133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

kaup Íslandspósts hf. á Samskiptum ehf.

460. mál
[10:45]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það snýst ýmislegt á haus þessa dagana en vegna þess sem hér kom fram hjá hv. þingmönnum þá er það svo að stjórnendur hlutafélaga í eigu ríkisins bera ábyrgð og skyldur í samræmi við ákvæði laga um hlutafélög án sérstakra afskipta ríkisins af daglegum rekstri þeirra. Telji þeir það samræmast lögum, samþykktum tilgangi og hagsmunum þeirra félaga sem þeir eru í forsvari fyrir að auka beri umsvif á prentmarkaði á öðrum sviðum, þá liggja ekki fyrir áform um afskipti gæslumanna ríkisins á slíkum ráðstöfunum. Á hinn bóginn verður að ætla að þeir muni þess í stað hafa eðlilegt eftirlit með því að tilætluðum árangri verði náð.

Af þessu tilefni vil ég segja að stjórn félagsins, þar sem í er m.a. ágætisfólk, kennt við Vinstri græna og Samfylkinguna, hefur tekið ákvörðun um að fara út í þetta. Guðmundur Oddsson, margreyndur sveitarstjórnarmaður og starfsmaður í skólakerfinu (Gripið fram í.) og mikill forustumaður í Samfylkingunni, hefur tekið þátt í þessu í þeim tilgangi að efla félagið og til að styrkja stöðuna í þágu starfsmanna. Ég treysti þessu ágæta fólki ásamt öðrum forsvarsmönnum, m.a. úr Framsóknarflokknum. Ísólfur Gylfi Pálmason er í stjórn Íslandspósts ásamt Lilju Rafneyju Magnúsdóttur varaþingmanni, sem situr nú á þingi. Ég treysti þessu fólki fullkomlega til að taka ákvarðanir og ég er alveg sammála því fólki að þetta sé eðlileg ákvörðun til að styrkja Íslandspóst hf. í vaxandi samkeppni.