133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:03]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það undrar mig mjög að heyra þau svör að hæstv. forseti ætli að velta því fyrir sér um miðnætti hvort fundi skuli fram haldið. Ástæðan fyrir því að það undrar mig er að af hálfu hæstv. forseta Sólveigar Pétursdóttur liggur fyrir yfirlýsing gagnvart formönnum þingflokka um að í þessari viku verði að sönnu kvöldfundir alla daga en engir næturfundir. Hæstv. forseti gæti t.d. kvatt til formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins sem hefur staðfest við mig að hún hafi haft þennan skilning á þeim ummælum hæstv. forseta Sólveigar Pétursdóttur sem féllu á hinum fyrsta fundi sem hún hélt í upphafi viku, þ.e. á mánudaginn, með okkur formönnum þingflokka. Ég tel að hér sé verið að svíkja yfirlýsingar sem forseti gaf formönnum þingflokka.

Við höfum í góðri trú fært þessi skilaboð þeim þingmönnum sem eru í okkar þingflokkum. Þeir hafa að sjálfsögðu sumir á mælendaskrá hagað ferðum sínum út frá því. Ef hæstv. forseti ætlar að halda þessu til streitu verð ég að mælast til þess að þá verði hæstv. forseti Sólveig Pétursdóttir sótt hingað í húsið. Það er þá rétt að hún sjálf gefi þinginu þá yfirlýsingu að orðum hennar sé ekki að treysta. Ef það er svo að þetta verði reyndin er það einföld niðurstaða hvers rökhugsandi manns að ekki sé hægt að byggja á yfirlýsingum hæstv. forseta Sólveigar Pétursdóttur. Ef það er grundvöllur samstarfsins millum þingmanna, þingflokka og forseta er ég ansi hræddur um að samstarfið verði giska erfitt þegar lengra vindur fram á veturinn. Það er ósk mín og krafa sem formanns þingflokks Samfylkingarinnar að hlé verði gert á fundi og hæstv. forseti Sólveig Pétursdóttir komi hingað til fundar við okkar. Það er hennar starf og til þess er hún kjörin, að stýra þinginu. Auðvitað er sjálfsagt að varaforsetar stýri fundum eftir föngum en ég minnist þess ekki að hafa séð hæstv. forseta Sólveigu Pétursdóttur hér á nokkru kvöldi í þessari viku. Aðrir menn hafa tekið vaktina fyrir hana.

Ég geri engar sérstakar athugasemdir við verkaskiptingu forseta. Hins vegar hlýtur það að vera hlutverk hins kjörna aðalforseta að vera til staðar á augnablikum sem þessum þegar segja má að upplausn ríki á Alþingi. Það er fullkomlega rökrétt og eðlilegt að við viljum fá hana hingað í salinn til að segja við okkur sjálf að orðum hennar sé ekki treystandi.

Ég vona að hæstv. forseti Jón Kristjánsson sem nú situr í forsetastóli ætli ekki að gera aðalforsetann að ómerkingi orða sinna.