133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

vetnisrannsóknir og eldsneyti.

557. mál
[14:45]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Svar við fyrstu spurningu: Vetnisrannsóknir hafa verið stundaðar við Háskóla Íslands, Iðntæknistofnun, Háskólann á Akureyri og hjá fyrirtækjunum Íslensk nýorka og Varmaraf ehf. Í raun hefur myndast nokkurs konar verkaskipting á milli þeirra.

Í upphafi þessa árs lauk vetnisvagnaverkefninu og nýtt verkefni er tengist notkun vistvæns eldsneytis í fólksbílum er að hefjast. Hið nýja verkefni kallast Smart H2 sem er skammstöfun fyrir enskt heiti. Markmið þess er m.a. að koma af stað rekstri 20–30 vetnisbíla og setja vetnisljósavél um borð í ferðamannabát. Tilgangurinn er að afla gagna við raunverulegar aðstæður til að nýta í rannsóknir, hagkvæmnisathuganir og frekari notkunaráætlanir. Áætlað er að um 15–20 stöðugildi tengist beint rannsóknum og þróun á hagnýtingu vetnis og fer þeim fjölgandi. Samvinna við erlend fyrirtæki hefur skipt miklu máli í þessu sambandi, m.a. alþjóðleg stórfyrirtæki.

Annað svar: Bílaframleiðendur miða við að vetnisbílar fari á almennan markað á tímabilinu 2010–2015. Hins vegar mun vetnisbíllinn ekki verða samkeppnishæfur í verði við hefðbundna bíla fyrr en um 2015 að því er menn ætla, þegar samsvarandi fjöldaframleiðsla hefst og nú er á bensínbílum miðað við núgildandi áætlanir. Iðnaðarráðuneytið stefnir að því að semja við Vistorku um stuðning sem tryggja mun samfellu í vetnisverkefnum á Íslandi. Þessi vilji byggist á þeirri trú ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar að farartæki sem nýta vistvænt eldsneyti verði innan skamms raunverulegur valkostur gagnvart farartækjum sem nota jarðefnaeldsneyti. Á grundvelli þessa mundi ráðuneytið leggja fram allt að 225 milljónir á þremur árum en fjárveitingar til verkefnisins eru þó að sjálfsögðu háðar ákvörðun Alþingis um fjárlög hvers árs. Auk framlags stjórnvalda koma framlög frá erlendum samstarfsaðilum, innlendum orkufyrirtækjum og ýmsum öðrum aðilum.

Þriðja svar: Á vegum ráðuneytisins og Orkustofnunar hefur verið fylgst með þróun vistvæns eldsneytis í mörg ár og var m.a. ítarleg umfjöllun um það á orkuþingi sem haldið var í október sl. Einnig hefur starfað á vegum ráðuneytisins hópur sérfræðinga um vistvænt eldsneyti og gaf Orkustofnun nýlega út umfjöllun og tillögur hans í skýrslunni Stefna Íslendinga í eldsneytismálum einkabifreiða. Ein af megintillögum þessarar skýrslu lýtur að endurskoðun laga um opinber gjöld af ökutækjum sem miða að því að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum, og skýrt var frá fyrir nokkru.

Skýrslan dregur einnig fram stöðu þróunar farartækja er nota vistvæna orkugjafa. Auk vetnisbíla eru í þróun bifreiðar sem ganga fyrir rafmagni, etanóli, metanóli, metangasi, lífdísilolíu og fleira mætti nefna. Enn fremur eru í þróun fjöldrifsbílar sem eru búnir tvenns konar aflgjöfum. Þar á meðal eru svokallaðir tvinnbílar, þ.e. bílar sem bæði hafa rafhreyfla og bensín- eða dísilvél sem aflgjafa, og tengil-tvinnbílar svonefndir sem stinga má í samband til að hlaða rafgeyma en ganga líka fyrir öðru eldsneyti.

Þótt vetnið hafi margvíslega kosti umfram aðra orkubera er engu að síður óvíst um yfirburði þess til lengri tíma litið. Því mun hið nýja þróunarverkefni sem ég nefndi áður, Smart H2, taka til úrvinnslu og mats rekstrar- og kostnaðarupplýsingar annarra farartækja sem nota vistvænt eldsneyti.

Allvíða er unnið að þróun vistvæns eldsneytis fyrir samgöngutæki. Lífmassafélagið vinnur að þróun vinnsluaðferðar til að framleiða etanól og lífmassa, m.a. úr grasi og lúpínu. Metan hf. stundar vinnslu og þróun metangass fyrir farartæki og nú eru um tíu ár liðin frá því að Sorpa hóf söfnun metans úr urðunarstað við Álftanes. Ráðuneytið og Orkustofnun hafa fylgst með starfsemi þeirra eins og annarra sem vinna að framgangi vistvæns eldsneytis.

Að lokum vil ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar því að þær drepa á mjög mikilvægu málefni sem ástæða er til að dvelja við.