133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

fyrirspurnir á dagskrá.

[13:56]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að bæta neinu í þá umræðu sem var áðan þó ég hefði gjarnan viljað leiðrétta eitt, tvö atriði. En ég vil spyrja hæstv. forseta út í það hvort hann geti upplýst þingheim um af hverju eingöngu sjö fyrirspurnir eru á dagskrá í dag þegar um 60–70 bíða svars á hinu háa Alþingi.

Er það vegna þess að svörin eru ekki tilbúin eða er það vegna þess að ekki eru nógu margir ráðherrar á landinu til að taka þær fyrirspurnir sem liggja fyrir?

Á íþróttasíðum, sem Íslendingar lesa mjög mikið nú upp á síðkastið af frækilegri frammistöðu íslenska landsliðsins í Þýskalandi, gátum við líka lesið það í gær að ráðherrum fjölgi mjög á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi. Er það m.a. ástæðan fyrir því að við getum ekki tekið fleiri fyrirspurnir fyrir í dag, virðulegi forseti?