133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

542. mál
[14:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Sú vinna sem hæstv. ríkisstjórn var knúin til að vinna í þessu máli, með niðurstöðu sem varðar þingið, fyrir um ári síðan var góðra gjalda verð. Afrakstur þess starfs gefur að líta í þessari hvítbók, um framtíðarsýn um verndun og nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafli.

Þar er á margan hátt um góða vinnu að ræða og ágæta kortlagningu á aðstæðum þó niðurstöðunum sé að hluta til verulega ábótavant og þá sérstaklega því að ekki tókst samkomulag um hvernig farið verði með þessi mál næstu árin. Og í raun er stærstu ágreiningsmálunum og deilumálunum skotið á frest og þeim öllum pakkað inn í nefndarstarf á komandi árum.

Tvennt vil ég gera strax að umtalsefni hér í upphafi varðandi málflutning hæstv. ráðherra áðan. Það fyrra er að tala um að með frumvarpinu, og því sem það boðar í sjálfu sér, sé komin á þjóðarsátt um orku- og virkjanamál og stóriðjumál í landinu. Það er eitthvert hrikalegasta öfugmæli sem menn hafa lengi misst út úr sér.

Það er fjarri öllu lagi að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra geti misnotað þetta góða hugtak, þjóðarsátt, á þennan hátt því þetta er ekkert annað en hrein misnotkun eða afbökun á því hugtaki. Vegna þess að þetta frumvarp, þó að lögum verði, breytir engu um það sem fram undan er næstu árin, stoppar ekki neitt af því sem er pípunum. Auðvelt er að sýna fram á það og ég mun gera það rækilega á eftir.

Hæstv. ráðherra varð nú frægur, ég vil ekki segja að endemum, í sumar fyrir að boða afturvirka stefnubreytingu Framsóknarflokksins í stóriðjumálum. Það hefði í rauninni orðið stefnubreyting árið 2004 en enginn hafði tekið eftir því fyrr en ráðherrann tilkynnti það í sumar. Það má þá alveg segja að með svipuðum hætti sé hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, að boða framvirka þjóðarsátt. Í viðskiptalífinu eru til hugtök sem heita framvirkir samningar. Þetta er þá einhvers konar framvirk þjóðarsátt, þ.e. tilboð um skárri skipan þessara mála að þrem, fjórum, fimm árum liðnum. Það er ekki þjóðarsátt við þjóðina eins og deilurnar standa í dag.

Hitt er þó nauðsynlegt að taka strax fram og það er að frumvarpið hefur tekið miklum breytingum og alvarlegum breytingum frá því sem nefndin gekk frá í tillögu sinni. Mér fannst hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra skauta ansi létt yfir það í framsöguræðu sinni, að gera heiðarlega grein fyrir því hvernig ríkisstjórnin er í frumvörpum sínum að útvatna þó það sem nefndin varð sammála um í starfi sínu og skilað var í október 2006.

Af hverju er það bara ekki heiðarlega viðurkennt að ríkisstjórnin hafnar því að setja þessi mál í einn sáttafarveg í einum starfshópi með fullgildri aðild allra málsaðila? Klýfur þetta upp í tvennt og helmingur málsins, nýtingarþátturinn, og starfshópur þar að lútandi, án þátttöku umhverfisverndarsamtaka heyrir undir iðnaðarráðherra. En afganginn fær svo umhverfisráðherra að hafa í sérstökum starfshópi hjá sér.

Þegar þessir tveir hópar hafa komið sér saman, hvor í sínu lagi, og út úr þeim er t.d. búið að skutla með öllu bæði Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun, hvað tekur þá við? Er það þá þverpólitísk og þverfagleg vinna? Nei. Þá er þriggja manna nefnd þriggja ráðuneyta án nokkurrar aðkomu þingflokka, án nokkurrar aðkomu umhverfisverndarsamtaka eða fagstofnana, sem á að skrúfa þetta saman í anda gömlu hrossakaupanna og helmingaskiptanna, sem þá verða að vísu sem betur fer aflögð og þeir fjarri góðu gamni sem helst ástunda þau, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. En það breytir ekki ásetningnum, að hann er þessi.

Þetta er grundvallarfráhvarf frá niðurstöðum starfshópsins sem lagði til í skýrslu sinni, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I, sem lesa má um, virðulegi forseti, á viðeigandi síðum, á blaðsíðu 88 í skýrslunni, að einn, breiður starfshópur, skipaður fulltrúum allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi, jafnframt fulltrúa forsætisráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis, fulltrúa frá Umhverfisstofnun og fulltrúa frá Náttúrufræðistofnun, auk Orkustofnunar, Íslenskra orkurannsókna, fulltrúa frá náttúruverndarsamtökum, Samorku og Sambandi sveitarfélaga og undir forustu forsætisráðuneytisins. Auðvitað er þetta í grundvallaratriðum ólíkari nálgun en sú að kljúfa þetta upp og til baka og setja afdrifaríkustu þætti málsins aftur á forræði iðnaðarráðuneytisins og henda út úr því starfi fulltrúum umhverfisverndarsamtaka og fagstofnunum á því sviði.

Hér er því algjörlega ólíku saman að jafna og frumvarp ríkisstjórnarinnar er að þessu leyti algjör útvötnun og í raun er hafnað þeirri niðurstöðu sem þó var þrátt fyrir allt saumuð saman með miklum erfiðleikum í nefndarstarfinu. Auðvitað er verið að gefa því þar með langt nef. Verið er að gefa hinu þverpólitíska og hinu þverfaglega innihaldi starfsins langt nef með slíkum vinnubrögðum.

Ég tel það líka mikinn ágalla að í 2. gr. frumvarpsins um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu skuli vanta meginreglur umhverfisréttarins. Það kemur ekki í staðinn fyrir að þær séu þar þó að hæstv. umhverfisráðherra flytji annað og sjálfstætt frumvarp og á tveimur stöðum í frumvarpi iðnaðarráðherra standi til að vitna yfir í þau sérlög. En þá þarf líka að hafa í huga hvernig það er gert. Það er í fyrra tilvikinu í 14. gr. frumvarpsins, og snýr þá aðeins að nýtingarleyfum í eignarlöndum ríkis og þjóðlendum. Og í seinna tilvikinu með loðnu orðalagi í 15. gr., sem breytir 18. gr. gildandi laga um rannsóknar- og nýtingarleyfi. Þetta er að sjálfsögðu ekki jafngilt og starfshópurinn lagði til í sínu frumvarpi, en þar skyldi koma, á milli skilgreiningar á því hvað væru jarðefni og hvað væri nýting á auðlind, eftirfarandi skilgreining um meginreglur umhverfisréttar, reglan um sjálfbæra þróun, meginreglan um samþættingu, reglan um fyrirbyggjandi aðgerðir, varúðarreglan, greiðslureglan og reglan um mat á umhverfisáhrifum.

Í umsögn um 2. gr., í frumvarpi starfshópsins, voru þessar reglur rækilega útlistaðar og rökstuddar ítarlega á allt annan hátt en gert er með þessari fátæklegu vísun í frumvarpi iðnaðarráðherra. Þarna er líka verið að útþynna málið því miður og það kemur á engan hátt í staðinn fyrir það sem starfshópurinn hafði ætlað sér í þessum efnum. Hafa verður í huga, sérstaklega ef menn setja á þjóðarsáttarræður, að ekki náðist sameiginleg niðurstaða um afdrifaríkasta þátt málsins. Það er ekki bara ágreiningur sem fyrir liggur opinberlega um það sem er fram undan á næstu árum og ekki kemur inn í þetta mál vegna þegar útgefinna leyfa og þeirra réttinda sem orkufyrirtækin hafa með höndum. Það náðist heldur ekki samstaða um hvernig farið verður með málin á meðan vinnunni vindur fram, fram til ársins 2010 eða 2012, eða hvað það nú verður, vegna þess að það var ágreiningur um ákvæði til bráðabirgða II, sem var í frumvarpsdrögum starfshópsins, nú ákvæði til bráðabirgða III í þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það var mjög alvarlegur ágreiningur þar sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs studdi ekki það ákvæði og vísar þar til stefnu okkar, um að stöðva beri allar frekari virkjanir og stórframkvæmdir þangað til þessi nýi grunnur er kominn.

Það blasir við að allt tal um þjóðarsátt í þessu samhengi verður beinlínis hlægilegt — og þó ekki einu sinni því þetta er ekki hlægilegt mál, þetta er grafalvarlegt mál. Allt tal um að keyra áfram öll þau áform um virkjanir og álvæðingu sem nú er í pípunum, þrjú til fjögur verkefni, og bjóða svo upp á einhverja þjóðarsátt það þarf auðvitað ekki að ræða það — og ganga jafnvel til viðbótar lengra á millibilstímanum og úthluta enn frekari leiðum á umdeildum svæðum en þeim sem nú eru í höndum orkufyrirtækjanna. Upp á það er boðið í ákvæði til bráðabirgða III með frumvarpinu. Til viðbótar öllum þeim ríkulegu heimildum til virkjana, bæði í vatnsafli og jarðvarma, sem orkufyrirtækin hafa í höndum, og ætla sér að nota í þau stóriðjuverkefni sem verið er að undirbúa á fullu á þremur til fjórum stöðum á landinu, er jafnvel gefið undir fótinn með frekari leyfi. Að vísu er þar vitnað í bráðabirgðaniðurstöður rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Kem ég þá að þeim alvarlega þætti málsins hvernig ríkisstjórninni — sem hefur haft þá vinnu ofan í skúffu í iðnaðarráðuneytinu og ekkert gert með hana nú í mörg ár — hentar allt í einu að draga hana upp þegar á henni þarf að halda til að ýta stóriðjustefnunni áfram. Þá muna þeir eftir þessu hérna, þegar þeir geta þvælt útgáfu frekari rannsóknar- og nýtingarleyfa fyrir virkjanir inn í myndina. Og hvernig nota þeir það þá? Þá er allt í einu farið að taka mark á því sem ekkert hefur verið gert með hingað til.

Muna menn hvaða virkjun kom verst út úr 1. áfanga niðurstöðunnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma? Muna menn hvaða virkjun það var? Kárahnjúkavirkjun. Hún var sú versta að viðbættri Jökulsá á Fjöllum og virkjun í Þjórsárverum. En hún er nú risin. Þannig var virðing ríkisstjórnarinnar þá fyrir þessari vinnu. Það voru tíndar út úr henni þær virkjanir sem orkufyrirtækjunum hentaði að hefjast handa um í miðju vinnuferlinu. Það er alveg stóralvarlegt og ámælisvert af vönduðum manni, eins og ég veit að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra vill vera, að vitna með þessum hætti í frumvarpi sínu fyrirvaralaust í þessar niðurstöður. Það gerir höfundum þeirra ekki rétt til. Það er ósanngjarnt vegna þeirra fyrirvara sem þeir sjálfir settu við vinnu sína. Og lítum nú aðeins á það hvað er sagt áður en kemur að flokkun virkjunarkostanna í þá meginflokka, a, b, c, d og e, sem skýrslan byggist á.

Þeir segja, og er ég þá auðvitað að bera saman og skoða samhengi bráðabirgðaákvæðis III í frumvarpi ríkisstjórnarinnar, þar sem talað er um að einungis sé heimilt að veita leyfi á svæðum sem eru í flokki a eða flokki b, og ekki hafa komið sérstakar athugasemdir eða mótmæli við. Gott og vel.

En á hvaða grunni stendur sú flokkun að mati höfundanna sjálfra á skýrslu í bráðabirgðaniðurstöðum eða 1. áfanga rammaáætlunar? Förum aðeins yfir það. Það segir í inngangi um meginniðurstöður 1. áfanga — fyrst er fjallað um markmið rammaáætlunar og síðan segir, með leyfi forseta:

„Á grundvelli mats faghópa hefur verkefnisstjórnin í 1. áfanga flokkað 35 virkjunarhugmyndir í fimm flokka (a til e) eftir umhverfisáhrifum, aðra fimm eftir heildarhagnaði og fimm eftir arðsemi.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Um þessa flokkun eru gerðir fyrirvarar vegna takmarkaðra gagna, einkum um umhverfisáhrif, en einnig um heildarhagnað og arðsemi, þar sem frumáætlanir um tilhögun eru skammt á veg komnar.“

Þetta er býsna mikið sagt. Um flokkunina sjálfa eru gerðir fyrirvarar vegna takmarkaðra gagna, einkum um umhverfisáhrif. En nú á að gera þetta að sjálfum grundvelli, fyrirvaralausum grundvelli, ákvörðunartökunnar á millibilstímanum. Höfundum þessarar skýrslu er gert rangt til með því að nota niðurstöður þeirra svona. Það er ekki sanngjarnt gagnvart vísindamönnum, sem setja niðurstöður sínar fram með klárum, skýrum og fræðilegum fyrirvörum, að taka þær og meðhöndla þær á þennan hátt. Allir sem hafa einhverja lágmarksnasasjón af siðareglum í vísindasamfélaginu vita þetta.

Síðan er einnig sagt, með leyfi forseta:

„Í flokk a með minnstum umhverfisáhrifum falla 15 virkjanir með samanlagða orkugetu um 11.200 gígavattstundir á ári. Tvær þeirra eru vatnsaflsvirkjanir en hinar jarðvarmavirkjanir. Arðsemi þessara virkjunarkosta er í meðallagi (flokkur c á skala a til e).“

Svo segir, með leyfi forseta:

„Gögn skortir til að greina á milli jarðvarmavirkjana um arðsemi og heildarhagnað.“ — Gögn skortir.

Og enn fremur segir, í ábendingum um framhald vinnu við rammaáætlun, með leyfi forseta:

„Með þessum niðurstöðum hefur verkefnisstjórn náð því markmiði sem henni var falið að leggja grundvöll að 1. áfanga í forgangsröðun virkjunarkosta. Hafa verður þó í huga að þekking á virkjunarkostum sem teknir voru til skoðunar er í mörgum tilvikum ekki fullnægjandi. Þannig sýnir yfirlit um stöðu þekkingar að í 10 tilvikum er þekkingarstigið metið í flokk c (á skala a–c).“

Það er í minnsta flokki, það er á lægsta þekkingarstigi. Það er á skala c, það er í flokki c á skala a–c. Það er í þriðja og lægsta upplýsinga- eða þekkingarflokknum.

Og áfram segir, með leyfi forseta:

„Það er því mikilvægt að afla frekari þekkingar um þessa virkjunarkosti og endurmeta þá. Þá eru fjölmargar virkjunarhugmyndir sem enn hafa ekki verið kannaðar en nauðsynlegt er að taka inn í myndina til að fá heildstætt yfirlit yfir möguleika til orkuöflunar með vatnsafli og jarðvarma. Í 6. kafla skýrslunnar er að finna tillögur um hvernig megi halda vinnu við þetta verkefni áfram.“

Mér finnst með algerum endemum að þessir fyrirvarar, þessi skýra staða málsins eins og hún er af hálfu höfundanna, skuli ekki vera virtir og að nú allt í einu henti ríkisstjórninni — sem hefur haft þessa rammaáætlunarvinnu afvelta ofan í skúffu í fullkominni útideyfu í mörg ár og ekkert með hana gert — að draga hana upp. Við höfum gagnrýnt það hér á þingi, talsmenn Vinstri grænna, ár eftir ár að þessari vinnu skuli ekki vera hraðað. Við höfum reyndar lagt til, sem eðlilegt er, að hún færist á forræði umhverfisráðuneytisins. Hún á ekki heima hjá iðnaðarráðherra, enda hafa menn greinilega engan áhuga á því þar á bæ, hvorki núverandi og hvað þá fyrrverandi iðnaðarráðherra virðast hafa nokkurn minnsta áhuga á því að þessu miði fram. Það blasir við. Aðgerðarleysið og dugnaðarleysið getur ekki verið svo rosalegt að ef einhver raunverulegur áhugi hefði verið til staðar væru málin ekki jafnilla stödd og raun ber vitni. En nú á að taka þetta og nota þetta svona.

Þetta finnst mér, virðulegur forseti, alls ekki ganga, alls ekki í lagi. Ég mótmæli því þar af leiðandi að hér sé til staðar sá grunnur, faglegi og ótvíræði grunnur, sem hægt sé að byggja á með þeim hætti sem ætlunin er á millibilstímanum. Hann er ekki til staðar.

Viðhorf okkar, Vinstri grænna, í þessum efnum liggja skýr fyrir. Við viljum að það verði stoppað. Við viljum að engin frekari leyfi og engar frekari heimildir verði gefnar út en þær sem til staðar eru og engum framkvæmdum, sem aftur verður snúið með, verði hleypt lengra en þær eru komnar í dag. Á þeim tíma sem líður þangað til nýr grundvöllur þessara mála næst — sem að mörgu leyti skal viðurkennt að gæti fólgist í þessari nálgun fengju menn frið til þess að vinna þannig — þá verði jafnframt útgefin rannsóknarleyfi látin sæta þeim takmörkunum að ekki verði farið inn á ný svæði, ekki verði farið og borað á nýjum stöðum innan svæða sem leyfi hafa verið veitt fyrir, eingöngu lokið þeim rannsóknarverkefnum sem beinlínis eru í gangi.

Á þetta er að sjálfsögðu hægt að fá orkufyrirtækin til að fallast ef það er hluti af heildarstefnumörkun og heildarsamskiptum aðila. Telji þau sig verða fyrir óþægindum af þessum sökum eða hafa lagt út kostnað sem þau fái þá ekki endurkræfan má bæta þeim það? Ríkið getur að sjálfsögðu yfirtekið rannsóknir og eignast þá niðurstöðurnar í leiðinni. Það eru margar leiðir færar til að innleiða slíkt stopp þangað til málin eru komin á nýjan grunn. Veruleikinn er sá að það er miklu meira en nóg af þegar útgefnum virkjunarheimildum í höndum stjórnvalda. Það er alvara málsins sem kemur í raun ekkert við þetta, nema það er hyggilegt að menn hafi meðvitund um það til hvers hluta orkuforðans í landinu þetta gæti tekið ef allt fer á versta veg. Fjörutíu prósenta.

Það er nefnilega þannig, og það stendur í skýrslu starfshópsins svart á hvítu og þjóðarsáttarmenn ættu að lesa það, byrja á því, fletta upp á bls. 42, ef minni mitt svíkur ekki, hvað þar er sagt um virkjunarhugmyndir vegna fyrirhugaðrar stóriðju. Hvað er sagt þar? Þar er sagt, með leyfi:

„Heildarraforkunotkun hérlendis var um 9 teravattstundir árið 2005 og verður um 16 teravattstundir árið 2008, þegar nýtt álver Alcoa Fjarðaáls hefur tekið til starfa að fullu. Ef framangreind áform um ný álver í Helguvík og á Húsavík og stækkun álversins í Straumsvík verða að veruleika þá má áætla að árleg heildarnotkun verði orðin um 29 teravattstundir að loknum þeim framkvæmdum. Orkumálastjóri hefur áætlað að heildarorkugeta þeirra innlendu orkulinda sem hagkvæmt sé að virkja með tilliti til umhverfisáhrifa sé um 50 teravattstundir á ári og því verður búið að virkja tæplega 60% af heildarorkugetu landsins í jarðvarma og vatnsafli í umhverfisflokkum a–c í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma ef ráðist verður í þær þrjár stóriðjuframkvæmdir sem nefndar eru hér að framan.“

Þetta er alvara málsins. Öll þessi plön geta gengið fram, óháð því sem hér er undir í frumvarpinu og tæp 60% af orkuforðanum væru þá búin, bundin á útsöluverði til áratuga í samningum við erlend álfyrirtæki.

Þjóðarsáttin ætti þá að snúast um það sem eftir væri. Eru það kostirnir? Já, það eru kostirnir. Það er það sem verið er að bjóða upp á. Auðvitað sér hvert mannsbarn í gegnum þetta, herra forseti. Það dugar ekki hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, það dugar ekki ríkisstjórninni, að reyna að bjarga sér í land nokkrum vikum fyrir kosningar með sýndarmennsku af þessu tagi. Átökin núna snúast ekki um þetta. Þau snúast um það hvort öllum þessum stóriðjuverkefnum verður sturtað inn í landið á næstu missirum og það stendur ekkert annað til, að því er virðist, af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Þetta frumvarp er potemkintjöld. Þau hafa ekkert gildi vegna þess sem á bak við þau er, ekkert gildi ef ríkisstjórnin heldur áfram siglingu sinni. Með öðrum orðum, þetta frumvarp stoppar ekki stækkun álversins í Straumsvík upp í 460 þús. tonna ársframleiðslu. Þetta frumvarp stoppar ekki fyrri helming af álveri í Helguvík með 250 þús. tonna framleiðslugetu. Þetta frumvarp stoppar ekki fyrri helming af álveri við Húsavík með 250 þús. tonna framleiðslugetu. Þetta stoppar ekki einu sinni álverið í Þorlákshöfn sem er það fjórða á listanum, að vísu lítið í byrjun en þeir kæmu þó fætinum milli stafs og hurðar ef þeir fengju að byggja þar 60 þús. tonna álver.

Orku í allt þetta geta orkufyrirtækin skaffað úr þeim svæðum sem þau hafa leyfi til að athafna sig á nú þegar, og það sem kynni upp á að vanta mætti sækja í bráðabirgðaákvæði III ef það væri í höndum ríkisstjórnar af því tagi sem við sitjum enn uppi með. Þetta mundi ekki stoppa neitt fyrr en í fyrsta lagi eftir árið 2012. Þannig er það nú, svo að menn hafi það algerlega á hreinu. Það er pólitíkin, það eru kosningarnar í vor sem verða að ráða úrslitum í þessum efnum. Það er ekki boðið upp á annað hér af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Það er ástæða til að minnast þess líka að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki einu sinni látið það hagga áformum sínum sem nú liggur fyrir af hálfu alþjóðavísindasamfélagsins í formi 4. skýrslu milliríkjanefndar loftslagshóps Sameinuðu þjóðanna sem við ræddum á Alþingi í gær. Auðvitað var það ljóst hverjum manni sem hlýddi á svör ráðherra að engin stefnubreyting hefur orðið hjá ríkisstjórninni, ekki nokkur. Hún er jafnákveðin í því nú og hún var þegar hún var undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar 6. febrúar 2006 og hann sagði í umræðum á Alþingi, hæstv. þáverandi forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„ Það liggur fyrir að við höfum heimild til að byggja stóriðju sem samsvarar 1.600 þús. tonnum af CO 2 . Það ákvæði gildir til 2012. Hvað tekur við eftir 2012 vitum við ekki. Ég hef svarað því mjög skýrt að við hljótum að gera þá kröfu áfram að geta nýtt okkar endurnýjanlegu auðlindir og tekið þátt í því að minnka mengun í heiminum með því að framleiða rafmagn með vistvænum hætti á Íslandi. Það vil ég að sé alveg skýrt,“ sagði þáverandi forsætisráðherra og bætti svo við:

„Ég veit að sjálfsagt telja margir hér inni að einhverjar frekari kröfur af okkar hálfu í þeim efnum verði hlegnar út af borðinu …“ og lauk svo ræðu sinni með því að segja: „En sú mun verða krafa núverandi ríkisstjórnar.“

Getur þetta skýrara verið? Hefur hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde dregið þetta til baka? Ég hef ekki heyrt það. Hefur formaður Framsóknarflokksins dregið þetta til baka? Hefur orðið stefnubreyting að þessu leyti frá því að Halldór Ásgrímsson stóð í þessum ræðustóli fyrir rétt rúmu ári og sagði alveg skýrt að stefna ríkisstjórnar hans væri sú að sækja ríkari heimildir en þau 1.600 þús. tonn af CO 2 sem íslenska undanþáguákvæðið hljóðar upp á? Ég hef ekki orðið var við það að þessi ríkisstjórn hafi á nokkurn hátt breytt um stefnu. Hún keyrir stóriðjustefnuna áfram á fullum krafti, er samningsbundinn þátttakandi að undirbúningi um byggingu fyrri helmings af álveri í Helguvík og fyrri helmings af álveri við Húsavík og hefur veitt öll tilskilin leyfi fyrir stækkun í Straumsvík. Forsætisráðherra hefur gengið fram og hvatt Hafnfirðinga til að samþykkja stækkun í Straumsvík. Ég veit ekki hvort Framsókn hefur gefið út um það alveg sérstaka yfirlýsingu en ég yrði afar undrandi, ég þyrfti að halda mér í stólinn ef eitthvað annað kæmi upp úr framsóknarmönnum en það að þeir vilji auðvitað stækka í Straumsvík. Þeir hafa ævinlega viljað alla stóriðju sem í boði er, hvar sem hún er, þannig að það væru alveg meiri háttar tíðindi ef eitthvað annað stæði til af þeirra hálfu. Þeir kunna að vera í einhverjum bögglingi með þetta á Suðurlandi en þeir hafa svo sem lent í vandræðum út af fleiru þar.

Nei, meðan málin standa svona, frú forseti, meðan það er eingöngu orðið í valdi eftir atvikum Hafnfirðinga og Sunnlendinga að reyna að koma í veg fyrir stóriðjustækkunina í Straumsvík, meðan það er þannig að ríkisstjórnin er sjálf þátttakandi í undirbúningi álvera á Suðurnesjum og við Húsavík, meðan forustumenn í stjórnarliðinu, þingmenn þeirra í kjördæminu, eru að undirbúa álver við Þorlákshöfn, meðan það er óbreytt stefna ríkisstjórnarinnar að sækja um frekari mengunarundanþágur fyrir Ísland — eigum við að taka mark á einhverju þjóðarsáttarhjali? Nei. Það skal vera alveg á hreinu að þetta er ekki tilboð um sátt um einn eða neinn hlut, enda ekki þannig að henni staðið. Þjóðarsáttin var merkt fyrirbæri á sínum tíma og hefur skilað þessu þjóðarbúi og þjóðinni miklu. Hún var mjög víðtækt samkomulag aðila vinnumarkaðarins, ríkisstjórnar, bændasamtaka og fleiri aðila og mjög margir komu að því borði og lögðu sitt af mörkum. Sú ágæta þjóðarsátt skilaði Íslendingum þeim mikla árangri að verðbólgudraugurinn var kveðinn niður og við sáum í fyrsta skipti um langt árabil eins stafs tölu í verðbólgu haustið 1990. En við skulum minnast þess að ýmsir færðu fórnir í þágu þeirra aðgerða, og tölum af virðingu um það og þá dugmiklu menn, forustumenn aðila vinnumarkaðarins sem auðvitað eiga mikinn heiður skilið fyrir þann kjark sem þeir sýndu á sínum tíma. Ég mun síðastur manna tala af þeim þann heiður sem þeir eiga, Einar Oddur Kristjánsson, Guðmundur J. Guðmundsson og fleiri góðir menn.

En það tókst víðtækt samstarf fleiri aðila. Það var raunveruleg þjóðarsátt og hún skilaði miklum árangri en þetta er það ekki. Það er heldur aumleg sýndarmennska að kalla leikrit af þessu tagi, eða leiktjöld, einhverja slíka tilraun. Þjóðarsátt að mínu mati getur aðeins falist í einu, að við gerum ekkert frekar en það sem orðið er til að auka ófriðinn í landinu um þessi mál, (Gripið fram í.) að við aðhöfumst ekki neitt það til frekari ófriðar en orðið er, hv. þm. Jón Kristjánsson. Það er nóg komið.

Það er nefnilega þannig að átökin um stóriðjuálvæðingarstefnuna eru á góðri leið með að verða djúpstæðasta ágreiningsmál með þessari þjóð sem klýfur hana alveg í herðar niður. Það er þannig, veruleikinn er sá. Menn eru bæði blindir og heyrnarlausir gagnvart hinni almennu umræðu ef þeir skynja ekki ölduna í þjóðfélaginu, ef þeir skynja ekki t.d. viðhorfsbreytinguna á skömmum tíma í Hafnarfirði og í sveitum Suðurlands. Það er bara ekki lengur gjaldgengt að segja að það verði að virkja til að fara með rafmagnið í burtu og selja það í stækkun álvers í Hafnarfirði. Menn bara segja: Nei, takk. Það er engin þörf á þessu. Það þarf ekki að færa þessar fórnir. Það er mikil hugarfarsbreyting. Það verða geysileg tímamót í þessari baráttu ef Hafnfirðingar fella stækkun álversins í Straumsvík. Það verða söguleg tímamót og í kjölfarið mun mikil skriða fylgja vegna þess að þá hefur það gerst sem er vonum seinna, að almenningur í landinu rísi upp gegn þessari stefnu og gegn óvitrum stjórnvöldum sem hafa þjösnast áfram og ekki hlustað á eitt eða neitt.

Þá hefur það líka gerst að menn rísa upp gegn ofríki orkuiðnaðarins sem veður núna áfram og býður út hönnun á mannvirkjum á landi einkaaðila sem eru á móti því að leggja landið til. Er í lagi að menn hegði sér þannig? Hvar er hæstv. fjármálaráðherra? Er hann ekki að fara í framboð á Suðurlandi? Vill hann kannski svara því hérna hvort hann skrifi upp á framferði Landsvirkjunar að þessu leyti? Er það þannig að þessi framganga Landsvirkjunar njóti fulls stuðnings eigandans sem fyrir hönd þjóðarinnar er því miður ríkisstjórnin? Það væri fróðlegt að heyra frá frambjóðanda sjálfstæðismanna á Suðurlandi, hæstv. fjármálaráðherra, um þetta efni.

Svo er það auðvitað þannig, virðulegur forseti, að ég gæti haldið aðra eins ræðu og rúmlega það um nauðsyn þess að setja hér punktinn við í bili af efnahagslegum og félagslegum ástæðum í landinu, ekki bara af umhverfisástæðum. En ég tek þær fyrst og nota meginhluta ræðutíma míns í þær vegna þess að þar verður mestur skaðinn og hann er því miður óafturhverfur í verulegum mæli. Ef við eyðileggjum náttúrugersemar og land sem aldrei verður endurheimt verður það ekki með fé bætt, afsökunum eða neinum öðrum hætti. Efnahagsleg skakkaföll verðum við þá að taka frekar á okkur eins og hvert annað hundsbit þótt það blasi við hverjum manni að það er efnahagslegt óráð að hella frekari stóriðjuframkvæmdum inn í hagkerfið á næstu missirum. Það er glapræði — það sér það hvert mannsbarn — við þær aðstæður að við erum að glíma við þenslu, viðskiptahalla, verðbólgu og okurháa vexti. Er það það sem við þurfum, að hella meiri olíu á eldinn? Kynda undir kötlunum? Hvað segir fyrrverandi seðlabankastjóri sem skrifaði undir álit Seðlabankans í ársfjórðungsskýrslum hans aftur og aftur og varaði ríkisstjórnina við? Hafa orðið einhver hamskipti hér, herra forseti? Hvar er núna hinn grandvari og varkári maður, þáverandi seðlabankastjóri sem á höfundarrétt að varnaðarorðum Seðlabankans, hvað það verði erfitt fyrir íslenska hagkerfið að taka inn á sig alla þá fjárfestingu sem verður fólgin í Kárahnjúkavirkjun, Reyðaráli og stækkun á Grundartanga með tilheyrandi virkjunum? En hvað eru menn að tala um? Menn eru að tala um 1,5–2 sinnum meira á nokkrum árum en núverandi framkvæmdir eru. Álversverkefnin þrjú, stækkun í Straumsvík með virkjunum, fyrri helmingur í Helguvík með virkjunum og fyrri helmingur í Húsavík með virkjunum, eru upp á 430–450 milljarða kr. Það er hátt í hálf landsframleiðsla eins árs sem kæmi þarna kannski inn í hagkerfið þótt það dreifðist á 5–7 ár, þótt það dreifðist á eilítið lengri tíma en núverandi framkvæmdahrina hefur staðið. Seðlabankinn sagði 2003 og 2004 að ekkert vestrænt hagkerfi með fljótandi gengi og opnar fjármagnshreyfingar hefði þurft að glíma við aðstæður af því tagi sem í vændum væru á Íslandi með svona gríðarlegri innspýtingu í hagkerfið sem næmi einum þriðja af landsframleiðslu heils árs á fáeinum missirum. Þetta var rétt hjá Seðlabankanum. Þetta var rétt hjá bankastjórunum sem þá skrifuðu undir skýrsluna.

En hvað ætla þeir að segja núna ef á að dæla hérna inn 1,5–2 sinnum þeim fjárfestingum á kannski lítið eitt lengri tíma? Það verður heldur betur að ræsa út slökkviliðið og búa það tækjum ef ekki á bara bókstaflega að kvikna í íslenska hagkerfinu. Hvernig er vinnumarkaðurinn í stakk búinn til að takast á við þessar aðstæður? Eru ekki 16 þús. manns af erlendum uppruna án íslensks ríkisfangs á vinnumarkaðnum í augnablikinu? Er mikið af Íslendingum á lausu til að vinna í þessum verkefnum? Er þetta fyrir þá? Nei. Þessar framkvæmdir munu fyrst og fremst hafa áhrif við Gulafljót og á Gdansk-svæðinu ef ráðist verður í þær. Íslenskur vinnumarkaður er þegar yfirspenntur og ræður ekkert við frekari innspýtingu af þessum toga þannig að efnahagslega er ekki síður ástæða til að þjóðin taki í taumana í vor og setji af þá húskarla sem hafa hegðað sér svona, sem hafa ráðsmennskast svona. Þetta gengur ekki. Við getum ekki bætt nýrri hringferð með tilheyrandi viðskiptahalla á erlendri skuldasöfnun ofan á það sem fyrir er. Með hreinar erlendar skuldir sem eru orðnar 150% af landsframleiðslu er ekki orðið mikið borð fyrir báru. Er ekki verið að lækka lánshæfismat Íslands þessa mánuðina? Er það ekki rétt, herra forseti? Mig minnir það. Og halda menn að það bæti úr skák ef menn boða nýja tíma og enn þá svakalegri í þessum efnum en þá sem á undan eru gengnir? Það er vissulega þannig að það rofar heldur til í augnablikinu að sumu leyti og maður bindur vissar vonir við að eitthvað meiri stöðugleiki gæti verið í vændum ef menn hella ekki að nýju olíu á eldinn. Ríkisstjórnin flýtur meðvitundarlaus áfram og afsakar sig með fáfengilegum hætti eins og þeim að þetta sé ekki lengur í hennar höndum, að leyfisskyld starfsemi sem byggir á ríkisábyrgðum og lánum sé ekki lengur hennar mál, það séu bara sveitarfélögin og orkufyrirtækin. Það er undarlegt.

Er það sjálfgefið að menn veiti ríkisábyrgðir á lán Landsvirkjunar bara eins og fara gerist? Er búið að færa þá ákvörðun út í bæ? Nei, hún er hér á Alþingi. Er þetta ekki leyfisskyld starfsemi, bæði samkvæmt gildandi lögum og því sem hér á að verða? Auðvitað þarf ekki að reyna að segja nokkrum manni svona draugasögur í björtu. Efnahags- og framfarastofnunin bendir á það í sinni skýrslu að stjórnvöld hafi öll tök á því að stýra þessu ef þau vilja og segir að þau eigi að gera það og spyr aftur og aftur í hverri skýrslunni á fætur annarri í forundran: Hvert ætla Íslandsmenn með þessi mál? Af hverju er ekki í það minnsta gerð vönduð gagnsæ þjóðhagsleg arðsemisúttekt á því hvort það sé hagstætt fyrir íslenska þjóðarbúið að halda áfram á þeirri braut? Efasemdir skýrsluhöfundanna leyna sér ekki, einfaldlega vegna þess að þeir efast mjög um arðsemi þessara fjárfestinga fyrir þjóðarbúið þegar tekið er tillit til hinna neikvæðu ruðningsáhrifa. Við erum að hrekja önnur fyrirtæki úr landi. Við erum að laska rekstrarstöðu og undirstöðu hins almenna atvinnulífs. Útflutnings- og samkeppnisgreinar hafa gengið í gegnum langan táradal vegna hins háa raungengis, hárra vaxta, verðbólgu og misvægis í þjóðarbúskapnum. Þau hafa ekki mikið úthald í 5–8 ár í viðbót ef það er það sem á að bjóða þeim upp á.

Það er sama hvar við komum að þessu máli. Það er engin glóra í að halda svona áfram. Það verður að nást fram í vor það stóriðjustopp sem við höfum barist fyrir mörg missiri og flutt um tillögur á Alþingi. Það er fyrst og fremst einn aðili sem getur stigið í bremsuna, það er þjóðin í maímánuði næstkomandi og ég hef þá trú að hún muni gera það.