133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

samkeppnisstaða Vestmannaeyja og landsbyggðarinnar.

[14:08]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og tekið undir þau sjónarmið sem ég setti fram í upphafi hennar. En kjarninn í því af hverju ég tek þetta upp núna er kannski ekki endilega hvað verður eftir nokkur ár eða hvernig menn ætla að takast á við framtíðina heldur einfaldlega að takast á við þau mál sem núna hvíla mjög á byggðinni.

Vandamálum Vestmannaeyja má skipta í tvennt, annars vegar er um að ræða akút-vandamál sem verður að grípa inn í strax og hins vegar vandamál sem þarfnast langtímalausna. Fögur orð eru góð meðan þau eru sögð en það verða að fylgja efndir. Í þessu tiltekna máli liggur fyrir að ef það á að vera hægt að lækka gjaldskrá Herjólfs þá verða að koma aukin framlög úr ríkissjóði. Það eru bara þau sem telja. Það er eftir þeim sem verður beðið. Það er það sem er verið að kalla eftir og við þurfum að sjá það núna strax. Það er ekki eftir neinu að bíða í þessum efnum og það er það sem við viljum sjá.

Í annan stað gerðist það að skipalyftan í Vestmannaeyjum hrundi. Þar starfa tugir manna sem hugsanlega missa vinnuna. Hér kemur hæstv. fjármálaráðherra og segir að tiltekin verkefni séu ekki styrkhæf. Hér er ekki um það að ræða. Hér er um það að ræða að endurbyggja það sem bilaði, að laga það sem bilaði. Það er það sem er kjarni málsins og ef einhverjar reglur banna að gera við það sem misferst þá eru þær alveg fráleitar. Jafnvel þó svo menn setji þessi rök fram þá er ágætt að vinna eftir hinni svokölluðu Marco Polo-áætlun ESB sem kveður á um heimildir til að styrkja sérstaklega slík tilvik eins og hér um ræðir þannig að það breytir engu. En niðurstaðan er sú sama, við viljum sjá framlög í þetta verkefni strax, við viljum fá efndir á bak við þessi fallegu orð og ef það gengur eftir þá held ég að þessi umræða sé að skila góðum árangri.