133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:47]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ríkisútvarp á forsendum Sjálfstæðisflokksins verður lemstrað Ríkisútvarp. Hæstv. menntamálaráðherra hefur alltaf frá því að hún tók við embætti átt þess kost að vinna með stjórnarandstöðunni að heildstæðu fjölmiðlaumhverfi á Íslandi. Það eru vonbrigði að hæstv. ráðherra skyldi hafa kosið að fara ekki með stjórnarandstöðunni í þennan leiðangur. Það eru líka vonbrigði að framsóknarmenn á Alþingi skuli kjósa að fylgja einkavæðingaráráttu sjálfstæðismanna eftir í blindni og heimila að Ríkisútvarpið skyldi rifið úr samhengi við umhverfi fjölmiðla að öðru leyti og afgreitt á þennan hátt með einn af forvígismönnum um sölu Ríkisútvarpsins sem talsmann, hv. nefndarformann menntamálanefndar.

Í hugum fólks hlýtur þessi „affera“ öll, virðulegi forseti, að vera Framsóknarflokknum til minnkunar, ekki síst úti á landi þar sem tryggð fólks við Ríkisútvarpið hefur jafnvel reynst haldbetri og iðulega haldbetri en þeirra sem búa í þéttbýli höfuðborgarinnar.

Hæstv. forseti. Ég hafna þessu frumvarpi, ég segi nei.