133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:24]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U):

Herra forseti. Við erum að ræða um frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. Ég átti í dag og í gær orðastað við nokkra stjórnarliða og sjálfan hæstv. menntamálaráðherra varðandi kjör og réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins og þá sérstaklega hvaða áhrif þessi tilvonandi lagasetning mundi hafa á starfsfólkið. Það kom mér svolítið á óvart, herra forseti, að stjórnarliðar og sjálf hæstv. menntamálaráðherra höfðu greinilega ekki skoðað málefni starfsmanna nægilega vel varðandi þetta frumvarp eða þannig virtist a.m.k. í fyrstu. Síðar þegar ég fór af meiri ákveðni í andsvör við formann menntamálanefndar, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, og síðan við sjálfa hæstv. menntamálaráðherra kom í raun og veru í ljós það sem mig grunaði, herra forseti, að báðum var fullljóst að þetta frumvarp mundi skerða réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins. Það er orðið nokkuð ljóst eftir þann orðastað sem ég átti við þá þingmenn að í þessu frumvarpi er vísvitandi verið að skerða kjör og réttindi starfsmanna.

Það hefur verið mjög erfitt, herra forseti, að ná þessari staðreynd fram frá formanni menntamálanefndar og frá hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, en það er alveg ljóst eftir þann orðastað sem ég hef átt við þau að vísvitandi er í þessu frumvarpi skertur þessi réttur. Hvernig komst ég að þessari niðurstöðu? Jú, ég spurði hæstv. menntamálaráðherra hvort hér yrði um skerðingu að ræða og hún svaraði því einfaldlega nokkurn veginn þannig varðandi réttindakjör starfsmanna að hún vildi ekki hafa önnur eða betri ákvæði um starfsmenn í þessu frumvarpi en í öðrum sambærilegum frumvörpum. Þá erum við, herra forseti, m.a. að tala um frumvarpið um Matís ohf. og það stendur hér á milli lína, þ.e. að ráðherra vill gera jafnilla í starfsmannamálum í þessu frumvarpi og öðrum sambærilegum frumvörpum.

Þetta finnst mér vera hrein og bein viðurkenning. Þar sem við vitum að það var mikil óvissa í ákvæðum varðandi starfsmenn í öðrum frumvörpum um ohf. eða hlutafélagavæðingu er það alveg skýrt að menntamálaráðherra hefur hér í dag viðurkennt það sem ég hef haldið fram í umræðunni og fór mjög ítarlega yfir í fyrri ræðu minni, að þetta frumvarp mun skerða réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins. Þetta er alveg skýrt hjá hæstv. menntamálaráðherra og sjálfum finnst mér ákveðinn árangur að hafa náð þessum ummælum fram eða ummælum sem fela í sér þessa meiningu alveg skýra. Ég vænti þess að aðrir þingmenn taki þar af leiðandi ákvæðið varðandi starfsfólkið alvarlega og að sjálfsögðu ætti að taka frumvarpið allt til baka og til endurskoðunar. Þar væri best að setja inn ákvæði sem hagsmunasamtök eða stéttarfélög starfsfólks Ríkisútvarpsins hafa lagt til, þau mundu þá taka af öll tvímæli um réttindi og skyldur starfsmanna. Þegar það er komið í ljós að bæði hv. formaður menntamálanefndar og sjálf hæstv. menntamálaráðherra vilja hafa þetta svona, vilja þessa skerðingu, veltir maður fyrir sér hvort allir stjórnarþingmenn séu því sammála. Ég efast um það og þess vegna átti ég þennan orðastað í andsvörum við fleiri þingmenn, þar á meðal hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur þar sem hún fullyrti að kjörin yrðu ekki skert en ég gat síðan sýnt fram á annað. Ég trúi því, herra forseti, að nokkuð margir stjórnarliðar hafi hreinlega ekki áttað sig á því eða hreinlega tekið trúanleg orð þeirra sem hafa hagrætt sannleikanum. Mér finnst mjög alvarlegt þegar um kjör og réttindi starfsfólks er að ræða.

Í umræðunni hafa þingmenn velt fyrir sér af hverju stöðugt sé verið að tala um lög um þessi réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Í gegnum tíðina hafa stéttarfélög opinberra starfsmanna oft og tíðum sett meiri þunga á að starfsfólk vinni sér inn ákveðin réttindi en að sækjast eftir einhverri ákveðinni krónutölu í taxtahækkunum. Það hefur verið þannig milli stéttarfélaga opinberra starfsmanna annars vegar og fjármálaráðherra hins vegar að það er vitað að verið er að semja um launatengd kjör þegar samið er um þessi réttindi, þ.e. aukin orlofsréttindi, veikindaréttindi, orlofsréttindi í fæðingarorlofi og líka ákveðið áminningarferli, þ.e. að ekki er hægt að reka opinberan starfsmann fyrirvaralaust og án ástæðu eins og stundum gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Má þar sem dæmi nefna Alcan í Straumsvík. Þetta eru ákveðin kjör, öryggisatriði í starfsumhverfi starfsmanna Ríkisútvarpsins sem þeir hafa talið sér til tekna. Það hefur verið reynt að snúa út úr þessu á þann veg að ekki sé hægt að segja fólki upp. Það er að sjálfsögðu undir yfirmanninum komið hvort það er gert og þá hvernig, þetta svokallaða áminningarferli sem margur stjórnarliðinn hefur verið að rægja. Það er ekki flóknara en svo að ef yfirmaður er ósáttur við starfsmann ber honum að áminna starfsmanninn og gefa honum andmælarétt. Oft leysa menn einfaldlega úr ágreiningi en áður en kemur að hreinni uppsögn þarf að vera búið að áminna starfsmanninn skriflega tvisvar enda ætti þá að vera nokkuð ljóst að uppsögn sé óumflýjanleg.

Víða hafa menn tekið upp reglugerð, svokallaða ILO 158 sem er sambærileg þessu áminningarferli hjá opinberum starfsmönnum en þessi samþykkt, ILO 158, sem týnist alltaf hjá ríkisstjórninni — ég er með fyrirspurn um hvar hún sé stödd akkúrat núna — kveður á um það að starfsmenn á almennum vinnumarkaði hafi meira starfsöryggi, að ekki sé hægt að segja þeim upp alveg fyrirvaralaust. Víða á hinum almenna vinnumarkaði er áhugi á að taka upp fyrirkomulag sem er í anda áminningarferlisins.

Ég hef tekið eftir því síðustu daga, herra forseti, að þeim hefur fjölgað sem hafa verið sammála mér um réttindi starfsfólks, að þau séu í gífurlegri óvissu verði þetta frumvarp samþykkt. Ég hef enn þá þá trú að menn hafa áhuga á að leiðrétta þann kafla, þ.e. ákvæði II til bráðabirgða, en mun samt halda áfram að reyna að sannfæra þá sem eftir eru. Í umræðunum hefur hv. formaður menntamálanefndar gert því skóna að við stjórnarandstöðuþingmenn séum einfaldlega í málþófi en ég held að þetta snúist meira um það að þetta frumvarp þolir í raun ekki mikla gagnrýni. Það er einmitt hlutverk okkar á hinu háa Alþingi, sérstaklega í stjórnarandstöðunni, að kryfja frumvörp til mergjar og það er einfaldlega það sem við höfum verið að gera. Það hefur sannast akkúrat með þetta frumvarp að það er orðið hálfgert barnabarn, þriðja frumvarpið í röðinni. Fyrst var það Ríkisútvarpið sf., síðan Ríkisútvarpið hf. og nú er þetta Ríkisútvarpið ohf.

Það kom fram í dag hjá hæstv. menntamálaráðherra að hún væri algerlega andvíg því að breyta frumvarpinu og hafa þetta Ríkisútvarpið sf. þannig að það er nokkuð ljóst að frá því að frumvarp um breytingar á Ríkisútvarpinu sem kom fyrst fram fyrir 3–4 árum hafa þingmenn og ráðherrar látið frumvarpið taka ýmsum breytingum sem segir mér að það er enn tími til að breyta. Eitt af því sem er þar eftir er sem sagt þessi kafli varðandi réttindi starfsmanna nema það sé algjörlega stefna beggja stjórnarflokkanna að rýra kjör opinberra starfsmanna, ná niður þeim réttindum sem opinberir starfsmenn hafa, ef það er algjörlega yfirlýst stefna sem maður fær á tilfinninguna að birtist í raun í þessu frumvarpi fer maður kannski að skilja þessa þrákelkni við að koma því í gegn og þrákelkni við það að hlýða ekki, hvorki á starfsmenn né samtök þeirra né heldur okkur þingmenn.

Ég mótmæli því harðlega að þótt ég hafi talað þó nokkurn tíma í fyrri ræðu minni sé þar um málþóf að ræða. Þetta snýst um gagnrýni og það er svo merkilegt að þegar menn eru í þessum þingsal að gagnrýna líður varla sá dagur að ekki komi upp eitthvað nýtt varðandi frumvarpið. Það síðasta kom í ræðu áðan hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem hún benti á að í frumvarpinu eins og það stendur núna munu, verði ákvæðið um að taka upp nefskatt og afnema afnotagjöld samþykkt óbreytt, einfaldlega þeir einstaklingar sem einungis borga fjármagnstekjuskatt ekki borga nefskatt fyrir afnot af Ríkisútvarpinu, sjónvarpi. Það vefst fyrir mér að það hafi verið ætlunin hjá öllum stjórnarliðum að koma því þannig fyrir að þessir 2200 einstaklingar sem ekki greiða tekjuskatt heldur einungis fjármagnstekjuskatt sleppi algerlega við að greiða afnotagjöld af Ríkisútvarpinu. Mér finnst mjög sérstakt, herra forseti, ef það er ætlun allra stjórnarliða að svo verði þannig að ég trúi því að þarna séu einfaldlega mistök á ferð. Það er þannig með þetta blessaða frumvarp að því meira sem það er rætt því fleiri galla finna menn. Sumir gallarnir, eða það sem við köllum galla, eru vísvitandi settir inn af hæstv. menntamálaráðherra og þess vegna kemur alltaf upp þetta moldviðri annað slagið þegar menn gagnrýna frumvarpið af því að við erum ávallt að finna einhverja nýja galla eða ósanngjarna hluti sem í því felast.

Við höfum nokkrir þingmenn verið gagnrýndir fyrir að velta upp afskiptum útvarpsstjóra af þessu máli. Hvað mig varðar kom ég einungis inn á það, herra forseti, að útvarpsstjóri sagði sjálfur í viðtali við Viðskiptablaðið í desember 2005 að hann væri byrjaður að vinna eftir frumvarpinu. Þetta eru hans eigin orð. Hann sagði jafnframt að hann hefði ekki haft þolinmæði til að bíða eftir að frumvarpið yrði samþykkt þannig að útvarpsstjóri er byrjaður að ráða í stöður án þess að auglýsa þær fyrst. Þetta hefur hann sjálfur sagt og ég spurði hæstv. menntamálaráðherra í dag hvort ráðherrann væri samþykk þessum vinnubrögðum og ráðherrann svaraði því að sjálfsögðu í engu. Það er eins og með margt annað í þessari umræðu, herra forseti, við fáum ekki svör, þingmenn fá ekki svör. Oft er velt upp mörgum spurningum en þingmenn fá hreinlega ekki svör. En það hlýtur að vera mjög ámælisvert þegar útvarpsstjóri er byrjaður að vinna eftir frumvarpi sem Alþingi hefur ekki samþykkt og lítur ekki enn út fyrir að verði samþykkt. Hvernig í ósköpunum má það vera að starfsmaður stofnunar taki þannig í raun og veru fram fyrir hendurnar á Alþingi? Mönnum hefur orðið tíðrætt um það hér að framkvæmdarvaldið stjórni þinginu gjörsamlega. Menn hafa deilt um það við forseta og menn hafa deilt um það við formenn nefnda að þannig sé staðan en öllu verra er það nú ef menn úti í bæ eru farnir að stýra Alþingi líka og segja því hvernig það eigi að starfa. Samkvæmt þessu og að hans eigin sögn, útvarpsstjóra, er hann byrjaður að starfa eftir frumvarpinu, þ.e. hann réð þrjá starfsmenn fyrir rúmu ári án þess að auglýsa þær stöður sem honum vissulega bar að gera. Þá veltir maður líka fyrir sér, herra forseti, getur verið að útvarpsstjóri sé byrjaður að reka fólk án þess að áminna það? Spyr sá sem ekki veit.

Nú ætla ég að snúa mér að sjálfri ræðunni. Ég ætla að leyfa mér að taka það fram, herra forseti, að ég hafði hugsað mér að hafa fyrri ræðu mína til hliðsjónar í þeim tilgangi að minnka endurtekningar en því miður hafa verið svo miklar annir hjá þingriturum að ekki tókst að klára hana fyrir þennan fund í kvöld þannig að menn verða að virða mér það til vorkunnar þótt ég eigi eftir að endurtaka mig ögn.

Af því að ég var að ræða um starfsfólk langar mig að fara aftur yfir yfirlýsingu sem ég fór yfir í morgun undir liðnum um störf þingsins. Sá tími sem ég hafði þá var svo knappur að mér tókst ekki að lesa upp þessa yfirlýsingu alla en ég held að hún skipti okkur mjög miklu máli til að varpa ljósi á staðreyndir málsins varðandi þá skerðingu sem þetta frumvarp veldur á réttindum og kjörum opinberra starfsmanna annars vegar og hins vegar varpar þessi yfirlýsing ljósi á afskipti útvarpsstjóra af málinu. Það er nauðsynlegt að yfirlýsingin sé lesin hér upp og bókfærð, sérstaklega þar sem hæstv. menntamálaráðherra hefur brugðist frekar ókvæða við því þegar ákveðnir þingmenn hafa kvartað undan afskiptum útvarpsstjóra sem virðast oft og tíðum hafa verið frekar pólitísk. Sú yfirlýsing sem ég er að ræða um, herra forseti, birtist í morgun á vefsíðum hagsmunasamtaka starfsmanna. Þessi yfirlýsing var samin í gær og er sem sagt yfirlýsing frá BHM og BSRB og ég ætla að lesa hana, með leyfi forseta:

„Í umræðum um frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið ohf. hefur ítrekað verið vísað til yfirlýsingar Páls Magnússonar útvarpsstjóra frá því í nóvember sl. þar sem hann lýsti því yfir að öll kjör starfsmanna RÚV muni haldast óbreytt. Eftir að BSRB og BHM höfðu skoðað þessa yfirlýsingu voru samtökin sammála um að hún bætti engu við það sem fram kemur í sjálfu frumvarpinu þrátt fyrir ítrekaðar óskir samtakanna um breytingar.

Í yfirlýsingunni segir Páll Magnússon orðrétt: „Gert er ráð fyrir að hið nýja félag yfirtaki allar skuldbindingar stofnunarinnar gagnvart starfsmönnum, — bæði skv. ráðningarsamningum og kjarasamningum.“ Innihald þessarar yfirlýsingar er í samræmi við aðilaskiptalögin og því væri verið að brjóta þau ef ekki væri farið að þessu.

Þá er ýmsum spurningum ósvarað, þar á meðal er með öllu óljóst hvað gerist þegar kjarasamningar renna út. Mun RÚV ohf. til að mynda vera reiðubúið til að semja á grundvelli fyrirliggjandi kjarasamninga við aðildarfélög innan BSRB og BHM sem hafa samningsrétt fyrir starfsmenn RÚV?

Einnig er óvíst hvernig samið verður við þá sem hefja störf eftir að lögin taka gildi en það er m.a. forsenda þess að nýráðnir geti farið í A-deild LSR að starfsmenn séu aðilar að þessum samtökum.

Þá segir Páll í yfirlýsingu sinni: „Réttindi starfsmanna haldast því óskert — verði frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. að lögum — þó eru „sólarlagsákvæði“ varðandi biðlaunaréttinn.“ Að mati BSRB og BHM stenst þessi fullyrðing ekki þar sem réttindi samkvæmt lögum, eins og t.d. lögum um réttindi og skyldur og stjórnsýslulögum, munu ekki gilda gagnvart starfsmönnum RÚV ohf. Áminningarskyldan, andmælaréttur og auglýsingaskylda munu því t.d. ekki gilda.

Þá er enn óvíst hvort hægt sé að treysta því að hið nýja félag samþykki aðild að LSR. Til að slíkt sé tryggt þarf að kveða skýrt á um það í frumvarpinu.

Ýmsum spurningum er því enn ósvarað um kjör og réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins verði frumvarpið um RÚV ohf. samþykkt óbreytt.

Um lífeyrisréttindi starfsmanna segir í yfirlýsingu Páls Magnússonar: „LSR hefur sömuleiðis staðfest áframhaldandi rétt starfsmanna RÚV til aðildar að A-deild sjóðsins — að fengnu samþykki vinnuveitanda — sem gert er ráð fyrir að hið nýja félag veiti, — verði frumvarpið að lögum.“

Það hefur alltaf legið fyrir að starfsmenn eigi rétt á aðild að LSR að fengnu samþykki atvinnurekanda en BSRB og BHM hafa viljað fá ákvæði þar um inn í frumvarpið svo rétturinn verði ekki háður samþykki stjórnar RÚV ohf.

Óvissan um rétt starfsmanna er því enn jafnmikil og hún var fyrir yfirlýsingu Páls Magnússonar.

Umsögn BSRB og BHM um frumvarpið er því enn í fullu gildi.“

Þannig hljóðaði þessi yfirlýsing, herra forseti, frá BHM og BSRB. Þessi yfirlýsing sem var skrifuð í gær og birt í morgun er algjörlega í anda þess sem ég hef haldið fram í ræðu minni og andsvörum. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það er dapurlegt að verða vitni að þessum afskiptum útvarpsstjóra. Mörgum hlýtur að finnast afskiptin vera á þá leið að útvarpsstjóri taki þátt í að slá ryki í augun á fólki. Hann kom með ákveðna yfirlýsingu um að allt yrði í fína lagi varðandi starfsfólkið. Síðan er búið að tæta þá yfirlýsingu gjörsamlega niður. Við höfum svo sem séð áður að menn hafa reynt ýmislegt. Eitt var sérstaklega athyglivert í umræðunni í dag, hversu mikinn hæstv. menntamálaráðherra fór varðandi biðlaunaréttinn, þetta sólarlagsákvæði mundi gilda einu og hálfu ári lengur í þessum nýju lögum en í lögum t.d. um Matís ohf. Það er alveg ótrúlegt að fullorðið fólk skuli láta setja inn einhver smáákvæði sem skipta afskaplega litlu máli til að geta sagt: Við gerðum breytingar og betrumbætur á frumvarpinu til handa starfsfólkinu. Þetta hafa menn séð í gegnum, það kemur fram í þessari yfirlýsingu og hefur komið fram í ræðum hjá mér.

Það er eitt, herra forseti, varðandi þau andsvör sem ég hef farið í við hv. þingmenn og hæstv. menntamálaráðherra. Ég er með eitt þeirra hérna sem mér finnst ástæða til að fara yfir en það er andsvar við ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar sem er hér í hlutverki hv. formanns menntamálanefndar þar sem ég spurði: Telur hann að réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins skerðist ekki ef þetta frumvarp, Ríkisútvarpið ohf., verður að lögum? Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson svaraði skýrt, ég les það hér orðrétt, með leyfi forseta:

„Til þess að svara spurningunni vil ég segja að ég tel að réttindi starfsmanna séu ekki skert með frumvarpinu …“

Þetta leit vel út þegar þetta kom fyrst svona en þetta er bara hluti svarsins. Öll málsgreinin er svona, með leyfi forseta:

„Til þess að svara spurningunni vil ég segja að ég tel að réttindi starfsmanna séu ekki skert með frumvarpinu og ég tel að í því …“ — þetta eru í raun og veru tvær setningar þannig að þarna er fyrst fullyrðing um að réttindin verði ekki skert. Sú fullyrðing er algjörlega röng, herra forseti, því að ég er búinn að benda á það lögfræðilega álit frá fleiri en einum einstaklingi þar sem skýrt kemur fram samkvæmt álitum lögfræðinga að ef þetta frumvarp verður samþykkt eru starfsmenn Ríkisútvarpsins ekki lengur opinberir starfsmenn. Þar af leiðandi geta lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ekki gilt lengur um starfsfólkið sem þýðir að sjálfsögðu skerðingu. Þetta er því alls ekki rétt. Seinni hluti svarsins hjá hv. formanni menntamálanefndar er á þessa leið: — „… og ég tel að í því sé þeim ríkisstarfsmönnum sem starfa á Ríkisútvarpinu tryggð þau sömu réttindi og ríkisstarfsmönnum hjá öðrum stofnunum sem breytt hefur verið í hlutafélag hafa verið tryggð. Starfsmenn Ríkisútvarpsins fá því hin sömu réttindi og aðrir ríkisstarfsmenn.“

Já, þetta er svolítið mótsagnakennt. Fyrst kemur alveg skýr fullyrðing um að kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins ohf. verði ekki skert. Það kemur alveg skýrt fram. Síðan kemur fram að þeir muni fá sömu réttindi og aðrir starfsmenn sem hafa lent í þessari breytingu. Þetta er alveg tvennt aðskilið. Þetta er alls ekki sami hluturinn. Þeir sem hafa lent í þessari breytingu hafa lent í því að réttindi og kjör hafa verið skert þannig að ég verð að segja eins og er að þetta er alveg með ólíkindum. Annaðhvort veit þingmaðurinn ekki betur eða þá að hann hefur verið að reyna að rugla fólk þarna í ríminu. Fyrsti hluti svarsins er hrein ósannindi um að kjörin verði ekki skert. Það er alveg skýrt að þau verða það. En svona er þetta.

Ég held að aðalmálið sé það, eins og ég sagði í upphafi, að þeir sem stýra því að þetta frumvarp er keyrt svona í gegn vita nákvæmlega að þetta mun skerða réttindi og kjör opinberra starfsmanna. Það hlýtur þá að þýða jafnframt að sú sé ætlunin. Ég tel mig eftir þessi andsvör sem öll eru bókuð, herra forseti, vera búinn að sýna fram á það að meiri hlutinn ætlar sér að skerða kjörin og það er stóra ástæðan fyrir þessu lagafrumvarpi. Margt af því sem hefur verið nefnt hér að sé aðalatriðið felst í þessum svokallaða þjónustusamningi eða drögum að þjónustusamningi en það veit hver sem vill að að sjálfsögðu hefði verið hægt að gera þennan þjónustusamning fyrir einhverju síðan og það er alls ekki þannig að ekki sé hægt að gera samninginn án þess að þetta frumvarp verði fyrst samþykkt. Þessi samningur sem er hnýttur þarna aftan í þegar frumvarpið kemur fram í þriðja sinn undir nafninu ohf. er eingöngu beita til þess að fá viðbrögð. Að sjálfsögðu hafa fengist viðbrögð því að í þessum þjónustusamningi er m.a. talað um að stórefla innlenda dagskrárgerð og að sjálfsögðu rísa þá upp hagsmunahópar sem fagna því. Til þess er einmitt leikurinn gerður. Þetta er, herra forseti, algjört sjónarspil. Þennan þjónustusamning hefði átt að vera búið að gera eða svipaðan fyrir löngu en hann er hengdur þarna aftan í einungis til þess að fá ákveðna hópa til að fagna honum og lýsa yfir ánægju o.s.frv. til þess að setja þrýsting á okkur þingmenn til að samþykkja frumvarpið, þ.e. við erum farin að heyra úti í bæ að ef við samþykkjum ekki frumvarpið séum við að koma í veg fyrir stóraukna innlenda dagskrárgerð. Þetta eru náttúrlega svívirðileg vinnubrögð, að tengja þetta svona saman og fá þannig höggstað á þeim þingmönnum sem eru ósáttir við frumvarpið, fá höggstað á þeim með því að hnýta þennan samning aftan í, samning sem að vísu er ekki enn þá neitt nema drög.

Í þessari umræðu, herra forseti, hefur verið vikið að starfsháttum Alþingis og þingmenn hafa sakað framkvæmdarvaldið um að ráðskast með þingið og ráðskast jafnvel með þingforseta. Ég skal láta ógert að dæma um það en þingmenn hafa ásakað framkvæmdarvaldið um að koma fram með frumvörp sem eru unnin af starfsfólki ráðuneyta, leggja þau fram til 1. umr. og síðan vísað til nefnda sem hreinlega sé ekki ætlast til þess að geri neinar breytingar.

Það hefur verið þrasað um það í þessari umræðu hvort þetta sé rétt eða rangt. En sá grunur hefur læðst að fleirum en mér að þetta sé alls ekki ætlað og má kannski segja að það sé samt alveg ótrúlegt og þó.

Hér hafa menn aðallega hælt menntamálanefnd fyrir það hve marga gesti hún hefur kallað á fundi, ég held að það hafi verið um 150 gestir, og að haldnir hafi verið svo og svo margir fundir. Þetta er enn eitt sjónarspilið, herra forseti, sem er Alþingi virkilega til vansa að vera stöðugt að telja upp fjölda gesta. Það hefur engan tilgang að kalla gesti fyrir menntamálanefnd ef ekki er hlustað á þá eða farið eftir áherslum þeirra.

Í því ágæta jólafríi sem okkur er skaffað samkvæmt gömlum hefðum og venjum nýtti ég tímann og fór yfir umsagnirnar sem fylgja þessu frumvarpi. Þær eru allflestar neikvæðar í garð frumvarpsins. Það er mjög einkennilegt að kerfið skuli í raun vera orðið þannig á Alþingi að einn eða tveir starfsmenn í ráðuneyti, með fullri virðingu fyrir þeim, semji eitthvert frumvarp og ráðherrar leggi síðan blessun yfir það. Svo er það lagt fyrir ríkisstjórnarfund og það þarf enginn að segja mér að á örstuttum fundum þar nái menn að kryfja það gjörsamlega í gegn. Þar er samþykkt að leggja það fram og síðan kemur það fyrir þingið. 1. umr. er stutt. Að vísu eiga nokkrir þingmenn það til, sem sumir hverjir hafa röntgenaugu eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, að kryfja frumvarpið til mergjar strax á einni nóttu. Því miður er enn einn gallinn við störf þingsins, herra forseti, að oft eru frumvörp lögð fram tæpum sólarhring áður en þau eru tekin til umræðu. Okkur er greinilega ætlað að lesa frumvörpin á næturnar rétt eins og okkur er ætlað að halda ræður okkar hér og nú á næturnar.

Um tíma hélt ég að það væru nýliðabrek hjá mér að halda að hlutirnir gengju virkilega svona fyrir sig. En í grein sem birtist í Fréttablaðinu og er skrifuð af varaþingmanni Framsóknarflokksins sem tekið hefur sæti á þingi, koma alveg skýrt fram áhyggjur hennar af starfsháttum Alþingis.

Þá veltir maður fyrir sér hvort þetta tíðkist hjá báðum núverandi stjórnarflokkum. Maður veltir því fyrir sér hvenær þetta starfsfyrirkomulag hafi verið tekið upp, þ.e. að múlbinda nefndirnar. En tilfinningin, miðað við síðustu daga í umræðunni, herra forseti, varðandi þetta frumvarp er sú að það sé í rauninni tvíeyki sem stýrir því, þ.e. ráðherra og útvarpsstjóri, og síðan sé formaður menntamálanefndar eins og þriðja hjólið. Að vísu tek ég, eins og flestir aðrir, undir það að formaðurinn hefur verið afskaplega viljugur til að taka málið aftur í nefnd og halda marga fundi og til að boða og hlusta á marga gesti, burt séð frá því hversu mikið er eftir því farið.

Ég tel rétt áður en lengra er haldið, og af því komið hefur upp gagnrýni á þingstörfin tengd þessu frumvarpi, að fara yfir þessa grein varaþingmanns Framsóknarflokksins sem að mínu viti varpar ljósi á það hvernig framsóknarmenn upplifa þingstörfin. Þetta rennir stoðum undir vangaveltur mínar um að það sé í raun og veru ekki allt með felldu, að það séu í rauninni ekki alþingismenn sem ráði eða fái nokkru ráðið um frumvörp.

Þessi grein er eftir Eygló Harðardóttur, varaþingmann Framsóknarflokksins, og hún er að velta fyrir sér þrískiptingu valdsins. Hún segir orðrétt í Fréttablaðinu 12. janúar 2007, með leyfi forseta:

„Einn af grundvöllum vestræns lýðræðis er þrískipting valdsins í framkvæmdar-, dóms- og löggjafarvald. Á Íslandi hefur dómsvaldið áþreifanlega sýnt sjálfstæði sitt með dómum sem hafa ekki fallið sérstaklega í kramið hjá hinum kjörnu fulltrúum.“ — Þ.e. þá hjá Framsóknarflokknum. — „En er hægt að greina á milli löggjafar- og framkvæmdarvaldsins hér á landi?

Síðastliðinn vetur tók ég um tíma sæti á Alþingi sem varaþingmaður og starfaði mikið í nefndum þingsins. Það sem kom mér mest á óvart var hversu lítið löggjafarstarf fór í raun fram í nefndunum.“ — Herra forseti. Ég ætla að fá að lesa þessa setningu aftur: — „Það sem kom mér mest á óvart var hversu lítið löggjafarstarf fór í raun fram í nefndunum. Lagafrumvörp voru lögð fram af ráðuneytunum og fylgdu starfsmenn viðkomandi ráðuneyta þeim úr hlaði og virtust oft hafa lítinn áhuga á að heyra skoðanir hinna kjörnu fulltrúa.“

Þetta er afskaplega merkileg grein, herra forseti, sem Eygló Harðardóttir, varaþingmaður Framsóknarflokksins, ritar í Fréttablaðið 12. janúar síðastliðinn. Hún rennir stoðum undir það sem við höfum verið að segja í þessari umræðu, að nefndarstörf skipti afskaplega litlu máli og að hinn almenni þingmaður, löggjafarvaldið, fái í raun og veru engu ráðið. Það er svolítið merkilegt að fá að heyra sjónarmið stjórnarliða.

Síðan segir Eygló:

„Þeir sem enginn kaus. Jarðtenging starfsmanna ráðuneytanna við hinn almenna borgara virtist einnig stundum vera lítil. Má nefna sem dæmi að í einu tilfelli tók ég eftir ákvæði í lagafrumvarpi þess efnis að öll fyrirtæki í landinu ættu að birta ákveðinn texta á vefsíðu sinni. […] Þannig virðist vald Alþingis að miklu leyti hafa færst yfir til ráðherranna og í framhaldi af því til starfsmanna ráðuneytanna, sem enginn kaus.“

Þetta segir varaþingmaður Framsóknarflokksins í grein í Fréttablaðinu. Það er rétt að taka fram að þessi varaþingmaður er í framboði og hyggst starfa áfram á þingi.

Það er eitt sem rennir kannski stoðum undir það sem stendur þarna síðast, og þingmenn hafa tekið glöggt eftir, en það er að hér hefur eiginlega verið 64. þingmaðurinn á meðan umræðan um frumvarpið hefur verið í gangi. Starfsmaður úr ráðuneytinu hefur staðið hér í dyragættinni, herra forseti, og fylgst nákvæmlega með öllum umræðunum og reynt að tryggja það að ráðherra hafi ávallt svör á reiðum höndum um ágæti frumvarpsins þegar að við þingmenn höfum verið að koma með ábendingar, fyrirspurnir o.s.frv. Á tímabili átti ég hreinlega von á því að þessi ágæti starfsmaður menntamálaráðuneytisins tæki sér sæti inni á þingi.

Áfram segir Eygló í þessari grein:

„Í flestum lýðræðisríkjum er lögð mikil áhersla á þrískiptingu valdsins. Þannig eru ráðherrar í Bandaríkjunum ekki þingmenn og í Svíþjóð er það svo að ef þingmenn eru útnefndir ráðherrar þurfa þeir að víkja sæti á þingi á meðan þeir gegna ráðherradómi. Enda er það svo að í þessum ríkjum er staða þingforseta raunveruleg valdastaða, ólíkt því sem gerist hér á landi.“

Þetta eru þung orð, herra forseti, að hér sitji hæstv. forseti gjörsamlega valdalaus og fái engu ráðið um störf þingsins, um framvindu mála, framvindu umræðna o.s.frv.

Að lokum segir Eygló Harðardóttir, varaþingmaður Framsóknarflokksins í grein sinni, með leyfi forseta:

„Það er nauðsynlegt lýðræðinu á Íslandi að tekin verði skref sem tryggi skýra aðgreiningu löggjafar- og framkvæmdarvalds. Setning laga á að vera í höndum kjörinna fulltrúa, en ekki nafnlausra embættismanna á kontórum uppi í ráðuneyti. Ráðherrar eiga að framkvæma vilja Alþingis. Ekki öfugt.“

Mér finnst þetta vera stórmerkileg grein, herra forseti, og tímamótagrein sem eigi afskaplega vel við í umræðunni um þetta frumvarp, Ríkisútvarpið ohf.

Ég tel rétt að ítreka enn og aftur að það er stjórnarliði sem hér talaði og rennir þessi grein hennar stoðum undir þær vangaveltur sem margur þingmaðurinn hefur haft um framvindu þessa frumvarps. Að vald nefndarinnar sé í raun og veru ekki neitt og vald hins almenna þingmanns sé í rauninni ekki neitt. Þetta er allt saman ákveðið af menntamálaráðherra með aðstoð starfsmanns í ráðuneyti og ég ætla að leyfa mér að bæta því við að síðan er formaður menntamálanefndar svona eins og þriðja hjólið.

Eitt af því sem mönnum hefur orðið tíðrætt um í þessari umræðu er tilraun ákveðinna stjórnarliða til að fá Alþingi til að samþykkja sölu á Ríkisútvarpinu. Ég tel óþarfi, herra forseti, að tönnlast sérstaklega á því hvaða þingmenn úr stjórnarliðinu það eru. Eitt af því sem vakti strax athygli manns þegar maður fór að líta yfir þetta frumvarp sem kom, að ég held, fyrst fram á 130. löggjafarþingi, þ.e. árið 2003, var að þá kom fram alveg skýr vilji að selja Ríkisútvarpið. Þá voru þrír þingmenn flutningsmenn þess og þar á meðal Sigurður Kári Kristjánsson sem er í dag formaður menntamálanefndar.

Frumvarp þetta sætti nokkurri ádeilu og það er svolítið sérstakt að tveimur árum seinna, á 132. löggjafarþingi, kom frumvarpið aftur fram en þá hafði flutningsmönnum fækkað um einn, þ.e. formaður menntamálanefndar hefur séð ástæðu til, eða verið skipað svo fyrir, að draga sig af frumvarpinu. Eftir sem áður er það alveg ljóst að þetta frumvarp var lagt hér fram og sýnir vilja nýrra þingmanna Sjálfstæðisflokksins varðandi Ríkisútvarpið.

Það er svolítið sérstakt að heyra svo í umræðunni að formaður menntamálanefndar og sérstaklega hæstv. menntamálaráðherra hafa reynt að bera algjörlega til baka þann vilja stórs hluta Sjálfstæðisflokksins að einkavæða Ríkisútvarpið. Í þeim tilfellum hefur hæstv. menntamálaráðherra einungis getað gripið til þess að það komi hvergi fram í stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins að það standi til að selja Ríkisútvarpið. Það hefur nú ýmislegt verið gert, herra forseti, sem ekki kemur fram í stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að vitna í ræðu hæstv. menntamálaráðherra frá 17. október síðastliðnum en þar segir hún m.a., með leyfi forseta:

„Ég ætla að fara yfir nokkur atriði sem hæst hefur borið í umræðunni, m.a. þá lensku stjórnarandstöðunnar að telja frumvarpið vera undanfara sölu. Það er sama hve oft því er mótmælt úr þessum ræðustól, hversu oft það er fullyrt af flutningsmanni frumvarpsins og helstu talsmönnum stjórnarflokkanna. Það er ekki hlustað þegar kemur að þessu atriði, frekar farið í að sá fræjum tortryggni og efast um það sem sagt er. Ég spyr: Í stefnu hvaða stjórnmálaflokks er gert ráð fyrir að selja Ríkisútvarpið? Það kemur hvergi fram. Ekki í stefnu Sjálfstæðisflokksins og ekki í stefnu Framsóknarflokksins.“

Ég held að það hafi margoft komið fram í umræðunni, herra forseti, að það kemur heldur ekki fram í stefnu Framsóknarflokksins að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið en af hverju ættu menn að taka það sem eitthvert boðorð eða lög að það standi ekki í stefnu Sjálfstæðisflokksins að til standi að selja Ríkisútvarpið? Vilji ákveðinna þingmanna er alveg skýr og væntanlega einungis það að Framsóknarflokkurinn hafi líkast til staðið í vegi fyrir því að það yrði gengið svo langt að þessu sinni. En menn hafa fært rök fyrir því, m.a. löglærðir menn eins og Ástráður Haraldsson, að þetta sé í raun og veru með þessu frumvarpi, Ríkisútvarpið ohf., þá er einkavæðing byrjuð.

Ég held að það sé rétt af því að ég er kominn inn á þessa braut að líta aðeins á athugasemdir hæstaréttarlögmanns Ástráðs Haraldssonar varðandi einkavæðingu þar sem hann fullyrðir að þetta frumvarp sé í raun og veru upphaf að einkavæðingu, einkavæðingin sé byrjuð. Það er mjög merkilegt að menn skuli ekki geta verið sammála en eftir því sem Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður segir þá er það nokkuð ljóst að fyrsta stig einkavæðingar er í raun búið ef þetta frumvarp er samþykkt. Það er mjög sérstakt að meiri hlutinn skuli telja að bara með því að þrasa í hvert skipti sem einhver kemur með réttmætar ábendingar þá sé hægt að þrasa þær hreinlega út af borðinu, að „þetta er bara ekki rétt“ o.s.frv. Það er margbúið að sýna fram á að þetta frumvarp er að sjálfsögðu upphafið að sölu, hvað sem hæstv. menntamálaráðherra segir enda eru hennar einu rök þau að þetta sé ekki í stefnu Sjálfstæðisflokksins. En ef allar ætlanir Sjálfstæðisflokksins væru skráðar í stefnuna þá hef ég grun um að hún yrði ansi skrautleg og löng þannig að það er því miður ekki hægt að taka mark á því.

Við skulum þá snúa okkur aftur, herra forseti, að frumvarpinu sjálfu. Ég vakti athygli á því fyrr í kvöld sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vakti máls á í ræðu sinni og er þingmaðurinn þekkt fyrir það að fátt fari fram hjá henni. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fullyrti að miðað við kafla nr. 4 í frumvarpinu um tekjustofna þá gildi nefskatturinn ekki fyrir þá einstaklinga á Íslandi sem einungis hafa tekjur af fjármagnstekjum, greiða einungis skatt af fjármagnstekjum. Ég gerði athugasemd áðan við hæstv. forseta og vonast eftir því að einhver svör fáist við því hvort þetta sé virkilega réttur skilningur því að ég efast um að meiri hluti (Gripið fram í.) þingmanna hafi áhuga á því að samþykkja hér frumvarp sem þýðir að í staðinn fyrir afnotagjaldið sé tekinn nefskattur og einungis af þeim sem greiða tekjuskatt en þeim sem eru taldir til hálaunamanna og ná því að greiða einungis fjármagnstekjuskatt, sem eru rúmlega 2.000 manns, að þeir muni ekki þurfa að greiða nefskattinn. Varla er nefskattur nefskattur ef hann er ekki á öll nef.

Ég minntist á áðan að það hafa komið fram tillögur frá Bandalagi háskólamanna og BSRB um það hvað í raun og veru vanti inn í frumvarpið til þess að tryggja að réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins verði ekki skert verði þetta frumvarp að lögum. Þetta eru sáraeinfaldar tillögur og þetta er í raun og veru hliðstætt því sem gerðist um áramótin varðandi Flugstoðir ohf. þegar ákveðnir starfsmenn vildu ekki ráða sig til félagsins eftir að það yrði hlutafélag á þeim forsendum að þeim dygðu ekki orðin ein varðandi kjör. Menn hafa því reynslu af því að slík mál fari í deilur og deilur hlaupi í hnút o.s.frv. og ættu þess vegna að hafa varann á.

Herra forseti. Það hefur ekki komið fram áður í umræðunni hvaða breytingar á frumvarpinu hagsmunasamtök starfsmanna Ríkisútvarpsins telja að mundu duga til þess að eyða þeirri óvissu sem starfsmenn eru í. Þetta eru ekki stórvægilegar breytingar, herra forseti, og í raun og veru alveg með ólíkindum að slíkar breytingartillögur skyldu ekki hafa komist að hjá menntamálanefnd, að menntamálanefnd skyldi ekki hafa séð ástæðu til þess að bæta þeim inn í frumvarpið. Það getur aðeins verið ein ástæða fyrir því, herra forseti, það er eins og ég hef margoft haldið fram, að annar megintilgangur þessa frumvarps eða við skulum segja þriðji, — við skulum reikna með að einn tilgangurinn sé að nútímavæða það — að þriðji megintilgangur frumvarpsins sé að kippa úr sambandi lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Það er sú niðurstaða sem ég hef komist að að vel athuguðu máli. Því hefur í raun og veru enginn mótmælt og maður hefur jafnvel heyrt í mönnum hér á göngunum að það sé gert vísvitandi.

Það er enn þá tími til stefnu, herra forseti, að menn taki sér tak og geri þær breytingar á frumvarpinu sem eru taldar nauðsynlegar til þess að draga úr þessari óvissu starfsmanna og það ættu allir þingmenn að gera sér fyllilega grein fyrir að það er mjög óþægilegt fyrir fólk að hafa ekki á hreinu hver kjör þeirra verða, hvort til skerðingar komi eða ekki, sérstaklega í þessu þjóðfélagi þar sem menn eru með skuldir langt fram í tímann og mega hreinlega ekki við því að kjör þeirra breytist. Þar fyrir utan erum við að tala hér um þó nokkuð stóran hóp starfsmanna Ríkisútvarpsins og flestir þeirra eru fyrirvinnur þannig að þetta skiptir stóran hóp í þjóðfélaginu gífurlega miklu máli.

Til að ekkert fari á milli mála, herra forseti, og af því að ég hef ekki tekið þetta fram hér áður þá sé ég ástæðu til að fara nákvæmlega yfir þessar tillögur, breytingartillögur hagsmunasamtaka starfsmanna Ríkisútvarpsins við frumvarpið til þess að þingheimur, vilji hann hafa einhver áhrif, vilji löggjafarsamkundan hafa einhver áhrif, átti sig á því hvað þarf í raun og veru að breyta litlu til þess að lægja öldurnar. Þetta er bréf frá BHM og BSRB og undir það skrifa Svanhildur Halldórsdóttir og Halldóra Friðjónsdóttir.

Hér segir varðandi frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, með leyfi forseta:

„Tillögur menntamálaráðherra um rekstrarformsbreytingu RÚV yfir í hlutafélag hefur í för með sér grundvallarbreytingar á réttindum starfsmanna og ýmis réttindi munu jafnframt glatast verði frumvarpið samþykkt. Samtökin hafa lagt höfuðáherslu á það í umsögn frá 16. febrúar 2006 að réttindi starfsmanna verði tryggð í frumvarpinu. Að mati samtakanna er eina leiðin til að tryggja óbreytt réttindi starfsmanna að frumvarpið verði ekki að lögum og þess vegna gera samtökin það að sinni megintillögu að horfið verði frá lögfestingu þess. Fari hins vegar svo að menntamálanefnd afgreiði frumvarpið frá sér til 3. umr. telja samtökin mjög brýna nauðsyn bera til þess að á því verði gerðar breytingar til að tryggja með skýrum hætti réttarstöðu starfsmanna við gildistöku laganna. Eins og frumvarpið liggur nú fyrir skapast mikil réttaróvissa um réttarstöðu starfsmanna RÚV við gildistöku laganna.“

Þetta er akkúrat það, herra forseti, sem ég hef haldið fram í umræðunni. Það er mjög einkennilegt að hæstv. menntamálaráðherra sjái ástæðu til að leggja fram frumvarp sem er að stórum hluta til þess ætlað að skerða kjör starfsfólks og m.a. með því, eins og hér segir og ég hef haldið fram, að kippa úr sambandi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna. Ef þingmeirihlutinn telur að þessi lög séu svo slæm að ekki sé hægt að reka Ríkisútvarpið með þau þá á þingheimur að sjálfsögðu að taka lögin sjálf sérstaklega fyrir og endurskoða þau og gera þá beint breytingar á þeim en ekki að fara svona bakdyramegin og kippa þeim úr sambandi. Það má kannski segja að margur hefði ekki tekið eftir því ef þessi hagsmunasamtök hefðu ekki bent á þetta, og ákveðnir þingmenn, því það kom alveg greinilega fram þegar ég var hér í andsvörum t.d. við unga framsóknarþingmenn að þeir gerðu sér á engan hátt grein fyrir því að þetta frumvarp mundi þýða það að lög um réttindi og skyldur starfsmanna mundu í raun falla úr gildi þar sem það gildir um opinbera starfsmenn en starfsmenn RÚV ohf. geti ekki í raun áfram talist opinberir starfsmenn, sem þýðir skerðingu á réttindum, skerðingu á kjörum.

Mér er það nokkuð ljóst að ungu framsóknarþingmönnunum var svolítið brugðið þegar við ræddum þessi mál hér í gær og ég held að það sé ákveðin vísbending um að þessir ungu þingmenn sem hafa ekki látið sjá sig hér í dag hafa væntanlega ekki lagt í að taka frekar þátt í umræðunni. Ég held innst inni, herra, forseti, að margur framsóknarþingmaðurinn hafi hreinlega verið plataður með þessu frumvarpi. Að sjálfsögðu er ekki hægt að ætlast til þess að þingmenn geti lesið allt það sem hér er lagt fram og brotið það til mergjar. En þegar svoleiðis er á það að sjálfsögðu að gerast í nefndarstörfum og að sjálfsögðu á það gerast í samræðum við þá sem hafa þekkingu á málinu, nefnilega gesti sem koma á fundi nefndarinnar. En það virðist ekki hafa gerst og ég er nokkuð viss um að framsóknarþingmenn hafa fyrst í gær áttað sig á því að þeir væru að stuðla að kjaraskerðingu starfsmanna Ríkisútvarpsins. Þeir þurfa því að gera það upp við sig, ef þetta frumvarp verður tekið til afgreiðslu, hvort þeir ætli að styðja það og þar af leiðandi að styðja þessa kjaraskerðingu.

Þetta sem ég las upp hér áðan, herra forseti, er inngangur að þessum breytingartillögum eða tillögum að breytingartillögum. Í frumvarpinu eru nokkur ákvæði til bráðabirgða og ákvæði II er um réttindi starfsmanna. Það segir nú afskaplega lítið þar í þessum tólf línum, herra forseti, og er það eflaust með vilja gert. En það sem þær stöllur hjá BHM og BSRB leggja til að verði nýtt ákvæði til bráðabirgða hljómar þannig, með leyfi forseta:

„RÚV ohf. tekur við gildistöku laganna yfir skyldur vinnuveitanda gagnvart starfsmönnum Ríkisútvarpsins að öllu leyti og þannig halda þeir óbreyttum réttindum samkvæmt lögum, kjarasamningum og ráðningarsamningum. Starfskjör, réttindi og ávinnsla réttinda halda áfram hjá hlutafélaginu eins og um samfellda ráðningu hjá sama vinnuveitanda sé að ræða.

Starfsmenn Ríkisútvarpsins sem njóta biðlaunaréttar samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, sbr. 34. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, missa ekki rétt til biðlauna við gildistöku laga þessara þó svo að þeir afþakki boð um um starf hjá RÚV ohf. Eftir gildistöku laga þessara skal starfsmönnum sem rétt eiga til biðlauna veittur umþóttunartími í þrjá mánuði til að taka afstöðu til þess hvort þeir taki boði um starf hjá RÚV ohf. eða neyti biðlaunaréttar síns, og miðast biðlaunaréttur þeirra þá við lok þriggja mánaða tímabilsins ef viðkomandi kýs að halda ekki áfram störfum.

Starfsmenn Ríkisútvarpsins sem eru í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eiga rétt til áframhaldandi aðildar að þeim sjóði sem og allir starfsmenn sem ráðnir verða til RÚV ohf. Starfsmenn RÚV ohf eiga rétt á því að vera félagsmenn í þeim stéttarfélögum sem lögum samkvæmt eiga rétt á því að gera kjarasamning við RÚV ohf. enda hafi hlutaðeigandi stéttarfélag gert kjarasamning fyrir þá við Ríkisútvarpið eða fjármálaráðherra fyrir þess hönd.“

Svo mörg voru þau orð, herra forseti.

Ég hefði haldið að það ætti ekki að flækjast fyrir meiri hlutanum á Alþingi að bæta þessum setningum inn. Þessar setningar eru settar til þess að skýra ákvæði til bráðabirgða um réttindi starfsfólks og eru í sjálfu sér töluvert í anda þess sem hv. formaður menntamálanefndar og útvarpsstjóri og eflaust einhverjir fleiri hafa sagt. En orðin duga ekki. Þetta verður að vera staðfest á blaði og það eru samtök starfsmanna að biðja um. Hún er alveg með ólíkindum sú þrákelkni að geta ekki sett þessi atriði inn í frumvarpið, þessi bráðabirgðaákvæði, til að eyða óvissu um réttindi og kjör starfsmanna eftir breytingu. Þegar þingheimur sér hvað lítið hér er verið að biðja um og áttar sig á að margur þingmaðurinn hélt í raun að frumvarpinu væri ætlað að taka á þessu máli þá er mér það algjörlega óskiljanlegt af hverju menn taka þá ekki þessar setningar inn.

Nei, menn ætla frekar að standa í deilum eins og menn lentu í með Flugstoð ohf. þar sem flugumferðarstjórar neituðu að trúa bara orðum tilvonandi yfirmanna. Það er nefnilega þannig, herra forseti, eins og hefur nú ögn verið drepið hér á og væntanlega þá af hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að þjóðin hefur reynslu, þ.e. þegar ríkisstofnun eða ríkisstofnanir eru færðar yfir í opinbert hlutafélag, af þeirri tregðu og óvissu sem skapast í kjölfarið þegar á að fara að ganga frá kjörum starfsfólks. Starfsfólk hefur sagt í aðdraganda slíkra breytinga og núna jafnvel mörgum mánuðum og árum eftir slíkar breytingar að það sé enn þá í óvissu. Það hefur komið fram hér í umræðunni og sjálfsagt er að ítreka það, herra forseti, að eins og hjá Matís ohf. þá hefur reyndin verið sú að starfsmenn eru nánast eltir uppi af yfirmönnum og reynt að fá þá til að skrifa undir ráðningarsamninga en þegar vel er að gáð af þeim sem eru vanir að vinna við slíka hluti þá eru verulegir gallar í þeim samningum sem bitna á kjörum og réttindum starfsmanna. Það skal bara sagt hér hreint út, herra forseti, að til dæmis Starfsmannafélag ríkisstofnana hefur verið að reyna að semja fyrir hönd sinna starfsmanna hjá Matís ohf. og hafa verið dregnir á asnaeyrunum svo mánuðum skiptir. Þeirra reynsla er einfaldlega sú að áhugi yfirmanna Matís ohf. á því að gera ráðningarsamninga við starfsmenn í samvinnu við stéttarfélögin, eins og var lofað í orði, er alls ekki fyrir hendi. Sá vilji er alls ekki fyrir hendi. Enn og aftur, herra forseti, rennir þetta stoðum undir það sem ég hef minnst á hér í kvöld, að stór hluti af ástæðunni fyrir hlutafélagavæðingu ríkisstofnana, þrátt fyrir að það sé sett svona í fallegan búning og skreytt með þjónustusamningum og öðru, er sá að reyna að ná niður réttindum og kjörum starfsmanna. Það hefur lengi verið ljóst að Sjálfstæðisflokknum er mjög í nöp við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þeir telja að þetta trufli framgang, vöxt, nútímavæðingu o.s.frv. og að ekkert sé hægt að gera. En þetta er allt meira og minna fyrirsláttur.

Væri þetta hins vegar allt satt, væru þessi lög svona mikið til trafala þá á að sjálfsögðu, herra forseti, að ganga hreint til verks og leggja til breytingar á lögunum sjálfum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en ekki að fara svona bakdyraleið eins og verið er að gera með hlutafélagavæðingunni og þar á meðal þessu frumvarpi.

Herra forseti. Ég hef farið yfir breytingartillögur hagsmunasamtaka starfsmanna og ég er nokkuð viss um að ef þingheimur allur hlustaði og læsi þetta jafnvel vel yfir þá fyndist meiri hlutanum nú ekkert tiltökumál að kippa þessu inn. En þrákelkni menntamálaráðherra er svo mikil að ekki má hrófla við frumvarpinu. Það má varla anda á það. Ég slæ á það þegar menn eru tala um allar þessar breytingar þó að það hafi verið kannski einhverjar svona smávægilegar breytingar sem þeir hafa fundið. Þetta er nú allt sem starfsfólkið er að biðja um. Það er sett saman hér. Það er gert til þess að eyða óvissu. En taktík meiri hlutans og hæstv. menntamálaráðherra er nú einu sinni sú að þreyta fólk til hlýðni. Það hefur tíðkast lengi. Þetta eru mjög ósanngjörn vinnubrögð og ótrúlegt í nútímaþjóðfélagi að menn skuli enn þá haga sér svona. Ég held að þingheimur og almenningur hafi nú áttað sig á því í umræðunni hér síðustu daga að það er nánast alveg sama hvaða rök og hversu góð rök þingmenn koma með og hversu margir aðrir styðja þau, jafnvel þá löglærðir aðilar og fleiri en einn og fleiri en tveir, að það er allt slegið út af borðinu sem bara málþóf og svona bara eitthvert kjaftæði. Því miður er það nú þannig.

Þetta var sem sagt um breytingartillögur BHM og BSRB. Þær hafa ekki hlotið náð fyrir augum menntamálanefndar sem er að öllu leyti óskiljanlegt. En ekki er öll von úti enn, herra forseti. Það getur nú enn gerst að menn sjái að sér og taki málið aftur til nefndar og geri á því breytingar til þess að eyða þeirri óvissu sem skapast hefur og mun verða verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Ég vil jafnframt ítreka ábendingu Jóhönnu Sigurðardóttur fyrr í kvöld varðandi nefskattinn. Ég tel að það ætti að skoða sérstaklega. Það er sérstakt við þetta frumvarp að það leiðir af sér ákveðna réttaróvissu og menn hafa fært rök fyrir því að lögin mundu líklega kalla kærur yfir Ríkisútvarpið ohf. Eins og hæstaréttarlögmaðurinn Ástráður Haraldsson komst að orði þá verður Ríkisútvarpið eftir samþykkt frumvarpsins vopnlaust gegn kærum er varða samkeppnismál. Ég held að þetta viti þingmeirihlutinn þótt hann vilji ekki vita það og taka mark á því.

Stór hluti af því sem ég hef verið að segja, herra forseti, er að hugsunin bak við hlutafélagavæðinguna snýst í raun gegn starfsfólki. Hlutafélagið er valið til að ná niður kjörum og réttindum starfsfólks. Það hefur að margra mati sýnt sig, m.a. þegar frumvarp varð að lögum um Matís ohf. — Ég tel rétt, herra forseti, að menn átti sig á því að við erum að tala um Matís ohf. en ekki Matvís, sem er stéttarfélag í þjónustu- og veitingageiranum. Menn hafa svolítið ruglað þessu saman. En við erum að tala hér um Matís ohf. — Með því frumvarpi voru sameinaðar stofnanir, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir á Keldnaholti og Rannsóknarstofa Umhverfisstofnunar. Á þeim tíma mótmæltu stéttarfélög fyrir hönd starfsfólks þessum áformum. Á þau mótmæli var ekki hlustað þá fremur en núna. Í sjálfu sér var réttindum starfsmanna vísvitandi stefnt í voða. Þegar grannt er skoðað var í því tilfelli eina breytingin fólgin í skerðingu á réttindum og kjörum. Það er ekki hægt að sjá að neinar aðrar breytingar hafi verið gerðar. Slík skerðing er væntanlega krossferð frjálshyggjumanna, sem margur þeirra hefur viðurkennt.

Menn mega að sjálfsögðu hafa sínar skoðanir en þeir verða þá að vera menn til að bera ábyrgð á þeim og viðurkenna að lagafrumvörpin séu fyrst og fremst lögð fram af því að þeir séu mótfallnir stéttarfélögum og áhrifum þeirra og þeir telji sig geta höggvið skörð í stéttarfélögin með slíkri lagasetningu, eins og frumvarpi um Ríkisútvarpið. Góður og gegn lögfræðingur í vinnumarkaðsmálum, Lára V. Júlíusdóttir, hefur m.a. varað við því sérstaklega að verði þetta frumvarp að lögum þá muni tvö félög starfsmanna Ríkisútvarpsins leysast upp, þ.e. Félag fréttamanna og Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins. Þrátt fyrir þetta sér meiri hlutinn enga ástæðu til að gera neinar breytingar á frumvarpinu. Ég held að innst inni, herra forseti, sé markmiðið m.a. að fækka hreinlega stéttarfélögum og minnka völd þeirra sem áfram lifa. Það eru náttúrlega mjög slæm markmið sem helst gætir hjá hægri sinnuðum frjálshyggjumönnum sem sjá ekkert markvert annað en gróða.

Menn hafa bent á það í umræðunni að mönnum finnist sem Framsóknarflokkurinn hafi verið dreginn inn í þessa vitleysu. Hluti af þessu frumvarpi er náttúrlega ekki annað en vitleysa. En ef þetta er tilgangurinn, að skerða réttindi og kjör starfsmanna og ná niður áhrifum stéttarfélaga, þá mun meiri hlutinn ná því markmiði verði frumvarpið samþykkt.

Á sínum tíma, varðandi Matís ohf., var varað við því af stéttarfélögum að það sem kæmi fyrst og fremst kæmi til með að breytast með því frumvarpi væru réttindi starfsmanna. Réttindi starfsmanna eru betur tryggð hjá ríkinu en á almenna vinnumarkaðnum. Það skal alveg viðurkennt. Það vita allir. Hvaða réttindi erum við að tala um? Þar er um að ræða lífeyrisréttindi, veikindarétt, slysa- og örorkubætur og síðan það sem ég hef minnst á áður, áminningarskyldu, andmælarétt varðandi uppsagnir, orlofsmál, persónu- og orlofsuppbót o.s.frv.

Það er ljóst að ríkisvaldið vill ná þessum réttindum niður. Ég ætla rétt að vona að þeir vilji ekki algjörlega afnema þau, að með þessu frumvarpi muni réttindi starfsmannanna skerðast. Þessi réttindi hafa áunnist hjá starfsmönnum á mjög löngum tíma og væru náttúrlega ekki fyrir hendi nema að um þau hefði verið samið. Sá sem samdi um þessi réttindi við starfsmenn var að sjálfsögðu fjármálaráðherra. Þetta virkar svolítið eins og menn hafi allt í einu, einhverjum áratugum seinna, dauðséð eftir því sem þeir gerðu. Heyrið, hvað höfum við gert félagar? Við höfum bara samið af okkur. Þetta er svo íþyngjandi og gengur ekki. Það er ekki hægt að nútímavæða eða gera eitt eða neitt af því að réttindi starfsmanna flækjast fyrir. Ef svo er, hvað voru þá forsvarsmenn fjármálaráðuneytisins að hugsa þegar samið var um þau réttindi? Hvað voru alþingismenn að hugsa þegar þeir samþykktu lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna?

Þegar frumvarpið um Matís ohf. lá fyrir var varað við því að áunnin samningsbundin réttindi starfsmanna mundu skerðast. Einna verst í því máli, herra forseti, er að þegar kjarasamningar eru gerðir milli fjármálaráðuneytisins og stéttarfélaga opinberra starfsmanna hafa þessi félög og félagsmenn þeirra oft á tíðum frekar samþykkt bætt réttindi en ákveðna krónutöluhækkun á laun. Það er m.a. ástæðan fyrir því að það er ákveðinn launamunur á milli starfsmanna á hinum almenna vinnumarkaði annars vegar og hinum opinbera vinnumarkaði hins vegar.

Ég hef fært rök að því að verði þetta frumvarp að lögum þá verði rist á kvið kjarasamninga sem hafa verið gerðir fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins síðustu áratugi. Stjórnvöld koma allt í einu, áratugum seinna, og segja: Við sömdum einfaldlega of vel og viljum nú nota tækifærið, dulbúa einhvern skerðingarpakka og rista þessi réttindi og kjör starfsmannanna á kvið og skerða þau. Ég er hræddur um, herra forseti, að ekki muni margir launþegar á Íslandi gera sig ánægða með slíkt. En þetta stendur til, þ.e. nánast að taka upp kjarasamninga síðustu áratuga og skerða þá. Starfsmannalögin svokölluðu, nr. 70/1996, mundu þannig skert sérstaklega.

Alveg eins og í þessari umræðu bentu menn á það í umræðunni um Matís ohf. að vinnubrögðum væri mjög áfátt, herra forseti. Hagsmunafélögin höfðu þó nokkra reynslu af hlutafélagavæðingu og viðurkenndu fúslega fyrir hönd starfsmanna sinna að þau teldu þá þróun ekki góðan kost fyrir starfsmennina eða allt samfélagið. Að vísu hefur síðar komið í ljós að vinnubrögðin við hlutafélagavæðinguna, eftir að menn hafa klárað lagafrumvörpin, eru mjög mismunandi. Þess vegna er mjög þýðingarmikið að í þessu frumvarpi sé skýrt kveðið á um starfsmenn, sérstaklega með þeim breytingartillögum frá hagsmunasamtökum starfsmanna sem ég fór yfir áðan. Til að koma í veg fyrir óvissu þarf að koma á blað og inn í frumvarpið hvað menn ætla sér. Það dugir ekki að koma með orðin tóm, allra síst eftir að ég las fyrr í morgun við upphaf þingfundar yfirlýsingu frá BHM og BSRB. Samtökin tæta þar í sig yfirlýsingu sem útvarpsstjóri gaf starfsfólkinu til að reyna að róa það. Sú yfirlýsing er því miður einskis verð. Svo hneykslast hæstv. menntamálaráðherra á því að þingmenn skuli voga sér að gera athugasemdir við orð útvarpsstjóra.

Talandi um það, herra forseti, þá verður maður að sjálfsögðu líka að velta upp þætti útvarpsstjóra í ferlinu öllu. Hæstv. menntamálaráðherra sagði það skýrt hér í dag að útvarpsstjóri ætti að fá að hafa skoðanir á frumvarpinu og fá að tjá sig. Það er að sjálfsögðu afskaplega óþægilegt fyrir hinn almenna þingmann sem er kjörinn til að setja lög, það er afskaplega neikvætt fyrir kjörna þingmenn að hafa hangandi yfir sér í fjölmiðlum yfirlýsingar frá útvarpsstjóra, sem á síðan að vinna eftir þessum lögum, um að hann sé óþolinmóður og að það trufli starfsmenn að frumvarpið skuli ekki samþykkt strax.

Hér hafa menn málfrelsi og tillögurétt og bera ábyrgð, a.m.k. á því að öll sjónarmið komi skýrt fram við lagasetningu, og enda þótt meiri hlutinn ráði síðan endanlegu útliti, höfum rétt til þess að kynna okkur málið, afla gagna, rökræða það og koma með ábendingar. Örugglega hafa oftar en einu sinni komið ábendingar frá hinum almenna þingmanni sem skipt hafa miklu máli við að bæta frumvörp áður en þau hafa orðið að lögum.

Ég set spurningarmerki við þessi afskipti útvarpsstjóra, herra forseti. Ég ætla ekki að ganga langt í þeirri umkvörtun en ég hef minnst á það hér áður og mér finnst það enn afskaplega einkennilegt að útvarpsstjóri skuli viðurkenna í opinberum fjölmiðlum að hann hafi ekki haft þolinmæði til að bíða eftir því að lögin yrðu að veruleika og væri þess vegna byrjaður að starfa eftir þeim.

Svo ég fari örugglega með rétt mál ætla ég að fletta þessu upp. En það er að mínu viti afskaplega ámælisvert að forstöðumaður ríkisstofnunar sem veit af frumvarpi í vinnslu á þinginu og hefur ekki hugmynd um hvort það verði samþykkt eða því synjað, skuli vera byrjaður að vinna eftir því. Það er afskaplega einkennilegt. Ég hef tekið eftir því hér í umræðunni, herra forseti, að mörgum þingmanninum hefur brugðið þegar ég uppljóstraði þessu hér. En ástæðan fyrir því að ég er hér með tvær voldugar möppur er m.a. sú að ég vildi hafa hjá mér öll gögn, allt sem hefði verið ritað um frumvarpið í fjölmiðlum síðustu árin. Ég komst þá m.a. að því, sem ég er að tala um, herra forseti, um útvarpsstjóra sem hæstv. menntamálaráðherra hefur gert athugasemd við að menn skuli minnast á en jafnframt lýst yfir að hafi fullan rétt á að vera virkur í umræðunni.

Eins og ég hef víst áður bent á, herra forseti, var í Viðskiptablaðinu, föstudaginn 16. desember 2005, takið eftir því 2005, haft eftir útvarpsstjóra orðrétt, með leyfi forseta:

„Páll segir að ný lög auki möguleika stofnunarinnar til þess að keppa um starfsfólk. „Ég hafði reyndar ekki þolinmæði til að bíða eftir lagabreytingum til þess að bregðast við. Ég hefði þurft að byrja á því að auglýsa stöður“.“ O.s.frv.

Útvarpsstjóri hafði ekki þolinmæði til að fara eftir lögum og reglugerðum um það hvernig hann átti að starfa heldur ákvað einfaldlega upp á sitt eindæmi, eins og hann tekur hér sjálfur fram, að frumvarpið fari í gegn og byrjaði að vinna eftir því, þ.e. að ráða þrjá starfsmenn án þess að auglýsa þær stöður. Maður veltir þá jafnvel fyrir sér úr því að útvarpsstjóri er byrjaður að ráða í samræmi við þær heimildir sem hann fengi ef frumvarpið yrði samþykkt, hvort hann sé jafnvel líka byrjaður að reka starfsmenn í samræmi við þær heimildir sem hann fengi ef frumvarpið yrði samþykkt. Þetta eru engar hártoganir, þetta eru vangaveltur eftir hans eigin orð.

Ég held að þessi vinnubrögð útvarpsstjóra hljóti að vera afskaplega ámælisverð, herra forseti. Ég spurði að vísu í dag hæstv. menntamálaráðherra um álit hennar en hún svaraði því engu. Ég mun að sjálfsögðu halda áfram að spyrja hana þegar tækifæri gefst. Eins og sjá má hefur hæstv. menntamálaráðherra ekki séð ástæðu til að vera í þingsalnum í kvöld eða nokkur annar stjórnarþingmaður megnið af kvöldinu. Það sýnir áhugaleysið fyrir því að taka þátt í rökræðum um frumvarpið, kosti þess og galla. Það sýnir áhugaleysið að stjórnarþingmenn skuli ekki vilja vera hér og taka þátt í umræðunni þó ekki væri nema til að hlusta á rökin og rökræða þau.

Menn hafa svolítið velt fyrir sér þátttöku Framsóknarflokksins í þessu máli. Ég sé ekki ástæðu til að taka jafnharkalega til orða og margur hefur gert hér um að Framsóknarflokkurinn hafi látið teyma sig á asnaeyrunum o.s.frv. en óneitanlega er svolítið ankannalegt að líta á orð framsóknarmanna síðustu árin á meðan þetta frumvarp eða systur þess hafa hér verið til umræðu.

Ég er kominn á sömu skoðun og margur þingmaðurinn hér, herra forseti, þegar maður skoðar málið að þingflokkur Framsóknarflokksins hafi á vissan hátt verið svínbeygður til að taka þátt í þessu frumvarpi. Að vísu á það eftir að koma endanlega í ljós hvort allir framsóknarmenn samþykki það. Ég ætla að leyfa mér að draga það í efa, m.a. vegna ummæla þingmanna Framsóknarflokksins í fjölmiðlum og á þinginu og vegna viðbragða sumra framsóknarþingmanna þegar þeir hafa lent í rökræðum við þingmenn stjórnarandstöðunnar og komið hefur glöggt í ljós að margur þingmaður Framsóknarflokksins hefur í raun ekki gert sér grein fyrir hvaða þýðingu það hefði að samþykkja frumvarpið óbreytt.

Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir að framsóknarmenn hafi komið inn setningu í frumvarpið um að óheimilt sé að selja Ríkisútvarpið ohf. veit það að sjálfsögðu hver maður að sú setning skiptir nákvæmlega engu máli. Hlutafélagavæðing er ferli í einkavæðingu og þegar búið er að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið er salan öll auðveldari og að því er mörgum finnst rökrétt framhald. Þótt menn setji einhverja eina setningu inn í frumvarpið gefur það engin loforð, enda er ómögulegt að segja hvað næstu þing gera. Það er alls ekki hægt að fullyrða að setningin um að bannað sé að selja það sé einhver trygging fyrir því að svo verði ekki gert. En það er svolítið sérstakt af því að ég var að ræða um Framsóknarflokkinn og þátt hans í málinu að þegar þessi setning komst inn sagði m.a. formaður þingflokks framsóknarmanna að það skipti miklu máli að í frumvarpinu væri kveðið skýrt á um það að Ríkisútvarpið ohf. sé ekki til sölu.

Þetta kom m.a. fram í Morgunblaðinu þann 6. desember 2005 þar sem rætt var við þingmenn Framsóknarflokksins og það þurfti ekki að ræða við nema tvo til þess að það kæmi skýrt fram að þeir voru ekki sammála. Annar þingmaðurinn, Kristinn H. Gunnarsson, gerði fyrirvara við samþykkt frumvarpsins því að hann vildi vera viss um að Ríkisútvarpið yrði ekki einkavætt og taldi þar af leiðandi að þessi eina setning, að sala væri bönnuð, dygði í sjálfu sér ekki. Enda held ég, herra forseti, að þessi setning hafi fyrst og fremst verið sett til að róa þessa órólegu framsóknarþingmenn sem komust í klípu af því þeir voru búnir að halda því fram að þeir mundu aldrei samþykkja frumvarp um einkavæðingu eða sölu á Ríkisútvarpinu.

Menn hafa farið nokkuð vel yfir samþykktir landsfunda Framsóknarflokksins þar sem einkavæðingu og meira að segja hlutafélagavæðingu var í rauninni algjörlega hafnað. Enda kemur það alveg skýrt fram m.a. hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að skoðun hans á hlutafélagaforminu sé sú að það sé fyrst og fremst sölufyrirkomulag. Það sé í raun og veru verið að búa til söluvænlegan hlut.

Það er nú svo með Framsóknarflokkinn að þar er alltaf einn og einn sem þorir að tjá sig. Þessi ágæti þingmaður, Kristinn H. Gunnarsson, bæði gerir það og stendur við það. En margur annar þingmaðurinn þorir það ekki og reynir síðan að kjafta sig út. Þingmenn hafa tekið þá ákvörðun að hanga á þessu ákvæði í 1. gr. frumvarpsins, að sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess sé óheimil. Því hefur margoft verið hafnað hér í umræðunni, herra forseti, að þessi setning dugi til þess. Það má vera að hún dugi einhvern tíma en hún er alls ekki fullnægjandi staðfesting á því að Ríkisútvarpið verði ekki selt.

Ég held að það sé rétt, herra forseti, úr því að ég sé að hæstv. menntamálaráðherra er genginn í salinn að ég ítreki aftur ábendingu frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Eftir að hafa lesið frumvarpið vel og vandlega í gegn kom hún með athugasemd um tekjur Ríkisútvarpsins, þ.e. í IV. kafla í 11. gr. um tekjustofna. Hún veltir því upp hvort 1. málsliður í 11. gr. geri það að verkum að nefskatturinn muni ekki ná til þeirra sem einungis greiða fjármagnstekjuskatt. Ég minnist þess ekki, herra forseti, að það hafi áður komið til umræðu. Mönnum var svolítið brugðið þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir minntist á þetta. Ég tel rétt að halda þessu til haga og að athugað verði hvort skilningurinn á 11. gr. varðandi tekjustofna Ríkisútvarpsins sé réttur, að þeir einstaklingar sem einungis greiða fjármagnstekjuskatt en greiða ekki beinan tekjuskatt séu undanþegnir nefskattinum. Var það ætlunin? Er um nefskatt að ræða ef hann nær ekki yfir öll nef?

Ég velti áðan upp, herra forseti, aðkomu Framsóknarflokksins að frumvarpinu og því hvernig einstaka þingmenn þar hafa tjáð sig um frumvarpið í ræðu og riti. Sumir hafa jafnvel hreinlega orðið að draga orð sín til baka en aðrir hafa bent á að hlutafélagaformið sé fyrst og fremst sölufyrirkomulag, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti á í blaðagrein. Þar kemur jafnframt fram hjá þingmanninum, með leyfi forseta:

„Loks var ályktað á þessi ári á flokksþingi Framsóknarflokksins að „mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu“. Samþykktirnar eru í eðlilegu samhengi og mynda skýra stefnu flokksins. Síðari samþykktirnar styrkja þá fyrstu, sem hafnar hlutafélagavæðingu RÚV.“

Menn hafa hér bent á að það komi hvergi fram í stefnu flokkanna að selja beri stofnunina en það kemur skýrt fram í samþykktum flokksþings Framsóknarflokksins að hlutafélagavæðingunni sé hafnað. Þingmenn Framsóknarflokksins, sumir hverjir a.m.k., ganga í raun gegn samþykktum flokksþings síns ef þeir ætla að samþykkja hlutafélagavæðingu. Það hefur verið svolítið sérstök upplifun, herra forseti, að hlýða á þingmenn Framsóknarflokksins reyna að snúa sig út úr þessu. Þeir gera sér jafnvel að leik að rangtúlka samþykktir sínar. En það gengur ekki til lengdar enda hafa fleiri en ég bent á samþykktir flokksþinga Framsóknarflokksins þar sem hlutafélagavæðingu er skýrt hafnað að þessu leyti.

Í raun hefur verið sýnt fram á hve margklofin Framsókn er varðandi Ríkisútvarpið, hvaða breytingar eigi að gera á því o.s.frv. Það hlýtur að vera hægt að tala um klofning þegar þingmenn flokksins ganga gegn vilja flokksþingsins. Það er mjög sérstakt og hlýtur að vera hægt að tala um ákveðinn klofning hjá þeim flokki í þessu ákveðna máli.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar áttu afskaplega skemmtileg orðaskipti við hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, í gær. Hún fullyrti að flokkurinn stæði allur sem einn að baki þessu frumvarpi, þingflokkurinn og Framsóknarflokkurinn í heild sinni, og talaði um yngra fólkið í Framsóknarflokknum. En það varð lítið um svör þegar ég leyfi mér að benda á ályktun sem stjórn Sambands ungra framsóknarmanna samþykkti þann 28. nóvember 2006, það er ekki lengra síðan en innan við tveir mánuðir. Margur þingmaðurinn hefur bent á að Framsóknarflokkurinn sé klofinn í afstöðu sinni til að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Ályktunin sem var samþykkt 28. nóvember birtist m.a. í Fréttablaðinu þann 29. nóv. 2006. Fréttin af henni hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna, SUF, samþykkti í gær ályktun þar sem þingmenn eru hvattir til þess að samþykkja ekki frumvarp um RÚV ohf.

Í ályktuninni kemur fram að SUF telur hvorki að hagsmunum RÚV, né almennings í landinu, sé best borgið með hlutafélagavæðingu.

Einnig kemur fram í ályktuninni að SUF telji fráleitt að frumvarpið hafi verið lagt fram á Alþingi án þess að afstaða hafi verið tekin til mikilvægra spurninga eins og aðkomu RÚV að auglýsingamarkaði.“

Frumvarpið var illa undirbúið að mati grasrótarinnar í Framsóknarflokknum, stjórnar Sambands ungra framsóknarmanna, sem rennir það stoðum undir það sem menn hafa sagt, að Framsóknarflokkurinn sé gjörsamlega klofinn í þessu máli. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa reynt að leita sáttaleiða þannig að frumvarpið, yrði það samþykkt, tæki ekki gildi fyrr en eftir næstu alþingiskosningar, þ.e. 1. júní. Nýrri ríkisstjórn, nýjum meiri hluta, gæfist þá tækifæri til að fella þau úr gildi áður en þau ættu að taka gildi. Ég hefði talið, herra forseti, hentugra fyrir Alþingi og alla stjórnmálaflokka, ekki síst Framsóknarflokkinn sem virðist ekki hafa heimild frá ungum framsóknarmönnum eða flokksþingi til að ganga þetta langt, að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Ég hefði talið farsælast fyrir Framsóknarflokkinn að samþykkja tillöguna sem kom um daginn frá stjórnarandstöðunni, að gildistökunni yrði frestað. Framsóknarflokkurinn kann að hafa haft áhuga á því en miðað við að útvarpsstjóri virðist byrjaður að vinna eftir frumvarpinu þá tel ég líklegt að a.m.k. útvarpsstjóri hafi ekki áhuga á að bíða mikið lengur né heldur þeir sem hafa hug á að þetta frumvarp verði samþykkt og hafa jafnvel lofað að svo verði fyrr en seinna.

Ég sá ástæðu til að fara yfir þátt Framsóknar í málinu auk þess að benda á ýmislegt sem komið hefur fram í greinum eftir framsóknarmenn, í fréttum af flokksþingum og ályktunum ungra framsóknarmanna.

Menn hafa deilt á, forseti, sem hefur ekki verið mótmælt af öðrum en hæstv. menntamálaráðherra, vinnubrögðin við kynningu á frumvarpinu og kynninguna á þjónustusamningnum, gulrótinni sem á seinni stigum hefur verði hnýtt aftan í frumvarpið. Þingmenn hafa deilt á vinnubrögðin, m.a. í desember 2005 þegar menntamálaráðherra kynnti frumvarpið fyrst í fjölmiðlum. Þetta segir mér, herra forseti, að þarna er fólk búið að taka ákvörðun og ráðherra og væntanlega ríkisstjórnin búin að taka ákvörðun um að samþykkja frumvarpið. Umræðan á Alþingi, afstaða þingmanna og þar af leiðandi menntamálnefndar skiptir ekki máli. Til hvers að kynna mál sem ekki er tilbúið?

Í desember 2005 var rætt um það á þingi að m.a. hefði verið í gangi eins konar kynningarátak. Það fór fram í sjónvarpsþætti, væntanlega 6. desember 2005, þar sem menntamálaráðherra og útvarpsstjóri kynntu frumvarpið. Sumir þingmenn höfðu á tilfinningunni að þau létu eins og málið væri frágengið. Eitt er að halda því fram að mál séu nánast frágengin lýðræðisins vegna af því að það sé meiri hluti fyrir því, af því að ráðherrarnir eru úr meiri hlutanum. En það er annað að reyna að halda því fram þegar frumvarpið á eftir að hljóta málefnalega meðferð í þinginu. Þá erum við enn og aftur komin að, forseti, þýðingu fastanefnda þingsins og þingnefndanna. Skiptir starf nefndanna einhverju máli, allir þessir gestir sem kallaðir eru fyrir o.s.frv.? Ég tel að þetta beri vott um slæm vinnubrögð.

Í Fréttablaðinu miðvikudaginn 7. desember 2005 er haft eftir hæstv. menntamálaráðherra að málið sé í eðlilegum farvegi, þrátt fyrir að útvarpsstjóri og menntamálaráðherra hefðu kynnt það í sjónvarpinu. Og hitt, sem er alveg hreint með ólíkindum, að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, var meira að segja þá um morguninn byrjaður að tjá sig um frumvarpið í fjölmiðlum. Að sjálfsögðu eru þetta vinnubrögð sem eiga ekki að tíðkast, að þingmenn fái ekki að sjá frumvörp. Fyrst séu þau kynnt sem eitthvað nánast frágengið í fjölmiðlum, annars vegar af þeim sem leggur málið fram og hins vegar af formanni þeirrar nefndar sem síðan á eftir að taka frumvarpið algjörlega til umfjöllunar. Það er eðlilegt að menn reikni þá með því að ef formaður nefndar er byrjaður að kynna það áður en umræða er hafin og áður en búið er að vísa því til hans, þá sé hann nokkurn veginn búinn að ákveða að í nefnd hans muni frumvarpið fara svona áfram í gegn. Að sjálfsögðu er þetta ámælisvert, herra forseti.

Það var í desember 2005 sem þetta kom fram. Síðan þá hefur það gerst að menn hafa kynnt þjónustusamning sem var hnýttur aftan við frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf., sem gulrót, og ég hef farið yfir. Þar voru vinnubrögðin á sömu lund, herra forseti. Það er með ólíkindum að fólk skuli voga sér að vanvirða í raun þingið með því að kynna frumvarp annars vegar í fjölmiðlum, eins og það sé frágengið og þar af leiðandi skipti þingið og þingnefndin engu máli, og hins vegar að menn skuli síðan til að skreyta frumvarpið bæta við það drögum að þjónustusamningi, hnýta hann aftan við frumvarpið, sem á að taka gildi ef frumvarpið verður samþykkt, samningi sem mörgum hagsmunasamtökum hefur þótt fýsilegur kostur, sem er mjög eðlilegt. En maður gerir samt athugasemdir við af hverju í ósköpunum ekki sé þegar búið að taka upp slíkan samning, gera slíkan samning. Af hverju í ósköpunum þarf að tengja hann því að fyrst þurfi að samþykkja frumvarpið? Jú, það er gert náttúrlega, herra forseti, til að setja, eins og ég hef bent á, þrýsting á þingmenn að samþykkja frumvarpið því að þeir hagsmunahópar sem sjá bót í samningnum, m.a. þeir sem koma að innlendri dagskrárgerð, setja að sjálfsögðu þrýsting á þingmenn um að samþykkja frumvarpið.

Ég ræddi áðan um vinnubrögð og kem ég þá aftur að kynningunni. Þjónustusamningurinn, sem er að vísu drög að þjónustusamningi, var kynntur þann 28. september síðastliðinn. Þá var náttúrlega ekkert verið að hafa fyrir því að kynna hann sérstaklega fyrir þinginu frekar en sjálft frumvarpið, heldur var hann kynntur í beinni útsendingu af hæstv. menntamálaráðherra og útvarpsstjóra. Slík vinnubrögð eru að sjálfsögðu ámælisverð og segja okkur, herra forseti, að hæstv. menntamálaráðherra er nokk sama um löggjafarvaldið. Það er virkilega sárt til þess að vita að á 21. öldinni skulum við ekki vera komin lengra en svo að hér er framkvæmdarvald sem öllu ræður, ekki einungis í þinginu varðandi setningu laga heldur hafa líka komið upp vafaatriði varðandi dómsvaldið þar sem þingmenn og aðrir hafa gert athugasemdir við ráðningu dómara sökum tengsla. Þar held ég að hljóti að vera athyglisverðust sú ráðning hæstaréttardómara sem gerð var þegar þeir aðilar sem fram að þeirri ráðningu höfðu verið látnir sjá um að flokka niður umsækjendur, gefa þeim meðmæli og jafnvel að raða þeim upp, settu þá persónu sem var neðst á lista allt í einu í efsta sætið eftir að sá listi hafði fengið handfjötlun ráðherra Sjálfstæðisflokksins, núverandi hæstv. forsætisráðherra, Geirs H. Haardes. Það er svolítið sorglegt til þess að vita, herra forseti, að á þessum dögum, eins og sýnt hefur verið fram á í þinginu undanfarið, er framkvæmdarvaldið ekki einungis að vanvirða löggjafarvaldið heldur og dómsvaldið.

Þjónustusamningnum, sem ég minntist á áðan og var hnýtt aftan við frumvarpið, að vísu ekki systur þess, sf. og hf., heldur ohf., hefur verið fagnað. Ég hef komið að því í umræðunni, herra forseti, og hef gert athugasemdir við þau vinnubrögð að slíkur samningur skyldi vera hnýttur aftan í einungis eða að hluta til til að hafa áhrif á skoðun þingmanna. Hvers vegna í ósköpunum hafa menn ekki nú þegar gert slíkan samning? Hvernig stendur á því að núna, kortéri áður en á að ljúka umræðu um Ríkisútvarpið, er hnýtt við frumvarpið einhverjum þjónustusamningi, en markmið samningsins er, með leyfi forseta:

„að lýsa nánar tilgangi og hlutverki RÚV og þeim kröfum sem gerðar eru til félagsins á grundvelli laganna. Í samningnum er útvarpsþjónusta í almannaþágu skilgreind, m.a. til að afmarka hana frá annarri starfsemi á fjölmiðla- og samkeppnismarkaði.

RÚV gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Áhersla skal lögð á að miðla íslenskri menningu og skal RÚV vera vettvangur lýðræðislegrar umræðu.“

Það er merkilegt, herra forseti, að svona samningur skuli ekki löngu vera kominn fram og kominn í gagnið. Að hnýta hann svona aftan í frumvarpið og telja fólki trú um að þeir sem eru á móti einhverjum atriðum í frumvarpinu og vilja fá breytingar á því til batnaðar séu á móti bættri innlendri dagskrárgerð. Það er algjör fásinna að stilla málinu þannig upp en það hefur því miður verið gert. Að sjálfsögðu hefði átt að vera búið að gera þennan samning fyrir löngu, og alveg örugglega þann hluta þess sem snýr að innlendri dagskrárgerð, nýsköpun í dagskrárgerð o.s.frv. Núna þegar tregða er í því að koma frumvarpi um breytingar á Ríkisútvarpinu í gegn dúkkar allt í einu upp svona samningur. Ég sé ekki ástæðu til að lesa samninginn sérstaklega upp, herra forseti, en hann er öllum aðgengilegur og sérstaklega þeim sem vilja.

Ég hef farið nokkuð nákvæmlega yfir það, herra forseti, hversu ósáttur ég er við þá staðreynd sem kemur skýrt fram, bæði í þessu frumvarpi og í umræðunni um frumvarpið frá hendi meiri hlutans, að ætlunin sé að skerða réttindi og kjör starfsmanna. Kannski verst í því þykir mér að hér koma þingmenn upp, stjórnarliðar, og fullyrða að það sé ekki ætlunin, alls ekki sé verið að skerða réttindi og kjör. Þetta er sorglegt þegar þingmenn láta teyma sig út í þá vitleysu að halda slíkum hlutum fram.

Eitt af því sem menn hafa kvartað alveg sérstaklega yfir er að menn skuli vilja tjá sig um frumvarpið en það er nú einmitt það sem okkur þingmönnum er borgað fyrir, þ.e. að samþykkja það sem gott er en tæta í okkur það sem slæmt er.

Komið hefur verið inn á það nokkrum sinnum, herra forseti, að áður hafa komið fram frumvörp frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins um sölu eða einkavæðingu — það er nú best að fara rétt með hvort orðið er notað — á Ríkisútvarpinu. Þegar skörulegir þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu það fram voru þeir hreinlega með tímaáætlun um hvernig það ætti að ganga fyrir sig.

Frumvarpið var lagt fram árið 2003 og ekkert bendir til þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi skipt um skoðun. Í því frumvarpi, sem er frá 130. löggjafarþingi, þingskjal 407, 337. mál, segir alveg skýrt í 18. gr. að gert sé ráð fyrir að lögin taki gildi þegar við samþykkt og þá verði hægt að fara að undirbúa stofnun hlutafélags sem stofna ætti 1. júlí 2004 og selja ætti síðan fyrir árslok 2004. Þarna ætluðu menn að gíra sig upp í að stofna hlutafélag og selja það síðan sex mánuðum síðar.

Það er nokkuð merkilegt að í frumvarpinu, herra forseti, eru alveg nákvæmar tímasetningar. Í apríl 2004 skuli frumvarpið samþykkt, 1. júlí 2004 stofnað hlutafélag og síðan selt. Ferill næstu ára er þannig að ég held að það hljóti að vera mjög eðlilegt að bæði þingmenn og almenningur velti því fyrir sér hvort svipuð tímaáætlun sé í raun ekki enn þá í gildi, hvort svipuð áætlun sé ekki enn þá í gildi hjá Sjálfstæðisflokknum.

Frumvarpið hefur væntanlega verið sett til hliðar, en einn af þeim þingmönnum sem lagði það fram hefur tilkynnt skýrt og skorinort að enginn vafi sé í hans huga að það frumvarp er nú liggur fyrir sé undanfari einkavæðingar.

Það má því velta fyrir sér, herra forseti, af því að töluverð breyting verður á þingliði í næstu kosningum, að þá gæti það náttúrlega gerst að inn kæmu þingmenn sem væru samsinna þeim þremur er lögðu fyrst til sölu á Ríkisútvarpinu. Það gæti alveg gerst, herra forseti, þó að í dag sé það kannski minni hluti flokksins en þá er mjög líklegt að eftir breytingarnar í maí sé meiri hlutinn þannig og þá eru fallnar þær vangaveltur Framsóknarflokksins um að þetta verði aldrei selt. En það var nú svo með margan þingmanninn í Framsóknarflokknum að honum varð rórra með að hafa þá setningu í frumvarpinu.

Nær hefði verið, herra forseti, að setja inn orð, m.a. þau sem ég hef bent á, til að róa sjálfa starfsmennina. En ekki var talin ástæða til þess, a.m.k. ekki enn þá. Sá möguleiki er enn fyrir hendi að frumvarpið fari aftur til nefndar og þá sérstaklega til þess að gæta að hagsmunum starfsmanna því það getur ekki verið að hæstv. menntamálaráðherra leggi fram frumvarp beinlínis til að ráðast gegn starfsfólki Ríkisútvarpsins sem eru starfsmenn hennar, undirmenn hennar.

Það hefur gerst, herra forseti, að dómsmál hafa komið upp eftir hlutafélagavæðingu, þar sem opinber fyrirtæki hafa verið hlutafélagavædd. Það gerðist t.d. hjá Strætó þar sem starfsmaður var ekki sáttur og höfðaði mál gegn Reykjavíkurborg og Strætisvögnum Reykjavíkur. Hann vann það mál þar sem vísað var m.a. í lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Ég er nokkuð viss um, herra forseti, að menn eiga von á fleiri slíkum málum í framtíðinni eftir hlutafélagavæðingu opinberra fyrirtækja, dómsmálum eða ákærum frá starfsmönnum.

Einnig hefur verið bent á og farið ágætlega yfir að ríkisvaldið á líka von á því að fá á sig kærur vegna samkeppnismála og fleira. Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður hefur ítrekað bent á það, en af einhverjum ástæðum hafa menn ekki séð ástæðu til að taka álit hans alvarlega. Það er einkennilegt að ríkisvaldið eða menntamálaráðherra skuli ekki sjá ástæðu til að taka þau orð alvarlega og reyna þá að gera bragarbót á frumvarpinu í anda þess sem bent hefur verið á.

Ég minntist á það áðan og fór yfir þátt framsóknarmanna í gerð frumvarpsins og hegðun þingmanna sem m.a. hv. varaþingmaður Framsóknarflokksins, Eygló Harðardóttir, ýjaði að í grein sinni sem ég fór yfir áðan, að þingmenn Framsóknarflokksins í menntamálanefnd hefðu í raun ekkert um málið að segja.

Á tímabili í nóvember var mikil togstreita milli stjórnarflokkanna um frumvarpið. Eitt af því sem gerðist var að nýliðar í Framsókn fóru heldur ógætilega með skoðanir sínar og vilja varðandi frumvarpið. Í Fréttablaðinu 27. nóvember er viðtal við þingmann Framsóknarflokksins, Sæunni Stefánsdóttur, sem á sæti í menntamálanefnd þar sem hún tekur fram þrjú atriði sem þarf að tryggja áður en frumvarpið er útskráð úr nefnd.

Þar kemur alveg skýrt fram og haft er eftir Sæunni að „í þriðja lagi þarf að sjá til þess að starfsmenn haldi sínum réttindum.“ Þetta var sem sagt skoðun þingmannsins 27. nóvember. En hver er skoðunin í dag? Ég hef sýnt fram á og sannað með málflutningi mínum og tilvitnunum í ýmis skjöl og gögn frá löglærðum mönnum og stéttarfélögum, að starfsmenn muni ekki getað haldið réttindum sínum verði frumvarpið samþykkt, þar sem frumvarpið m.a. kippir algerlega úr sambandi lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Þetta er eitt af því sem ég hef m.a. verið að ræða um hvað varðar Framsóknarflokkinn og menn hafa minnst nokkrum sinnum á. Að vísu minntist enginn í umræðunni á einmitt þessi orð hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur. En menn hafa verið að minnast á að Framsóknarflokkurinn hafi verið dreginn, hafi verið knébeygður til að samþykkja að halda frumvarpinu til streitu. Við höfum orðið vör við að oft hafa stöku þingmenn hikstað þegar samviskan kemst upp á yfirborðið og fer að naga þá.

Það er afskaplega sorglegt að sjá ungan og sprækan þingmann fullyrða í fjölmiðlum að frumvarpið verði ekki samþykkt af Framsóknarflokknum nema tryggt sé að starfsmenn haldi réttindum sínum. Þetta hefur algerlega brugðist, herra forseti. Annaðhvort hefur hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur snúist hugur, ákveðið að víkja frá þeirri skoðun sinni eða hún hreinlega verið knésett af flokksklíkunni.

En það hefur verið svolítið áberandi einmitt með þann flokk, Framsóknarflokkinn, að ungir og nýir þingmenn verða samdauna þeim vinnubrögðum þar sem einn eða tveir menn hreinlega ráða. Það er ekki jákvætt. En það er nú bara þannig með þennan blessaða Framsóknarflokk.

Þær athugasemdir eru þó skýrt fram komnar og bókaðar í þingtíðindi sem sá er hér stendur og fleiri hafa haft um Framsóknarflokkinn og farið ítarlega yfir hegðun þingmanna hans í málinu, vilja, skoðanir og síðan hvernig þeim skoðunum er hreinlega hent fyrir róða þegar til þess er ætlast.

Nú fer ræða mín að styttast í annan endann, herra forseti. Við erum komin inn í morgunsárið og á morgun bíður okkar afskaplega þýðingarmikil umræða um svokallað Byrgismál sem forseti hefur ekki leyft fram að þessu að komast á dagskrá, þá fyrst og fremst sökum þeirrar þrákelkni og þráhyggju hæstv. menntamálaráðherra, að koma þessu mjög svo slæma frumvarpi í gegn hvað sem það kostar. Að mínu viti er þetta frumvarp mjög slæmt, það er að sjálfsögðu margt gott í því, það hefði verið best fyrir alla að búta það niður. Það er hægt að nútímavæða Ríkisútvarpið en það getur ekki verið að það sé ætlunin hjá meiri hlutanum að nútímavæða það á þann hátt að ráðast harkalega að kjörum starfsfólks eins og er gert, verði þetta frumvarp samþykkt óbreytt. Það er mjög sérstakt að menn skuli taka til þess og eins og ég hef nefnt að ef meiri hlutinn er ósáttur við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þá væri eðlilegast að taka beint á þeim, að taka þau upp en ekki að vera að koma aftan að þeim sem eiga að njóta þessara laga með því að brjóta þau niður í frumvarpinu.

Ég held, herra forseti, að það sé rétt áður en ég lýk máli mínu að vitna í einn lögfræðing. Ég hef að vísu gert það áður en ég tók eftir því þegar ég gerði það í fyrri ræðu minni að margur stjórnarliðinn virtist ekki gera sér grein fyrir þessu atriði og það er nokkuð ljóst að bæði formaður menntamálanefndar og menntamálaráðherra sjálfur, sem var hér áðan einungis í mýflugmynd enda hefur það verið alveg ljóst að áhugi hæstv. menntamálaráðherra á að eiga orðastað við mig varðandi réttindi og kjör starfsfólks er enginn. Við gerðum tilraun í dag til þess að rökræða þá hluti en hæstv. menntamálaráðherra fór undan í flæmingi, svaraði rangt til og svaraði ekki hluta af því sem ég var með, sem segir mér að sjálfsögðu, herra forseti, að þetta frumvarp er vísvitandi látið virka þannig að það skerði réttindi og kjör starfsmanna RÚV.

Hér eru nokkrar línur úr áliti eða samantekt sem Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður, og ef ég man rétt er hún sérmenntuð í vinnurétti, tók til fyrir Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins þar sem hún minnist á títtnefnt bráðabirgðaákvæði II þar sem fjallað er um réttindi starfsmanna, en í samantektinni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Þar segir annars vegar að fara skuli eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og hins vegar að fara skuli að lögum, nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Við niðurlagningu stofnunarinnar breytist lagalegt umhverfi starfsmanna RÚV. Þeir hætta að vera opinberir starfsmenn og verða eftir það starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins geta ekki gilt um starfsmennina eftir breytinguna.“

Þessi ábending frá lögfræðingi til Starfsmannasamtaka RÚV segir allt sem segja þarf. Með því að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið verða starfsmennirnir hjá RÚV ekki lengur opinberir starfsmenn og þar af leiðandi gilda þessi lög um réttindi og skyldur ekki. Það þýðir að réttindin skerðast, áunnin réttindi sem starfsmenn hafa jafnvel unnið sér inn á mörgum áratugum og er, eins og ég hef réttilega bent á, litið á sem hluta af kjörum og oft hefur verið samið um frekar en einhverjar fleiri krónur.

Ég ætla að láta þetta vera lokin, herra forseti. Þetta er athugasemd sem skiptir afskaplega miklu máli og það er alveg skýrt í mínum huga að þeir, eins og það hefur sýnt sig í umræðunni, sem vilja ekki ræða þessa ábendingu mína og þeir sem hafa sett frumvarpið þannig saman að þessir hlutir muni gerast eru vísvitandi að skerða réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins og það sem meira er, þeir munu væntanlega ná að fella niður sennilega eitt eða tvö félög starfsmannanna þannig að lengst á bak við samningu frumvarpsins eru menn sem vilja skerða tilveru stéttarfélaga, þeir vilja semja maður á mann. Þeir eru ósáttir við — hvað eigum við að segja? — völd stéttarfélaga á Íslandi í dag, þrátt fyrir að allt séu þetta nú samningar sem ríkisvaldið sjálft hefur gert, sem fjármálaráðherra hefur gert við þessi hagsmunasamtök. En það er alveg skýrt í mínum huga, herra forseti, að það verður Alþingi til mikils vansa ef þetta frumvarp verður samþykkt svona óbreytt. Ég hef farið yfir breytingartillögur sem hagsmunasamtök hafa lagt til til þess að draga úr óvissu og til þess að tryggja starfsmönnum Ríkisútvarpsins þau réttindi og þau kjör sem þeim bjóðast. Ég vona að á það hafi verið hlustað og enn er tími til þess að bæta frumvarpið í þá átt en það hryggir mig ef það er virkilega ætlun meiri hlutans hér á Alþingi að skerða réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins.