133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

fæðingarorlof.

527. mál
[14:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að fagna þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra sem hér er komin fram, að hann hefur þegar breytt reglugerð þannig að framvegis verði fæðingarorlofsgreiðslur ekki lagðar til grundvallar þegar heildartekjur í fæðingarorlofi eru reiknaðar út eins og gerst hefur þegar stutt er á milli fæðinga barna. Þessari reglugerð hefur þegar verið breytt þannig að þetta mun ekki ske eftirleiðis.

Þá spyr ég um þá sem þegar hafa lent í þessu vegna þess að þetta er hreinlega ólöglegt og liggur fyrir hjá umboðsmanni Alþingis að þetta standist ekki lög. Foreldrar fimm barna hafa lent í því að þessu ólöglega ákvæði hafi verið beitt og ég spyr ráðherrann hvort þeim verði ekki bættur sá skaði sem þau hafa orðið fyrir þegar fyrir liggur, og ráðherra hefur viðurkennt það með breytingu á reglugerðinni, að brotið hafi verið gegn lögum. Verða þeim ekki bættar upp þessar skertu greiðslur sem leiddu af því að fyrri fæðingarorlofsgreiðslur voru lagðar til grundvallar, að fæðingarorlof viðkomandi skertist þarna um a.m.k. tugi þúsunda kr.? Það tel ég afar brýnt að verði gert.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki almennt að það eigi að breyta þessu viðmiðunartímabili. Þetta hefur leitt til verulegrar skerðingar á fæðingarorlofsgreiðslum þannig að það er miðað við 72–74% núna en ekki 80% eins og lagt var upp með í fæðingarorlofslögunum. Ég er alveg viss um að hæstv. ráðherra mun stuðla að því, og er það vel, að hér muni fjölga barneignum ef hann fer þá leið að breyta þessu almenna viðmiðunartímabili sem fjöldi manns hefur gagnrýnt og er mjög óréttlátt.