133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:28]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hélt að ég kæmist hjá því í dag að nefna R-listann en það er óhjákvæmilegt úr því að hv. þingmaður talar eins og hún gerir. Í áætluninni er gert ráð fyrir að ljúka framkvæmdum við Sundabraut, fullfjármögnuð áætlun alla leið, ekki hálfa leið. Ástæðan fyrir því að við erum enn þá að vinna að undirbúningi vegna Sundabrautar er sú að fallið var frá því að leggja jarðgöng í umhverfismati á sínum tíma. Það var á vegum R-listans. Nú varð niðurstaðan hins vegar sú að skoða þann kost og það er verið að því. Ég vona að það geti orðið í góðu samstarfi við alla borgarfulltrúa í Reykjavík að taka ákvörðun þegar umhverfismatinu lýkur í haust því þetta er mikil vinna. Það kæmi mér ekki á óvart þótt niðurstaðan yrði sú að jarðgangakosturinn yrði valinn. Ný Sundabraut með jarðgöngum og síðan vegi og brú upp á Kjalarnes. Áætlunin gerir ráð fyrir þeim kosti.