133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

486. mál
[13:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég tek undir þessar áhyggjur. Það er einmitt málið hér og þess vegna er rétt að eyða nokkrum orðum í þessa meðaltalsleið. Vissulega er hægt að finna það út, a.m.k. getur ólögfróður maður fundið það út að meðaltalsleiðinni væri hægt með nokkuð sterklegu skójárni að þrýsta inn í þessa tölu.

Hins vegar er spurning um hvar og hvernig við stöndum, ef ekki löglega þá siðlega, þegar árinu 2012 er lokið. Samkvæmt því skriflega svari — því að ráðherrann svarar engu í sínu munnlega svari nema því að hún hafi lagt fram frumvarp 6. febrúar í ríkisstjórninni sem ekki er komið í þingið og að hún ætli að kynna stefnumótunina í hinum málunum eftir nokkra daga og þess vegna sé ekki ástæða til að svara þingmanninum sem hér stendur — við hinni skriflegu fyrirspurn verður losunin árið 2012 1.710 þús. tonn. Þá er reiknað með aðeins þeim álverum sem nú eru að stækka og að sjálfsögðu Straumsvíkurálverinu — spurningin beindist að því — en ekki er reiknað með Húsavík, ekki með Helguvík, Þorlákshöfn eða því öðru sem menn láta sér detta í hug núna.

Staðan er þá sú að í lok árs 2012 standa Íslendingar uppi með þessa losun og enga umhugsun svo um það áfram hvað á að taka við. Enginn hefur hugmynd um það.

Það er ákaflega hæpin staða sem íslenskir stjórnmálamenn hafa á næstu fundum í þessu samstarfi. Þetta verður auðvitað ekki ákveðið árið 2012, heldur verður þetta ákveðið á næstu árum, árin 2008 og 2009, hvernig á að standa að þessu. Þeir sjálfir hafa í raun og veru sprengt alla ramma hvað sem hæpnum lagabókstaf líður. Ég vil gjarnan fá svör um það frá hæstv. umhverfisráðherra þannig að einhver svör veitist (Forseti hringir.) í máli hennar hér í dag.