133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:02]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðaust. hefur enga ástæðu til að koma hér og byrsta sig við mig og setja í brýrnar og nánast skamma mig fyrir það að ég sé að gera lítið úr fagmennsku manna á borð við þá heiðursmenn sem hann taldi hér upp.

Hv. þingmaður hefði betur hlýtt á ræðu mína sem ég hélt hér fyrr í umræðunni þar sem ég lagði höfuðáherslu á að þjóðgarðurinn yrði lyftistöng atvinnulífs í breiðu tilliti í þeim byggðum sem hann næði til. Við það stend ég. Það er lykilatriði og við þurfum að standa saman um það á Alþingi að þetta verði með þeim hætti, að hann verði lyftistöng atvinnulífs og þeir fagmenn sem á svæðinu búa fái einmitt atvinnu við þjóðgarðinn. Það þýðir ekki endilega að sarga þurfi sundur æðarnar sem liggja til opinberra stjórnsýslustofnana jafnvel þótt þær hafi verið svo óheppnar að vera settar niður í Reykjavík.

Ég vísa þeim ummælum hv. þingmanns til föðurhúsanna að það sé einhverjum opinberum stofnunum fyrir sunnan að kenna að Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn hafi ekki fengið byr í seglin. Það er þessari ríkisstjórn að kenna að hún hefur ekki fengið byr í seglin. Þessi ríkisstjórn hefur ekki sett þá fjármuni eða það afl til þessarar stöðvar sem hún hefði átt skilið. Hv. þingmaður á bara að eiga það við sína eigin ráðherra en ekki að koma hér og skammast í stjórnarandstöðuþingmönnum vegna þess.