133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

siglingavernd.

238. mál
[18:57]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get kannski ekki alveg flutt mál hæstv. samgönguráðherra í þessu sambandi en ég heyrði það hins vegar á honum að þetta mál er í alvarlegri skoðun í samgönguráðuneytinu og væntanlega verður tekið á þessu innan ekki langs tíma.

Það er líka annað sem ég vil minnast á, af því að talað er um þetta skip sem strandaði hér, Wilson Muuga, sem ég botna bara ekkert í. Ég hef ekki orðið var við að fram hafi farið alvörusjópróf. Hvað varð um skipstjórann? Hvað varð af áhöfninni? Það er eins og þeim hafi verið klappað á bakið og sagt: Heyrið þið kallar mínir, farið þið bara til ykkar heima og gerið þetta aldrei aftur.

Ég átta mig ekki alveg á hvernig og hvers vegna ábyrgð skipstjóra er ekki meiri en raun ber vitni. Ef þetta hefði gerst annars staðar er ég hræddur um að einhver hefði verið settur í farbann þar til endanleg niðurstaða lægi ljós fyrir, vegna þess að þetta strand er með slíkum eindæmum að manni dettur helst í hug að þessi skipstjóri eða stjórnendur skipsins hafi bara keypt sér pappíra, kunni ekki neitt í siglingafræði.

Þetta er miklu alvarlegra mál ef við stöndum líka frammi fyrir því að siglingafræði erlendra sjómanna sem sigla hér með ströndum fram er ekki merkilegri en þetta og umrætt strand sýnir okkur í hnotskurn.

Þá er ekki annað að gera en taka upp af miklum krafti hert eftirlit og drífa í að það séu ákveðnar afmarkaðar siglingaleiðir. Svo verður eftirlitið auðvitað að vera í samræmi við það, bæði landhelgisgæslan á sjó og í flugi til að fylgjast með þessum skipum.