133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

samkeppnisstaða Vestmannaeyja og landsbyggðarinnar.

[14:06]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér fer fram mjög mikilvæg umræða, umræða um byggð í landinu en það er staðreynd og það segja einfaldlega mannfjöldatölur að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur raskað byggð í landinu. Og þá hafa hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins ekki gengið síður hart fram en ráðherrar Sjálfstæðisflokksins. Ég vil nefna formann Framsóknarflokksins sem hefur ritað sérstaka grein þar sem hann segir að það sé stefna flokksins að reisa hér borgríki. Þetta er einfaldlega stefna Framsóknarflokksins sem við sjáum hér í tölum.

Það hefur einnig verið um það rætt og fyrrum hæstv. byggðamálaráðherra hefur haldið því fram að það að breyta því kerfi sem er undirstaða byggðar í landinu, þ.e. sjávarútvegskerfinu, sé eins og að föndra við byggðirnar. Því kerfi sem í rauninni er að eyða byggð í landinu hefur ekki mátt raska og hæstv. utanríkisráðherra líkti því við föndur þegar hún gegndi starfi byggðamálaráðherra. En það þarf að breyta þessu kerfi ef byggð á að vera á Íslandi. Það blasir við öllum. Þetta kerfi hefur ekki skilað neinu. Við veiðum minna en við gerðum fyrir daga þess. Það sýna einfaldlega aflatölur og hvers vegna erum við að halda þessu kerfi áfram? Það eru engin rök fyrir því, ekki nokkur. Menn tala um hagræðingu. Hvar er hagræðingin? Hún birtist ekki í verðmætasköpun þessa útvegs því að tölurnar sýna það að tekjur af sjávarútvegi hafa ekkert vaxið, ekki neitt þrátt fyrir, frú forseti, að við búum við eitt hæsta fiskverð sem sögur fara af. Þannig að ef við ætlum að búa í öllu landinu þá verður að breyta þessu kerfi, það má öllum vera ljóst. Annað er algert aukaatriði og ég vil líkja því einfaldlega við föndur.