133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:27]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega rétt að í langtímaáætluninni stendur að huga eigi að eða hugsanlega hefja undirbúning að Öskjuhlíðargöngum undir lok þessa tímabils, eftir áratug eða svo. Gott og vel.

En það er gott að hæstv. samgönguráðherra minntist á Sundabrautina af því að framtíð hennar er í algerri óvissu. Lengi hélt ég að það væru þeir sem stjórnuðu í Reykjavík sem þvældust fyrir ráðherranum í þeirri fyrirætlan allri, og oft lét hann í það skína í þingsölum. En nú er kominn meiri hluti þar sem er samgönguráðherra væntanlega þóknanlegur. Nú hefur sá meiri hluti reyndar tekið upp stefnu Samfylkingarinnar um að best sé að koma Sundabrautinni fyrir í jarðgöngum. Öll sú áætlun er í fullkominni óvissu hér. Ef ég hef skilið þetta plagg rétt mun Sundabraut enda uppi í Geldinganesi og enginn veit hvert hún fer þaðan. Á að leggja hana hálfa leið, frú forseti? Hvað ætlast samgönguráðherra fyrir um þá vegalagningu? Hvenær mun hún hefjast? Hvernig mun hún verða fjármögnuð? Og hvert eiga göngin að liggja? Hálfa leið kannski.