133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[18:57]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er einn af þeim sem hef beðið spenntur eftir því að hv. þingmaður, fyrrverandi samgönguráðherra, Halldór Blöndal, komi í ræðustól og ræði um samgönguáætlun. Hann fór vel yfir þetta mál og ræddi m.a. áherslu sína sem samgönguráðherra um þjóðveg 1 o.s.frv. Hann fór vel yfir þessa mjóu vegi og lítinn burð og allt það. Allt er það hárrétt og ber að þakka hv. þingmanni þá umræðu. Eins og komið hefur fram eru vegirnir barn síns tíma og hafa skemmst mikið við að þungaflutningar hafa farið upp á land.

Það þarf mikla peninga á næstu árum til að styrkja þjóðveg 1, breikka og auka burð og hafa hann til þeirra miklu flutninga og fyrir þá miklu umferð sem þar fer um. Héðinsfjarðargöng hefur borið á góma og vil ég geta þess að ég átti sem forseti bæjarstjórnar á Siglufirði mjög gott samstarf við hv. þingmann meðan hann var samgönguráðherra út af því verki og ber að þakka fyrir það. Hann veitti góðan stuðning við það. Ég vildi spyrja hv. þingmann, þegar hann ræddi um flugsamgöngur og lengingu flugbrautar á Akureyri — mjög brýna aðgerð sem á ekki að vera búin fyrr en haustið 2009 — hvort hann sé sáttur við það verk. Hann ræddi um flugstöðina sem ekkert er að finna um í þessari samgönguáætlun, hana er mjög brýnt að stækka. Lenging á Egilsstaðaflugvelli getur þess vegna orðið 2018.

Er hv. þingmaður ánægður með þessar dagsetningar og hvað þetta tekur langan tíma? Ég spyr þá sérstaklega í ljósi þess sem ég hef rætt áður að ekki verður hægt að stunda fragtflug, sem á að hefjast á Akureyri eftir nokkrar vikur, nema fljúga til Keflavíkur og millilenda þar og taka eldsneyti til að halda áfram til Evrópu.