð. Fólk lýsir yfir ánægju með það sem það hefur. Það er á heildina litið niðurstaðan úr þessari könnun.

Þegar búið er að spyrja menn allítarlega um afstöðu til þess sem það hefur er staðhæft að til standi að breyta rekstrarformi RÚV þannig að það verði hlutafélag í ríkiseigu. Með öðrum orðum er gefið til kynna að þetta sé þegar orðið svo gott sem staðreynd, að Ríkisútvarpinu verði breytt og spurt, með leyfi forseta: „Ertu almennt ánægður/ánægð eða óánægð/óánægður með þetta nýja rekstrarfyrirkomulag?“ Með öðrum orðum er gefið í skyn að hið nýja rekstrarfyrirkomulag sé þegar orðin staðreynd og það sett í samhengi við það sem fólk hefur lýst afstöðu sinni til, til núverandi starfsemi.

En hvernig eru svörin? Þarna er náttúrlega vísað til þessa rekstrarfyrirkomulags. Hvernig eru svörin? Mjög ánægð eru 12,6%, frekar ánægð 33,5%, hvorki né 23,7%, frekar óánægð 16,4%, mjög óánægð 13,8%. Ef við gleymum þessu samhengi, sem er mjög afvegaleiðandi, að gefa til kynna að eitthvað sé orðið að veruleika sem er það alls ekki, þá segjast engu að síður aðeins 12,6% mjög ánægð með þetta rekstrarfyrirkomulag. Frekar ánægð eru 33,5%. Hvað skyldi þetta gera samanlagt? Getur verið að þetta séu 46,1% en ekki 60% eins og hæstv. ráðherra staðhæfði og útvarpsstjóri staðhæfir í blaðagrein í Morgunblaðinu á mánudaginn? Þetta eru einfaldlega afvegaleiðandi og rangar yfirlýsingar. Mér fannst afar vafasamt þegar þetta var kynnt í Ríkisútvarpinu í frétt kl. 18 á rásum 1 og 2, með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Páll Magnússon útvarpsstjóri er afar ánægður með niðurstöðuna úr viðhorfskönnunum RÚV. Hann vonast til að niðurstaðan virki hvetjandi á stjórnmálamennina þegar þeir taka ákvörðun um framtíð Ríkisútvarpsins.“

Síðar sagði, með leyfi forseta:

„Í könnuninni kemur fram að ríflega 60% aðspurðra eru ánægð með að RÚV verði breytt í hlutafélag í ríkiseigu. Páll segist vona að viðhorfskönnunin verði hvatning til þeirra stjórnmálamanna sem vinna að því að breyta rekstrarformi stofnunarinnar.“

Er þetta heiðarlegur málflutningur? Mér finnst það ekki svo og hafði um þau orð á Alþingi að mér þætti þetta afvegaleiðandi og rangtúlkanir og ég stend við þau orð. Hæstv. menntamálaráðherra leyfði sér í dag að tala um staðhæfingar mínar um þetta efni sem rógburð. Ég er einfaldlega að greina frá staðreyndum málsins og sætti mig ekki við að farið sé rangt með þegar um er að tefla deilur um frumvarp ríkisstjórnarinnar um að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag.

Útvarpsstjórinn gerir því skóna að starfsmenn Ríkisútvarpsins styðji þessar breytingar. Í greininni tekur hann vissulega fram að starfsmenn hafi ekki tekið afstöðu til rekstrarformsins en þegar yfirlýsingarnar eru skoðaðar í samhengi er augljóst að meiningin er að draga upp þá mynd að innan Ríkisútvarpsins sé litið á hlutafélagavæðinguna með velþóknun. Það hefur hæstv. menntamálaráðherra jafnframt ítrekað gefið til kynna. Útvarpsstjórinn segir eftirfarandi í umræddri grein, með leyfi forseta:

„Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins styðja einnig breytingar á rekstrarformi RÚV – þótt þau hafi ekki tekið afstöðu til þess hvaða form skuli verða fyrir valinu. Stjórn samtakanna sendi öllum þingmönnum áskorun um breytingar snemma á síðasta ári. Og það þarf væntanlega ekki að fjölyrða um afstöðu stjórnenda Ríkisútvarpsins til málsins.“

Hér er gefið til kynna að ekki þurfi að fjölyrða um afstöðu stjórnendanna, þ.e. að litið sé á þessar breytingar með velþóknun. Það er alveg rétt að á sínum tíma barst þingmönnum hvatning um að gera breytingar á lagarammanum um Ríkisútvarpið. Það gerðu þessi umræddu samtök, Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins sem eru eins konar regnhlífarsamtök fyrir stéttarfélögin sem starfa innan veggja Ríkisútvarpsins. En stéttarfélögin semja um kaup og kjör og gæta hagsmuna starfsmanna, ekki þessi samtök. Þau hafa að sjálfsögðu rétt til að álykta eins og þeim líkar og þau sendu inn álitsgerð til Alþingis um þetta frumvarp. Í þeirri álitsgerð segir að kaflinn um réttindi starfsmanna í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sé ófullnægjandi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins geta ekki gilt um starfsmennina eftir breytingu Ríkisútvarpsins í Ríkisútvarpið ohf. Réttindi starfsmanna ríkisins samkvæmt ofannefndum lögum teljast hluti af kjörum þeirra og verða því ekki afnumin án þess að í felist skerðing á kjörum.“

Í niðurlagi sömu umsagnar segir, með leyfi forseta:

„Auk þess vísar SSR til umsagnar BHM og BSRB varðandi réttarstöðu starfsmanna.“

Þessi skírskotun til álitsgerðar BSRB og BHM er fullkomlega rökrétt því þau samtök eru heildarsamtök stéttarfélaga, þorra starfsmanna Ríkisútvarpsins. Eins og áður segir hafa þau samtök samið um réttindin sem hér er deilt um hvort standi eða falli, hvort þau haldi við umbreytingu Ríkisútvarpsins í hlutafélag.

Hvað segja þau samtök? Þau segja eftirfarandi í niðurlagi álitsgerðar sinnar, með leyfi forseta:

„Að öllu framangreindu virtu svo og með tilvísan til fyrri umsagna er það eindregin afstaða BSRB og BHM að frumvarp þetta nái ekki fram að ganga.“

Að öllu framangreindu virtu er það eindregin afstaða BSRB og BHM að leggja til að frumvarp þetta nái ekki fram að ganga.

Ég ætla ekki að þreyta menn með því að lesa upp úr álitsgerðinni. Hún er fylgigagn í nefndaráliti minni hlutans, álitsgerð upp á margar síður þar sem tekið er á öllum þeim réttindum sem lagabreytingarnar taka til og farið mjög rækilega í saumana á þeim. Þar er vísað í réttindi í kjarasamningum, í lífeyrisrétt og í þann rétt sem borgarinn hefur samkvæmt stjórnsýslulögum en þau koma ekki til með að gilda um þessa stofnun. Hvað varðar réttindi starfsmanna þá er vísað í kjarasamningsbundinn og ráðningarsamningsbundin réttindi, í lífeyrisréttinn. Þar er og að finna tillögu um ákvæði til bráðabirgða með lögunum til þess að reyna að styrkja réttarstöðu starfsmanna.

Öllu er því vísað frá af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hvers vegna? Jú, vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra er svo umhugað um að virða samningsfrelsi fólksins þegar fram líða stundir. Kaupir einhver þetta? Þá erum við að taka réttindin og setja þau í fullkomna óvissu. Ég vík að nokkrum þessara réttinda á eftir í stuttu máli. Ég ætla ekki að fara ítarlega yfir þessi gögn og hef í rauninni engu að bæta við umfjöllun annarra um þau og ætla ekki að þreyta menn með slíku.

Hluti starfsmanna er hins vegar í öðrum samtökum, t.d. í Alþýðusambandi Íslands, það á t.d. við um rafiðnaðarmenn. Hvað skyldi Alþýðusamband Íslands segja um þetta frumvarp? Er Alþýðusamband Íslands hliðhollt þessum breytingum? Nei, Alþýðusamband Íslands er ekki hliðhollt þessum breytingum. Hér segir í álitsgerð sem er dagsett 3. nóvember 2006, þ.e. er frá í haust þegar málið kom til 2. umr. Þar var lýst andstöðu við fyrirhugaðar breytingar á bæði rekstrarformi og fjármögnun Ríkisútvarpsins ohf. Þetta er miklu lengri álitsgerð en hún er alveg afdráttarlaus. Þar er lýst andstöðu við bæði fjármögnunarþáttinn og einnig við breytingar á rekstrarformi.

Bíðum nú við, hvað þýðir þetta? Öll samtök starfsmanna sem koma að þessum málum vara við þessu frumvarpi en útvarpsstjóri og hæstv. menntamálaráðherra leyfa sér engu að síður að draga upp þá mynd og gefa í skyn að allt sé þetta gert með vilja og jafnvel í þökk starfsmanna Ríkisútvarpsins. Er þetta heiðarlegur málflutningur eða rangfærslur? Er þetta ekki afvegaleiðandi tal? Ég tel svo vera. Það hef ég sagt og segi ég hreint út og bíð þess að orð mín verði hrakin af hæstv. menntamálaráðherra sem hefur gert orð útvarpsstjórans að sínum og útvarpsstjóri, að því er mér sýnist, orð hæstv. menntamálaráðherra. Ég bíð þess að þetta verði á hrakið. Hér vísa ég í yfirlýsingar, í álitsgerðir, í Gallup-könnun og ég sé ekki hvernig orð mín ættu á nokkurn hátt að verða hrakin. Þetta er einfaldlega staðreynd.

Þá er það varðandi réttindi starfsmanna. Í nóvembermánuði gaf útvarpsstjóri út yfirlýsingu, fyrst munnlega á fundi með starfsmönnum og síðan sendi hann þeim, umbeðið, skriflega yfirlýsingu um réttindamálin vegna þess að eðlilega hafa starfsmenn nokkrar áhyggjur af því hvernig komi til með að fara með réttindi þeirra við umbreytingu Ríkisútvarpsins í hlutafélag og eftir að hún er um garð gengin.

Yfirlýsing útvarpsstjóra er svohljóðandi, með leyfi forseta.

„Gert er ráð fyrir að hið nýja félag yfirtaki allar skuldbindingar stofnunarinnar gagnvart starfsmönnum, bæði samkvæmt ráðningarsamningum og kjarasamningum. Réttindi starfsmanna haldast því óskert, verði frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. að lögum, þó eru „sólarlagsákvæði“ varðandi biðlaunaréttinn.

LSR hefur sömuleiðis staðfest áframhaldandi rétt starfsmanna RÚV til aðildar að A-deild sjóðsins, að fengnu samþykki vinnuveitenda, sem gert er ráð fyrir að hið nýja félag veiti, verði frumvarpið að lögum.“

Þetta tóku menn sem mikilvæga yfirlýsingu af hálfu útvarpsstjóra, nokkuð sem ýmsir aðrir sem til þessara mála þekkja hafa efasemdir um að hafi mikla þýðingu umfram það sem þegar var vitað og er að finna í lögunum.

Í dag sendu BSRB og BHM frá sér yfirlýsingu um frumvarpið og í samhengi við þessar staðhæfingar útvarpsstjórans en í yfirlýsingu samtakanna kemur fram að réttindi starfsmanna RÚV eru óviss þrátt fyrir yfirlýsingu útvarpsstjóra í tengslum við þessa breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Ég ætla að leyfa mér að lesa þessa yfirlýsingu hér og festa í þingtíðindi, með leyfi forseta.

„Í umræðum um frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið ohf. hefur ítrekað verið vísað til yfirlýsingar Páls Magnússonar útvarpsstjóra frá því í nóvember sl. þar sem hann lýsti því yfir að öll kjör starfsmanna RÚV muni haldast óbreytt. Eftir að BSRB og BHM höfðu skoðað þessa yfirlýsingu voru samtökin sammála um að hún bætti engu við það sem fram kemur í sjálfu frumvarpinu þrátt fyrir ítrekaðar óskir samtakanna um breytingar.

Í yfirlýsingunni segir Páll Magnússon orðrétt: „Gert er ráð fyrir að hið nýja félag yfirtaki allar skuldbindingar stofnunarinnar gagnvart starfsmönnum, bæði samkvæmt ráðningarsamningum og kjarasamningum.“ Innihald þessarar yfirlýsingar er í samræmi við aðilaskiptalögin og því væri verið að brjóta þau ef ekki væri farið að þessu.

Þá er ýmsum spurningum ósvarað, þar á meðal er með öllu óljóst hvað gerist þegar kjarasamningar renna út. Mun RÚV ohf. til að mynda vera reiðubúið til að semja á grundvelli fyrirliggjandi kjarasamninga við aðildarfélög innan BSRB og BHM sem hafa samningsrétt fyrir starfsmenn RÚV?

Einnig er óvíst hvernig samið verður við þá sem hefja störf eftir að lögin taka gildi en það er m.a. forsenda þess að nýráðnir geti farið í A-deild LSR að starfsmenn séu aðilar að þessum samtökum.

Þá segir Páll í yfirlýsingu sinni: „Réttindi starfsmanna haldast því óskert, verði frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. að lögum, þó eru „sólarlagsákvæði“ varðandi biðlaunaréttinn.“ Að mati BSRB og BHM stenst þessi fullyrðing ekki þar sem réttindi samkvæmt lögum, eins og t.d. lögum um réttindi og skyldur og stjórnsýslulög, munu ekki gilda gagnvart starfsmönnum RÚV ohf. Áminningarskyldan, andmælaréttur og auglýsingaskylda munu því t.d. ekki gilda.

Þá er enn óvíst hvort hægt sé að treysta því að hið nýja félag samþykki aðild að LSR. Til að slíkt sé tryggt þarf að kveða skýrt á um það í frumvarpinu.

Ýmsum spurningum er því enn ósvarað um kjör og réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins verði frumvarpið um RÚV ohf. samþykkt óbreytt.

Um lífeyrisréttindi starfsmanna segir í yfirlýsingu Páls Magnússonar: „LSR hefur sömuleiðis staðfest áframhaldandi rétt starfsmanna RÚV til aðildar að A-deild sjóðsins, að fengnu samþykki vinnuveitanda, sem gert er ráð fyrir að hið nýja félag veiti, verði frumvarpið að lögum.“

Síðan segir áfram, með leyfi forseta, í yfirlýsingu BHM og BSRB:

„Það hefur alltaf legið fyrir að starfsmenn eigi rétt á aðild að LSR að fengnu samþykki atvinnurekanda en BSRB og BHM hafa viljað fá ákvæði þar um inn í frumvarpið svo rétturinn verði ekki háður samþykki stjórnar RÚV ohf.

Óvissan um rétt starfsmanna er því enn jafnmikil og hún var fyrir yfirlýsingu Páls Magnússonar.“

Þessa yfirlýsingu er að finna á heimasíðu þessara samtaka. Þar eru einnig slóðir bæði inn á yfirlýsingu útvarpsstjóra og jafnframt inn á umsögn BSRB og BHM um frumvarpið sem enn er í fullu gildi.

Þessar yfirlýsingar, bæði útvarpsstjórans og hæstv. menntamálaráðherra til starfsmanna, sem draga upp þá mynd að í rauninni sé allt óbreytt og verði allt óbreytt og óskert við þessa umbreytingu stofnunarinnar, að undanskildum sólarlagsákvæðum í biðlaunarétti, eru mjög misvísandi af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi erum við aðeins að tala um sjálft umbreytingarskeiðið. Það eru engin fyrirheit gefin um hvað gerist að því loknu, hvorki af hálfu hæstv. menntamálaráðherra né útvarpsstjóra. Engin fyrirheit eru gefin um hvað gerist þá.

Útvarpsstjóri sagði á fundi í menntamálanefnd að þá komi fólk til með að semja um kjör sín en því er alveg látið ósvarað á hvaða forsendum það verði gert. Verða það stéttarfélögin sem halda utan um hagsmuni starfsmanna? Verða það einstaklingsbundnir samningar? Hvernig verður samið?

Því miður hefur það þegar gerst í Ríkisútvarpinu að fólk er ráðið samkvæmt lagagrunni nýrra laga, þessa frumvarps, þó að þau séu ekki orðin að lögum. Þetta er staðreynd. Án auglýsinga og utan kjarasamninga o.s.frv. Því spyr ég: Er það þetta sem koma skal?

Þetta eru önnur ástæðan. Hin ástæðan fyrir því að þessar yfirlýsingar gefa ranga mynd er sú sem fram kemur í þessari stuttu greinargerð frá heildarsamtökum opinberra starfsmanna, að þegar stofnun er tekin undan stjórnsýslulögum og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins fylgja þar með ýmis réttindi sem starfsmenn koma ekki til með að njóta nema gripið sé til sérstakra ráðstafana. Það eru engin merki þess t.d. að tryggja eigi áminningarskyldu eða réttindi sem tengjast uppsögnum og er að finna í þessum tveimur lagabálkum. Þetta nefni ég sem dæmi.

Þegar hæstv. menntamálaráðherra kemur svo hér í dag og talar um það sem einhver mikil býsn að fólk sem á aðild að B-deild lífeyrissjóðsins komi til með að halda honum fyrir mildi stjórnvalda, þá er það bara lagalegur réttur fólksins. Þegar stofnun er breytt í hlutafélag eða starf er lagt niður á viðkomandi starfsmaður rétt á áframhaldandi veru í BSRB. Þetta er einfaldlega lögum samkvæmt. Það sem hins vegar fylgir er að réttar til að njóta ávinnings af hækkunum vegna stöðuhækkana í starfi eða innan stofnunar verður ekki notið í B-deildinni. Þarna getur verið um að ræða kjaraskerðingu hjá fólki sem svo er statt um.

Varðandi A-deildina eru það engin ný tíðindi heldur að þeir sem eru í þeirri deild geti verið þar áfram nema fólkið sé rekið úr lífeyrissjóðnum. Það hefur sem betur fer ekki gerst. En stóra málið er það að nýráðningar koma að sjóðnum nema það sé sérstaklega tekið fram. Þar eru stjórnvöld algerlega ófáanleg til að hnika nokkru. Þetta er sami stjórnarmeirihlutinn og var tilbúinn að samþykkja fyrir sjálfan sig alls kyns lífeyrisívilnanir og réttindi. Það vantaði ekkert upp á að það væri gert. En þegar um þetta ræðir er sagt: Við viljum ekki binda hendur fólks, við viljum ekki taka fram fyrir hendurnar á fólki. Það má ekki hafa forræði yfir því. Þetta eru útúrsnúningar af verstu gráðu.

Þessar staðhæfingar ríkisstjórnarinnar um að réttindi séu tryggð standast hreinlega ekki. Ég ætla ekki að fara út í þá sálma að fara yfir þá þætti málsins aftur. Það er búið að gera það mjög ítarlega. Þetta liggur fyrir í mjög ítarlegum nefndarálitum þar sem frá þessu er greint, lið fyrir lið, öll þessi réttindi sem starfsfólkið nýtur. Ég ætla ekki að gera annað að vísa til þessara gagna hér í þessari umferð.

Áður en ég vík að hinni pólitísku hlið þessara mála, þ.e. afstöðu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til þessa frumvarps og náttúrlega hins dapurlega hlutskiptis Framsóknarflokksins sem hefur svikið fyrirheit sín og að er því við teljum, mörg, hugsjónir sínar í þessu máli, þá langar mig til að koma ögn að einum þætti málsins sem ég hef vikið nokkuð að áður. Það eru þær línur sem menn draga upp annars vegar milli almannaþjónustunnar og hins vegar markaðsfyrirtækjanna. Þar er háð grimmileg barátta, ekki bara hér á landi heldur einnig í Evrópu og á heimsvísu, og ég vísaði til GATS-samninganna þar um.

Í Evrópu birtist þessi slagur okkur í átökum um svokallaða þjónustutilskipun Evrópusambandsins. Þar eru menn að takast á um grundvallaratriðin. Þegar þjónustutilskipunin kom fyrst fram var hugsun markaðssinnaðs fólks mjög í þá veru að undir þá tilskipun ætti að færa nánast alla þjónustu. Öll þjónusta ætti að heyra undir þá tilskipun og vera háð samkeppnislögum, markaðslögmálum og samkeppnisstofnun. Verkalýðshreyfingin skar upp herör gegn þeirri stefnu og reyndi að brjóta hana á bak aftur og aðferðin sem var notuð var að leggja til að velferðarþjónustan og samfélagsþjónustan, almannaþjónustan sem hvert samfélag þarf á að halda eigi að vera rækilega aðskilin markaðslögmálum. Í því samhengi hafa menn talað um tvenns konar þjónustu, á enskri tungu hefur annars vegar verið talað um „services of general interest“ og hins vegar um „services of general economic interest“ og þá eru menn að vísa til almannaþjónustunnar annars vegar og markaðsþjónustunnar hins vegar. Menn hafa viljað skapa lagaramma um þetta. Verkalýðshreyfingin, bæði Evrópusamband verkalýðsfélaga, ETUC, oft kallað „ítök“, það eru heildarsamtök launafólks í Evrópu, sem bæði Alþýðusamband Íslands og BSRB eiga aðild að og EPSU, European Public Service Union, sem er hluti af alþjóðasambandi starfsfólks innan almannaþjónustunnar, þau hafa sameinast í baráttunni gegn þessu, hafa sameinast um að draga þarna skýrar línur á milli og menn eru enn að kljást um þetta.

Þá er uppi tvenns konar slagur í Evrópu. Annars vegar þessar skýru línur að draga landamerkin á milli almannaþjónustunnar og markaðsþjónustu almennt og hins vegar að horfa fram hjá slíkum mörkum eða landamærum en horfa heldur á hvað er að gerast innan hverrar starfsemi, innan hvers geira fyrir sig og reyna að höggva hann niður í einingar, hvað af starfsemi viðkomandi stofnana, almannaþjónustufyrirtækja heyrir undir almannaþjónustuna og hvað undir markaðsþjónustu og þá fara menn að lenda inn í ógöngum eins og þessum. Það sem gerir málin enn þá flóknari og á við um útvarpsstöðvar er að þar eru menn einnig að tala um fjármögnun og hvað sé leyfilegt í þeim efnum. En þetta snýst líka um verksviðið, hvert má halda og ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst afar vafasamt að setja almannaþjónustunni mjög þröngar skorður í þessum efnum, mér finnst það vafasamt. Og ég hef t.d. talað fyrir því að svo lengi sem almannaþjónustufyrirtæki eru í eigu samfélagsins og skapa arð þá finnst mér réttlátt að sá arður sé látinn ganga til annarra þátta í samfélaginu. Ég tek sem dæmi að vatnsveita í Reykjavík gæti þess vegna skilað arði og hefur gert. Mér finnst ekkert óeðlilegt að arðurinn af henni sé látinn renna til leikskóla eða til annarrar starfsemi á vegum hins opinbera. Eins er með orkuveituna t.d. að þetta sé látið ganga á milli geira. Tilhneigingin er sú að afmarka þetta allt og banna slíkar millifærslur sem mér finnst vera í lagi svo lengi sem starfsemin er á vegum hins opinbera því ef við gerðumst svo kaþólsk og kaþólskari en allir páfar að aldrei mætti millifæra arð af almannastarfsemi þá gæti þjóðfélag sem býr ofan á olíulind lent í því að mega ekki færa arðinn af þeirri olíu inn til annarra þátta samfélagsins. Ég er því fylgjandi þessu svo lengi sem starfsemin er í almannaeign.

Allt öðru gegnir ef starfsemin er færð í einkahendur. Þess vegna var það, svo dæmi sé tekið, að þegar slagurinn stóð um það hér á þingi hvort heimila ætti hlutafélagavæðingu og hugsanlega einkavæðingu vatnsveitna þá lögðumst við mörg hver í stjórnarandstöðunni mjög eindregið gegn þessu, vildum hafa vatnsveitur alfarið í almannaeign á vegum sveitarfélaganna. Það fékkst hins vegar ekki fram og það voru sett inn heimildarákvæði að vatnsveiturnar mættu hlutafélagavæða. Þá gerðum við gagnsátt á öðru sviði og sögðum — og þetta er leið sem Bandaríkjamenn hafa farið, gagnstætt því sem gerðist í Evrópu, þar hafa menn slegist um eignarhaldið þannig að Bandaríkjamenn leyfa einkaeignarhald en setja skorður við heimildum úr arðtökum — að úr almannaþjónustufyrirtækjum ýmsum megi ekki taka út meiri arð en nemur einhverju tilteknu hlutfalli. Síðan eru iðulega sett, eins og við gerðum hér varðandi vatnsveiturnar, ákvæði um hvað hver mætti eiga o.s.frv. þannig að það er hægt að fara ýmsar leiðir.

Ég er að vekja athygli á þessu til að beina að því kastljósi að við erum hér inni í miklum frumskógi, frumskógi sem er mjög vandratað um og við þurfum að vanda okkur þegar við smíðum löggjöf um dýrmætar stofnanir eins og Ríkisútvarpið sem við viljum varðveita. Við verðum að vanda okkur og við verðum að hlusta á varnaðarorð því að þrátt fyrir mismunandi viðhorf til þessara mála sem ég er að lýsa hér, og ég er að lýsa þeirri afstöðu minni að ég vil hafa vítt svigrúm fyrir almannaþjónustustofnanir jafnt til að fara inn á markaðssvið og kannski vil ég heimila það í ríkari mæli eins og ýmsir aðrir, þá hlusta ég á það þegar mér er sagt að þessum heimildum kunni að vera teflt í tvísýnu með því að taka slíka starfsemi, færa hana undan lögum sem gilda um almannaþjónustu og inn á einkaréttarsvið. Það er þetta sem menn hafa verið að vara við. Menn hafa sagt að með því móti sé aðvelduð ásókn markaðsfyrirtækja bæði gagnvart samkeppnislögum og einnig Evrópurétti. Þess vegna eigum við ef við viljum stíga varlega til jarðar að halda okkur við lagaramma sem almannaþjónustan almennt hefur hvílt á en ekki færa þetta í sama búninginn og samkeppnisaðilarnir á markaði klæðast. Þetta er hugsunin. Þetta er hugsunin sem veldur því að við í stjórnarandstöðunni vörum við því m.a. af þessari ástæðu að við viljum ekki mola undirstöðurnar og grunninn sem Ríkisútvarpið hvílir á.

Síðan er það spurningin um þá pólitík sem hér er verið að reka og ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér finnst sjálfstæðismenn um margt nokkuð heiðarlegir í þessu, margir hverjir. Það er svolítið skondið að vísu að hlusta á fyrrverandi flutningsmann og talsmann þess að Ríkisútvarpið verði lagt niður, að Ríkisútvarpið verði selt og nánast að engu gert eins og hv. formaður menntamálanefndar hefur lagt til ásamt tveimur félögum sínum hér á þingi, hv. þm. Pétri H. Blöndal og Birgi Ármannssyni, að hlusta á þá síðan tala fyrir þessu frumvarpi um hlutafélagavæðingu og halda því fram að það standi ekki til að selja þessa stofnun. Ég hef meiri trú en svo á að söluhugsjónin sé sterkari í brjóstum þessara manna en þeir vilja vera láta.

Ef við lítum til samþykkta Sjálfstæðisflokksins í gegnum tíðina þá fer ekkert á milli mála hvert hugur manna stefnir á þeim bæ. Það er alveg augljóst mál að Sjálfstæðisflokkurinn hefur margoft gert því skóna að æskilegt væri að leggja niður eða selja Rás 2, svo dæmi sé tekið, og sumir hörðustu haukarnir vilja ganga lengra og selja Ríkisútvarpið alfarið, einkavæða það algerlega. Eins og frægt varð, þá lýsti hv. þm. Pétur Blöndal því yfir við atkvæðagreiðslu hér að hann styddi þetta frumvarp einvörðungu vegna þess að hann teldi að með því móti væri verið að auðvelda söluna síðar meir.

Ungir sjálfstæðismenn hafa einnig margoft ályktað í þessa veru og ég hef trú á því að þær raddir muni kvikna að nýju en stóra spurningin er þó sú að hvaða marki menn þurfa að hafa fyrir hlutunum, hvort það eru ekki dómstólarnir sem munu leiða þessa stofnun til niðurskurðar og þrenginga á grundvelli þeirra lagareglna sem við erum að skapa.

En þá er það Framsókn og það finnst mér hið dapurlega í þessari sögu allri. Ég hafði á sínum tíma talsverða trú á Framsóknarflokknum og staðreyndin er sú að Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir mörgu góðu í íslensku þjóðfélagi í tímans rás. Oft hafa kviknað vonir í brjósti mínu um að gamla Framsókn væri að lifna við að nýju, jafnvel í formi unga fólksins og við heyrðum úr munni þess raddir sem við heyrðum áður, eins og gerðist miðvikudaginn 29. nóvember þegar ályktun birtist frá ungum framsóknarmönnum. Frá ályktuninni er sagt í Fréttablaðinu og þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna, SUF, samþykkti í gær ályktun þar sem þingmenn eru hvattir til þess að samþykkja ekki frumvarp um RÚV ohf.“ Og áfram segir: „Í ályktuninni kemur fram að SUF telur hvorki að hagsmunum RÚV né almennings í landinu sé best borgið með hlutafélagavæðingu. Einnig kemur fram í ályktuninni að SUF telji fráleitt að frumvarpið hafi verið lagt fram á Alþingi án þess að afstaða hafi verið tekin til mikilvægra spurninga eins og aðkomu RÚV að auglýsingamarkaði.“

Þarna er vikið að ýmsum þáttum. Og sannast sagna er það nú svo að Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir ýmsu góðu og ég held … (Gripið fram í: Nefndu eitt dæmi.) Ég get nefnt fjölmörg dæmi um átak og samvinnu sem hefur einkennt framfarasókn Íslendinga, (Gripið fram í: Stjórn hinna vinnandi stétta.) já, stjórn hinna vinnandi stétta og margt síðar og innan vébanda Framsóknarflokksins eru vissulega ýmsir menn sem enn hafa þessar hugsjónir í brjósti. En í seinni tíð hefur hallað undan fæti fyrir slíkum hugsjónum innan Framsóknarflokksins, (Gripið fram í: Hvar er Jón Kristjánsson staddur núna?) ja, það er nú stóra málið, hann situr í forsetastóli og getur sig illa hrært og tjáð sig um þetta mál, en staðreyndin er sú að í samþykktum Framsóknarflokksins hefur margoft komið fram að Framsóknarflokkurinn sé andvígur þessari ráðstöfun.

Ég er hér kominn með í hendur ýmsar yfirlýsingar frá Sjálfstæðisflokknum. Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins sagði í janúar 1992, með leyfi forseta:

„Ég held einfaldlega að Ríkisútvarpinu sé eins og öðrum opinberum rekstri markaður ákveðinn tími og ég held að sá tími sé einfaldlega liðinn. Ég tel að það sé nauðsynlegt að leggja Ríkisútvarpið niður.“ (Gripið fram í: Hver segir þetta?)

Þetta var Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins í janúar 1992.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði árið 1996, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að markmið, rekstur og fjármögnun Ríkisútvarpsins, ekki síst sjónvarpsins, verði endurskoðuð með tilliti til hagkvæmni og aukinnar samkeppni og að samkeppnisstaða fjölmiðla verði jöfnuð með afnámi lögboðinna áskriftargjalda og jafnframt tryggt að stofnunin fari ekki með öðrum hætti í ríkissjóð.“

Síðan eru aðrar ályktanir í þá veru að leggja Ríkisútvarpið niður, en Samband ungra sjálfstæðismanna ályktar einmitt í þá veru 5. ágúst 2005. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að lokum ítreka ungir sjálfstæðismenn þá skoðun sína að ríkisvaldið hætti rekstri fjölmiðla og RÚV verði selt.“

Þetta er nú blessað íhaldið. Það kemur okkur ekkert á óvart hver tónninn er þar.

Síðan kom þessi fræga kúvending Framsóknarflokksins. Ég hygg að það hafi verið í nóvember eða haustið 2005. Þá fór að kveða við sérstakan tón, ég held fyrst í yfirlýsingum þingflokksformanns Framsóknar, Hjálmars Árnasonar, og reyndar einnig hjá hæstv. þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, og Halldóri Ásgrímssyni, hæstv. þáverandi ráðherra, formanni Framsóknarflokksins.

Hjálmar reið á vaðið í Morgunblaðsgrein 9. nóvember og sagði að hvort RÚV verði sameignarfélag, sjálfseignarstofnun eða hlutafélag þá breytti það í sjálfu sér litlu hvað varðar stofnunina sem almenningseign.

Kristinn H. Gunnarsson svaraði í blaðagrein í sama blaði nokkrum dögum síðar og kvað þetta, með leyfi forseta:

„... hraustlega mælt í ljósi þess, að hlutafélagavæðingunni hefur verið hafnað. Flokksþing Framsóknarflokksins 2001 ályktaði orðrétt „Ríkisútvarpinu verði ekki breytt í hlutafélag“ og sú samþykkt stendur enn óhögguð. Á næsta flokksþingi, sem var 2003, var bætt við að „breyta skal rekstrarformi Ríkisútvarpsins í sjálfseignarstofnun“. Loks var ályktað á þessu ári á flokksþingi Framsóknarflokksins að „mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu“. Samþykktirnar eru í eðlilegu samhengi og mynda skýra stefnu flokksins. Síðari samþykktirnar styrkja þá fyrstu, sem hafnar hlutafélagavæðingu RÚV.

Þetta sagði Kristinn H. Gunnarsson í Morgunblaðsgrein 11. nóvember 2005.

Við þetta kvaddi sér hljóðs hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir og tók undir með hv. þingflokksformanni Hjálmari Árnasyni samanber eftirfarandi ummæli í viðtali við RÚV í Speglinum 15. þessa mánaðar, þ.e. í nóvember, með leyfi forseta:

„Ja, ég tel aðalatriðið að Ríkisútvarpið sé í einhverju því rekstrarumhverfi þar sem að það getur keppt við aðra miðla, ljósvakamiðla. Og hvort að það er nákvæmlega hlutafélagaformið eða eitthvað annað form, það ætla ég ekki að fullyrða neitt um.“

Nú spyr fréttamaður, með leyfi forseta:

„Er einhver sérstök ástæða fyrir því að Framsóknarflokkurinn hefur verið svona mikið á móti hlutafélagavæðingu akkúrat þarna?“

Valgerður Sverrisdóttir hæstv. ráðherra segir þá, með leyfi forseta:

„Ja, við höfum ályktað um það á fyrri stigum að vilja ekki að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag. Og það var á þeim tíma þegar að Sjálfstæðisflokkurinn virtist vilja selja Ríkisútvarpið. Þá ályktuðum við mjög stíft um þetta. Nú eru hins vegar breyttir tímar og Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki selja Ríkisútvarpið. Og ég held að það sé alveg eðlilegt að það breyti einhverju í afstöðu Framsóknarmanna til þessa máls.“

Fréttamaður spyr þá og segir, með leyfi forseta:

„Þannig að nú sakar Kristinn H. Gunnarsson flokkinn um að ætla að ganga á bak orða sinna og ræðst hart að forystunni á heimasíðu nýlega. Einmitt út af þessu. En það eru breyttir tímar, segir þú. Þannig að þetta er ekki rétt hjá Kristni?“

Þessu svarar hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir, með leyfi forseta:

„Ja, það er í fyrsta lagi ekki rétt hjá honum að vitna í gamla samþykkt ...“

Undir það sjónarmið tekur síðan þáverandi formaður flokksins, Halldór Ásgrímsson, og segir í fréttum Ríkisútvarpsins 16. nóvember, en þar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra telur fyllilega koma til greina að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Nýjustu samþykktir Framsóknarflokksins standi ekki í vegi fyrir slíkri breytingu. Mikilvægast sé að lagafrumvarp um Ríkisútvarpið komi fram helst fyrir jól. Frumvarp er í smíðum en hefur hvorki verið kynnt í ríkisstjórn né í þingflokkunum.“

Orðrétt segir Halldór Ásgrímsson fyrrverandi hæstv. ráðherra og þáverandi formaður Framsóknarflokksins, eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Nú hlutafélagsformið hefur reynst vel í mörgum tilvikum, það er það form sem að hefur þróast mest og auðvitað kemur það fyllilega til greina að Ríkisútvarpið noti það form ...

Ja sko, við störfum á grundvelli okkar nýjustu samþykkta og nýjar samþykktir breyta eldri samþykktum, það liggur alveg ljóst fyrir og við störfum á grundvelli þeirra samþykkta sem voru samþykktar á okkar síðasta flokksþingi.“

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að vitna meira í þessar samþykktir Framsóknarflokksins þó að ég hafi svo sem ærinn efnivið til þess. Ég er hérna með samþykktir Framsóknarflokksins á flokksþingum undanfarinna ára þar sem fjallað er meðal annars um Ríkisútvarpið og er að finna þær samþykktir sem hér er vísað til í blaðaskrifum og fréttaviðtölum við hv. þingmenn núverandi og fyrrverandi, Hjálmar Árnason, Valgerði Sverrisdóttur og Halldór Ásgrímsson.

Þetta kemur mér þannig fyrir sjónir að Framsóknarflokkurinn hafi ályktað á þá lund að hlutafélagavæðing komi ekki til greina hjá Ríkisútvarpinu, að flokkurinn sé andvígur því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Síðan kemur til sögunnar samþykkt um að flokkurinn vilji gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun. Þá telja menn að úr gildi sé fallin fyrri samþykkt flokksins um að Ríkisútvarpið skuli ekki hlutafélagavætt.

Ég hlýddi á og fékk útskrift af ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem hann flutti hér í gær og þar fjallar hann einmitt um þetta efni. Ég ætla ekki að vitna í þessa ræðu en þar kemur einmitt þessi skilningur skýrt fram, þ.e. að hv. þingmaður Framsóknarflokksins, Kristinn H. Gunnarsson, telur að um kúvendingu sé að ræða og að þingflokkurinn hafi með samþykkt sinni við hlutafélagavæðingu Sjálfstæðisflokksins á Ríkisútvarpinu svikið þær heitstrengingar sem gefnar voru um að flokkurinn mundi ekki líða það að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi.

Ég verð nú að segja að mér finnst það vera sannfærandi málflutningur af hans hálfu þegar hann segir að samþykkt um sjálfseignarstofnun eða vísan til þess, að hún geti varla skoðast sem grænt ljós á að flokkurinn falli frá eða virði að vettugi fyrri samþykktir um að hann muni ekki líða að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi.

Auðvitað er þetta náttúrlega innra mál Framsóknarflokksins og auðvitað á hann að eiga það við þá sem kusu þann flokk í síðustu kosningum. Það má til sanns vegar færa. En ég nefni þetta vegna þess að við höfðum mörg bundið þá von við stjórnaraðild Framsóknarflokksins að hann mundi standa í fæturna í þessu máli. Það eru tvö mál sem ég hef sérstaklega horft til — reyndar þrír málaflokkar. En tveir málaflokkar hafa svona verið í brennidepli kannski sérstaklega á síðustu missirum — það er annars vegar Ríkisútvarpið, hvort það gæti verið að hann mundi láta Sjálfstæðisflokkinn komast upp með að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag og hinn þátturinn er Íbúðalánasjóður. Þar vitum við að Sjálfstæðisflokkurinn sækir mjög hart að Framsóknarflokknum og hann hefur staðið vörnina nokkuð sæmilega hingað til. Við sjáum hvað setur. En því miður hefur reynslan orðið sú í allt of mörgum málum að varnirnar hafa brostið. Í sumum tilvikum hefur ekkert þurft að bresta vegna þess að menn virðast vera að gera þetta af hreinni sannfæringu.

Ég hef það á tilfinningunni, hæstv. forseti, að aðrir vilji gjarnan fara að komast að í ræðuhöldum og ég er alveg tilbúinn að fara (JóhS: Talaðu bara eins lengi og þú vilt.) senn að stytta mál mitt. Það kemur fullkomlega til greina af minni hálfu. En mér finnst ástæða til þess að við leiðum svolítið hugann að hinum pólitísku þáttum þessa máls, að pólitísku siðferði. Ég hef þá tilfinningu að það sama hafi hent Framsóknarflokkinn og suma aðra flokka sem hafa gengið til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, að þeir telja að þeir geti hamið íhaldið og geti látið gott af sér leiða í stjórnarsamstöðu við þann flokk. Síðan hefur það allt of oft gerst að hagsmunagæsla Sjálfstæðisflokksins fyrir fjármagnið og ásetningur flokksins og hugsjónir verða ráðandi um síðir. Þetta hefur gerst í þessu máli.

Við höfum horft upp á að Framsóknarflokkurinn er orðin flakandi rúst, flakandi sár öllu heldur. Ég fæ ekki betur séð en að flokkurinn geri nánast hvað sem er til að halda sér á setunni, á stjórnarsetunni. Ég fæ ekki betur séð en að hann gangi til hvaða verka sem er. (Gripið fram í: Á setunni?) Ég er að tala um stjórnarsetuna, samanber setu í stól. (Gripið fram í.) Það eru ýmsar orðskýringar hér úti í sal og menn leggja mismunandi skilning í orð mín. Þetta held ég að sé hin dapurlega staðreynd sem við búum við (Gripið fram í.) að Framsóknarflokkurinn vill öllu til kosta. Það er sannfæring mín að ef kjósendur gera sér ekki grein fyrir því að þessir flokkar ætla að starfa saman að afloknum kosningum, ef þeir fá til þess fylgi, þá eru þeir skyni skroppnir eða glámskyggnir. Við heyrum, í hverjum umræðuþættinum á fætur öðrum, ástarjátningarnar ganga á víxl. Framsókn unir sér vel í kjöltu Sjálfstæðisflokksins og fyrir Sjálfstæðisflokkinn er þetta náttúrlega auðveldasti samstarfsaðili sem hugsast getur, gerir allt það sem stóri bróðir segir.

Núna hefur Framsóknarflokkurinn látið undan í vörninni fyrir Ríkisútvarpið og mér verður hugsað til manna á borð við Ingvar Gíslason, fyrrum framsóknarráðherra, menntamálaráðherra, sem ásamt tveimur öðrum fyrrverandi menntamálaráðherrum, Sverri Hermannssyni og Ragnari Arnalds, skrifaði grein í Morgunblaðið sem birtist 1. júní í fyrra, opið bréf til þingmanna þar sem skorað var á okkur að standa vörð um Ríkisútvarpið og láta það ekki verða að veruleika að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Ég heyri þeim röddum fjölga sem gera sér grein fyrir því hvað er í húfi.

Ég minnist þess að í vor, í einhverri hrinunni um Ríkisútvarpið, hvort það var sf. eða hf., kom ályktun frá íslenskum listamönnum. Þeir beindu því til þingsins að við gengjum til atkvæða um málið og eyddum óvissunni, eins og kallað var. Ég hafði samband við einn forsvarsmanna í þeim samtökum og spurði hverju það sætti að íslenskir listamenn tækju undir með ríkisstjórninni um að hlutafélagavæða og einkavæða Ríkisútvarpið. Þá var mér sagt að þeir stjórnarmenn hefðu verið boðaðir á fund útvarpsstjóra þar sem fram hefði komið að menn vildu eyða óvissunni í málinu. Ég sagði: „Þið styðjið þar með hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins.“ — „Nei, það vakti ekki fyrir okkur,“ svaraði þessi ágæti maður.

Ég benti honum á að á Alþingi væri það þannig að það sem ríkisstjórnin fyrirskipar því hlýðir stjórnarmeirihlutinn. Það að eyða óvissunni þýðir ekki annað en að lög um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins verði að veruleika. Það kom svolítið á viðmælanda minn. Það var ekki þetta sem hafði vakað fyrir listamönnum þegar þeir ályktuðu um að óvissunni yrði eytt. Ég sagði við hann: „Hafið þið hugleitt það að með því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi er fyrst verið að opna á óvissuástand?“

Við höfum fært rök fyrir því í umræðunni að með frumvarpinu skapist óvissuástand. Samkvæmt samkeppnisrétti og Evrópurétti er stofnuninni teflt inn í tvísýna framtíð. Við teljum einnig að með því að rjúfa þá þjóðarsátt sem verið hefur um Ríkisútvarpið dragi úr vilja fólks til að greiða til stofnunarinnar, menn verði síður til þess reiðubúnir ef um er að ræða fyrirtæki sem hefur fjarlægst þjóðina.

Hæstv. forseti. Undir lok þessarar ræðu langar mig til að vitna í bréf, opið bréf til alþingismanna, sem Tryggvi Gíslason, fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Akureyri, fyrrverandi fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins og fyrrverandi formaður Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins, hefur ritað. Þar segir, með leyfi forseta:

„Góðir alþingismenn!

Ríkisútvarpið er ein mikilsverðasta menningarstofnun þjóðarinnar, undirstaða lýðræðislegrar umræðu og frjálsrar skoðanamyndunar, traustasti fréttamiðill landsins, leikhús, tónleikahöll, fræðslustofnun, dægrastytting og öryggistæki.

Leiki minnsti vafi á, að ný lög um Ríkisútvarpið ohf. tryggi stöðu þess sem ríkisútvarps, skora ég á ykkur að greiða atkvæði gegn frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið ohf. — hvar í flokki sem þið standið. Sé tilveru Ríkisútvarpsins stefnt í hættu eða staða þess sem stofnunar í almannaþágu ekki tryggð, er það hið sama og stofna sjálfu hinu háa Alþingi í hættu.“

Þetta finnast mér mjög áhrifarík orð. Ég skal segja hæstv. forseta Alþingis, samflokksmanni þess manns sem þetta ritar, hvers vegna mér finnast þau svo áhrifarík. Þau eru áhrifarík vegna þess að ég minnist þess að Tryggvi Gíslason, sem er glöggur og yfirvegaður maður, gegndi formennsku í Hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins. Hann var á þeirri skoðun að Hollvinasamtökin ættu ekki að binda sig í andstöðu við hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Hann var þeirrar skoðunar. Ég vona að ég sé ekki að gera honum upp skoðanir eða orð, en ég man ekki betur en að hann hvetti til víðsýni, að menn opnuðu á alla möguleika og skoðuðu af yfirvegun.

Nú er komið á daginn að miklar efasemdir hafa kviknað í brjósti hans. Þá sýnir hann þann manndóm að láta í ljós þær efasemdir á ögurstundu, þegar við þurfum öll á heilræðum að halda. Ég vona að þeir sem hafa verið þeirrar skoðunar að það gæti verið til góðs að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi endurskoði þá afstöðu í ljósi þeirra efasemda sem hér hefur verið teflt fram um óvissa framtíð Ríkisútvarpsins. Þar með ætla ég að ljúka máli mínu.