133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

uppsagnir fangavarða – samgönguáætlun.

[10:37]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af orðum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur tek ég fram að að mínu viti er mjög alvarlegt ástand komið upp í fangelsismálum ef helmingur fangavarða hefur sagt upp störfum. Hitt er annað mál að kannski hefði verið ástæða til að ræða það þegar dómsmálaráðherra er viðstaddur þannig að umræðan gæti farið fram á þeim forsendum að hér ræddu menn málið í einhverri alvöru. Þess vegna hvet ég hv. þingmann frekar til að biðja um utandagskrárumræða eða leggja fram þingmál hvað þetta varðar. Þá gæti eðlileg umræða farið fram um málefnið. Ég dreg ekkert úr því að auðvitað er þetta alvarlegt ástand ef svona mun fara.

Hún nefndi einnig kjarasamninga og þar erum við með umræðu sem kemur auðvitað upp aftur og aftur en á ekkert sérstaklega vel heima hér. Kjarasamningar eru í höndum stéttarfélaga og viðsemjenda þeirra og eiga heima á þeim vettvangi. Ég held að við bætum ekkert úr með því að ræða þá hér, við höfum ekki forsendur til að meta það á þessu stigi. Hún nefndi að fangaverðir hefðu dregist aftur úr. Það má vel vera en það er þá málefni stéttarfélagsins og viðsemjenda þess.