133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vekur athygli að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í menntamálanefnd Alþingis skuli nú segja að ESA hafi ekki sagt sitt síðasta orð um þetta frumvarp.

Annað sem vakti athygli mína, og er reyndar rangt, er að hv. þingmaður segir að kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins kunni að vera lægri en þau ella gætu verið ef ekki væri vegna þess að stofnunin er ríkisstofnun. Þetta er misskilningur. Það er hægt að bæta kjör starfsmanna innan þess laga- og samningsramma þótt stofnunin sé ríkisstofnun.

Þetta snýst allt um fjárhag. Staðreyndin er sú að fjárhagur Ríkisútvarpsins hefur verið að skreppa saman. Það endurspeglast í minna mannahaldi sem hefur dregist saman um 15% á árunum 1996–2004.

Samkvæmt þessu frumvarpi er ekki gert ráð fyrir að rýmka fjárhag Ríkisútvarpsins á nokkurn hátt en menn telja að eitthvert svigrúm kunni að skapast við það að reka fólk, segja upp fólki og losa Ríkisútvarpið við Sinfóníuna eins og það er svo smekklega orðað.

Síðan er hitt að hv. þingmaður segir að það sé ekki sjálfgefið, eins og það var orðað, að ríkið reki stofnun á borð við Ríkisútvarpið og það kunni vel að vera skynsamlegt að selja RÚV þegar þar að kemur. Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér í þeim efnum? Ef kæmi gott kauptilboð í Ríkisútvarpið fyndist hv. þingmanni þá æskilegt eða koma til greina að selja og teldi hann æskilegt t.d. að sameina Ríkisútvarpið, ja, við skulum segja öðrum fjölmiðlum á borð við Morgunblaðið og Skjá einn? Ef fengist góður prís fyrir slíkan kost (Forseti hringir.) þætti hv. þingmanni það koma til greina?