133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[14:22]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Samgöngur, í víðu samhengi, mynda undirstöður í innviðum hvers þjóðfélags. Þegar sagan er rifjuð upp eða litið á landakortin, á hvar stórar og smáar borgir nágrannalandanna eru staðsettar, þá er ein undirstaða áberandi, þ.e. samgöngur. Gjarnan eru þar stórar og skipgengar ár sem skipta sköpum eða náttúrufar að öðru leyti. Án greiðra og góðra samgangna fær ekkert samfélag þrifist. Svo var það áður og svo er í dag og kröfurnar um þennan þátt aukast stöðugt.

Umbætur í samgöngum enda aldrei. Það koma ætíð nýjar kröfur jafnskjótt og áfanga er lokið. Það er sagt að þingmenn, einkum landsbyggðarþingmenn, fari af hjörunum ef vega- og samgöngumál ber á góma. Það kann vel að vera rétt. Breytingin hefur hins vegar orðið sú að í seinni tíð er málið jafnheitt á höfuðborgarsvæðinu. Það er bjargföst skoðun mín að nauðsyn sé að haga málum á þann veg að þjóðarsátt ríki um uppbyggingu í samgöngukerfinu. Gleymum því ekki að uppbygging samgangna í landinu, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni er í þágu allrar þjóðarinnar.

Mikið er mjúkur malbikaði spottinn, söng Ríó tríóið á dögunum og átti þá við vegakerfið í Kópavogsbæ. Mín kynslóð man þá tíð að malbikaðir spottar voru munaður. Ég var fyrir nokkru kominn með fast sæti á Alþingi þegar ég þurfti að sitja á fundum undir þrálátri gagnrýni um að 1 km vegar væri með bundnu slitlagi í Norður-Múlasýslu, sem er þó stór og víðfeðm sýsla. Þetta var spottinn í gegnum Fellabæ á Héraði. Saga síðustu áratuga er saga gríðarlegrar uppbyggingar í samgöngumálum. Því skulum við ekki gleyma.

Hins vegar er það svo að ljóðlína Davíðs Stefánssonar um vegagerð er mjög sönn:

Er starfinu var lokið og leyst hin mikla þraut

fannst lýðum öllum sjálfsagt að þarna væri braut.

Þetta voru orð að sönnu. Við höfum alltaf horft til framtíðar í samgöngumálum. Við höfum ekki horft aftur á bak og þess vegna hafa stórir sigrar unnist. Samgöngubætur ýta undir breytingar. Þær breyta samfélaginu, stytta leiðir milli manna, leiðir milli byggðarlaga, greiða aðgang að þjónustu og svo mætti lengi telja. En oft er það svo að þróun á sviðum atvinnumála, efnahagsmála og daglegs lífs krefjast breytinga í samgöngum. Orðið hafa gríðarlegar breytingar af slíku tagi síðustu áratugina og jafnvel á síðasta áratug. Ég vil nefna nokkrar:

Í fyrsta lagi hafa strandsiglingar lagst af og flutningar farið upp á land í kjölfarið. Fiskmarkaðir hafa risið og fiski er ekið landshornanna á milli til sölu og vinnslu. Það hefur í för með sér þunga umferð vöruflutningabíla með tengivagna á vegakerfi landsins.

Í öðru lagi hefur bílaeign landsmanna vaxið gríðarlega á undanförnum árum og umferðarþungi af þeim sökum. Það hefur einnig orðið sú breyting að menn sækja vinnu lengra en áður var, keyra tugi kílómetra til vinnu sinnar dag hvern. Breyttar og rýmkaðar snjómokstursreglur og vetrarviðhald gera þetta mögulegt þegar vetur ríkir. Bílarnir hafa breyst, orðið hraðskreiðari og öflugri og umferðin er orðin hættulegri af þeim sökum.

Í þriðja lagi hafa félagsleg samskipti þjóðarinnar yfir vetrartímann milli byggðarlaga aukist með hverju árinu. Samskipti sem voru örðug á fyrri árum meðan samgöngur voru verri.

Í fjórða lagi koma hingað um 330 þús. ferðamenn á ári og þeim fer hratt fjölgandi. Umtalsverður hópur þessa fólks fer í umferðina akandi.

Í fimmta lagi hefur höfuðborgarsvæðið þanist út og stækkað með mikilli mannfjölgun. Ásamt aukinni bílaeign hefur það gert það að verkum að umferð á annatímum í borginni er afar þung.

Í hafnarmálum hefur þróunin orðið sú að nokkrar hafnir standa upp úr með flutninga en geta ber þess að enn er höfnin lífæð hvers byggðarlags þar sem sjávarútvegur er stundaður, hvort sem höfnin er stór eða smá, þótt að munstrið varðandi vöruflutninga hafi breyst.

Í fluginu hefur orðið gríðarleg breyting. Flug til fjölmargra flugvalla hefur lagst af og nú er svo komið að aðeins er flogið til þriggja flugvalla hér á landi án opinberra styrkja. Allt setur þetta sitt mark á þá samgönguáætlun sem við ræðum núna.

Ég held að engum blandist hugur um að miklu fé er varið til vegamála samkvæmt þessari áætlun og þeim tveimur sem eru til umræðu í dag. Með því að leggja saman upphæðir tímabilið út komast menn í háar tölur. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að fjármagninu sé vel varið. Við verðum að hafa í huga að hér er um 12 ára áætlun að ræða.

Ég get ekki annað en minnst á staðhæfingar um niðurskurð í vegamálum á undanförnum árum. Sannleikurinn er sá, ef menn eru í tengslum við samfélagið, að á undanförnum árum hefur vegagerð verið á útopnu ef svo má segja. Svo mikil hefur vegagerðin verið að tæknimenn þjóðarinnar hafa varla haft við að undirbúa nýja vegi. Ég held því að við verðum að skoða fullyrðingar um niðurskurð síðustu ára í því ljósi.

Áætlunin felur í sér maga góða hluti. Ég er ánægður með hana í stórum dráttum en auðvitað eru í henni atriði sem ég vildi hafa öðruvísi eins og gengur. Ég á sæti í samgöngunefnd og á kost á að fjalla um áætlunina þar. Eigi að síður vildi ég drepa á nokkrum atriðum við 1. umr. málsins.

Varðandi flugmálin þá fagna ég áformum um lengingu flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum og lagfæringu á aðstöðu í kringum þá velli. Hlutverk þessara flugvalla sem varavalla fyrir millilandaflugið hefur sannað sig auk þess að áætlunarflug er stundað milli landa frá báðum flugvöllum. Ég legg mikla áherslu á að lenging Egilsstaðaflugvallar verði athuguð og undirbúin í tengslum við breytingar á brúarstæði yfir Lagarfljót og nýja brú. Þessar aðgerðir þurfa að fylgjast að. Forsvarsmenn flugmála og Vegagerðin þurfa að vinna saman að því verkefni. Ég legg mikla áherslu á að það verði gert.

Í áætluninni er gert ráð fyrir aukningu fjármagns til tengivega. Því fagna ég. Þar er brýn þörf því auðvitað hefur megináherslan verið lögð á stofnvegakerfið á undanförnum árum. Bæta þarf þessa vegi sem eru lífæðar sveitanna.

Í áætluninni eru einnig ríkuleg áform um jarðgangagerð. Ekkert felur í sér eins miklar breytingar á atvinnu- og þjónustusvæðum og slíkar framkvæmdir. Ég tel að mikilvægi jarðgangagerðar sé ætíð vanmetið því jarðgangagerð er í raun breyting á landsháttum og landslagi. Ég styð heils hugar stefnumörkun áætlunarinnar um að klippa af hættulega vegakafla um Óshlíð og Hvalnes og Þvottárskriður. Ný Oddsskarðsgöng þola ekki bið vegna þeirra þjóðfélagsbreytinga sem ég gat um fyrr í ræðu minni. Ný Oddsskarðsgöng eru reyndar vegur innan sveitar vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á Austurlandi.

Ég legg áherslu á að farið verði eins fljótt og unnt er, eins og talað er um í áætluninni, í undirbúning frekari jarðganga á Austurlandi, til Vopnafjarðar og á Miðausturlandi. Þetta eru mikil verkefni. En aðferðum og verkkunnáttu í jarðgangagerð hefur fleygt fram á undanförnum árum. Minna má á að fyrst árið 1987, ef ég man rétt, var gerð tillaga um jarðgöng milli Norðfjarðar, Seyðisfjarðar og Héraðs af nefnd undir stjórn fyrrverandi vegamálastjóra. Ég vil einnig leggja áherslu á þær viðræður sem áformaðar eru um jarðgöng undir Vaðlaheiði en þar er um einkaframkvæmd að ræða.

Ég vil nefna það núna að sá merki atburður verður væntanlega á þessu ári að á milli Akureyrar og Egilsstaða verður bundið slitlag alla leiðina í stað þessa kílómetra sem var þegar ég byrjaði á þingi. Þetta eru mikil tímamót. Þau haldast í hendur við að skrifað hefur verið undir samninga um skipaflutninga til Reyðarfjarðar, sem er jafnvel stærsti samningur af því tagi sem gerður hefur verið, felur í sér að Reyðarfjarðarhöfn verður næststærsta höfnin á landinu hvað flutninga snertir. Það er einboðið að með betra samgöngukerfi aukast flutningar frá höfninni, lengra en á Austfirði og upp á Hérað. Ég fagna því þessum áfanga. Þetta eru meiri tímamót en menn átta sig á í augnablikinu.

Ég vil einnig nefna að enn er hringvegurinn ekki allur lagður bundnu slitlagi. Á Austurlandi eru áform um sameiningar, rætt um sameiningu Djúpavogs og Fljótsdalshéraðs, Breiðdalsvíkur og Fjarðabyggðar. Yrði af sameiningu Djúpavogs og Fljótsdalshéraðs mundi aukast þrýstingur á að bæta veginn yfir Öxi, sem er 60 km stytting á leiðinni frá Egilsstöðum til Hornafjarðar. Til samanburðar eru uppi mikil áform um veglagningu við Kjöl til að stytta veginn frá Akureyri til Reykjavíkur um 47 km. 60 km stytting er ekkert smáræði. Það þarf að huga að þessum köflum og loka því sem eftir er af hringveginum. Ég legg mikla áherslu á það.

Ég legg mikla áherslu á að þar sem einbreiðar brýr eru á landinu þarf að bæta úr. Það er gríðarlegt öryggismál miðað við hraðari umferð á vegakerfi landsins. Hraðinn hefur aukist með betri bílum og meiri samgöngum. Það er líka einboðið vegna þessarar þungu umferðar á vegum landsins að það þarf að styrkja þá. Þessi áætlun felur í sér áform um að styrkja veginn frá Reykjavík til Akureyrar. Það er nauðsyn að gera það.

Minnst var á einkaframkvæmd og einkaframkvæmd á rétt á sér en það er nauðsynlegt að raða þeim vegum sem ætlunin er að taka í einkaframkvæmd í áætlun, hafa þá í vegáætlun eins og aðrar framkvæmdir. Við þurfum að festa hendur á því. Ég er þeirrar skoðunar að einkaframkvæmd eigi í flestum tilfellum rétt á sér sé réttlætanlegt að taka veggjald. En sé svo ekki finnst mér koma til greina að ríkið taki lán til vegaframkvæmda því einkaframkvæmd er náttúrlega lántaka ef ríkið eignast svo vegina, sem ég tel rétt og sjálfsagt miðað við það módel sem er hér varðandi Hvalfjarðargöngin. Ég legg áherslu á að í langtímaáætlun þurfi að fella vegi í einkaframkvæmd að þeim áætlunum sem fyrir eru.

Sá tími sem ég hef er liðinn við fyrri umr. Ég vildi koma þessum atriðum á framfæri. Hafa mætti langt mál um þá miklu pakka sem hér eru en ég á kost á að fjalla um málið í samgöngunefnd þegar það kemur þangað. Þá verður málið skoðað nánar.