133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

leiga aflaheimilda.

[11:11]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Umfang leigu veiðiheimilda er orðið mjög mikið. Á árinu 2005 var áætlað aflaverðmæti um 70 milljarðar kr., andvirði leigðs kvóta er a.m.k. 10 milljarðar kr. ef ekki meira. Á síðasta fiskveiðiári voru flutt um 60 þús. tonn af þorski á milli óskyldra aðila og hafi það allt verið leigukvóti, sem er líklegt, á því verði sem er í dag er það eitt og sér ekki minna en 10 þús. millj. kr.

Hin hliðin á málinu er að þetta er umtalsverður kostnaðarliður hjá þeim sem gera út á þeim forsendum að aflað sé veiðiheimilda á markaði. Venjulegur línubátur sem veiðir um tveggja kílóa fisk fær um 240 kr. fyrir kílóið en þarf að borga um 120 kr. í leigu fyrir að fá að veiða kílóið. Ég hef enga trú á því að breytingar á kerfinu leiði til þess að þetta hverfi. Ég tel að leiga veiðiheimilda sé komin til að vera og þá snýst málið fyrst og fremst um það hvaða reglur eigi að gilda um viðskiptin og hverjir eigi að eiga viðskipti. Er eðlilegt að aðili geti leigt frá sér eða selt það sem hann á ekki, er eðlilegt að aðili sem hefur undir höndum veiðiheimild til að veiða sjálfur geti gert sér hana að féþúfu af óskyldum aðila en eigandinn, þjóðin, fái ekki neitt að ráði fyrir þessa eign?

Það er óeðlilegt.

Þess vegna er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar það ákvæði að setja í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins að fiskimiðin séu sameign íslensku þjóðarinnar. Ég hlýt að spyrja: Eru ráðherrar í þessari ríkisstjórn slíkir bandingjar LÍÚ að þeir heykjast á því (Forseti hringir.) að efna ákvæði stjórnarsáttmálans?