133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

uppsagnir fangavarða – samgönguáætlun.

[10:48]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Varðandi málefnin eða ástandið í fangelsismálum er alveg ljóst að það tengist ástandinu í meðferðarmálum almennt. Eða hvað halda hv. þingmenn að orsaki það hversu margir fangar eru vistaðir á meðferðarstofnunum sem rekin eru af sjálfstæðum félagasamtökum sem ekki þurfa að standa undir sömu kröfum og fangelsi eða t.d. sjúkrahús? Á það hefur verið bent hér, og svo þegar til á að taka eru fangarnir kannski ekki heima. Þetta er grafalvarlegt. Þetta eru meðferðarheimili sem eiga eðli málsins samkvæmt erfitt með að standa undir sömu fagkröfum eða menntunarkröfum og fangaverðir þurfa að standa undir.

Það er alveg ljóst að það er fjárskortur Fangelsismálastofnunar sem öðru fremur orsakar þetta ástand. Það er kannski þetta syndróm ríkisstjórnarinnar að svelta opinberar stofnanir sem við er að glíma í þessum efnum. Fangelsismálastofnun hefur þurft að þola fjársvelti og það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og fjárlaganefndar hvernig farið hefur í þeim efnum. Ég hef verið að orða það hér að þessu þurfi að kippa í liðinn. Í tilfelli Fangelsismálastofnunar þarf að breyta stefnunni. Það er verkefnið fram undan og núverandi ríkisstjórn ber ábyrgðina.