133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar.

415. mál
[17:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta mál lætur kannski ekki mikið yfir sér eins og við höfðum á orði við umræðu um það á síðasta vetri en það er grafalvarlegt og getur dregið þungan dilk á eftir sér og haft áhrif sem að mínu mati eru ófyrirséð. Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra við upphaf þessarar umræðu hvort leitað hafi verið leiða eftir umræðuna í fyrra til að tryggja áframhaldandi rekstur Búrfellsvirkjunar með öðrum og viðurhlutaminni hætti en hér er gert ráð fyrir með því að afsala þessum réttindum til Landsvirkjunar um aldur og ævi. Við skulum vera þess minnug að hér hafa verið gefnar yfirlýsingar um hlutafélagavæðingu Landsvirkjunar og við vitum öll að hlutafélagavæðing opinbers fyrirtækis getur þýtt sala eða að losað verði um eignarhlutinn og hann seldur úr eigu hins opinbera. Göngum ekki að því gruflandi að hér er verið að afsala gríðarlega stóru landi til Landsvirkjunar sem núverandi ríkisstjórn er búin að gefa yfirlýsingu um að verði hlutafélagavædd í fyllingu tímans, jafnvel 2008 eins og hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra hefur gefið yfirlýsingar um hér, sem gæti leitt af sér sölu sem á endanum gæti þýtt að þessi mikilvæga sameign þjóðarinnar, þjóðlendan sem um ræðir, fari í hendur einkaaðila.

Ég spyr hæstv forsætisráðherra: Er þetta ekki sprengiefni mitt í miklum deilum um þjóðlendumál?