133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[20:58]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mjög eðlilegt að svo sé haldið á málum sem þessi texti segir til um. Við þekkjum það á Alþingi að margar nefndir hafa verið settar á laggirnar, skilað af sér langri skýrslu og sagt að svona og svona skuli umhverfið verða eftir þetta mörg ár. Það hefur ekkert staðist. Eigum við að nefna t.d. skýrsluna um Vímulaust Ísland árið 2000. (Gripið fram í.) Fleiri skýrslur mætti taka til. Við höfum heilsufarsáætlun, heilbrigði barna varðandi tennur o.s.frv. Í þessari skýrslu er tekið á málunum á þann veg að þegar framvinda verður í áætlun samgönguráðherra mun það leiða til þess sem hér segir, þ.e. að keyptar verði bifreiðar sem menga minna.

Ég vil einnig geta þess, hv. þingmanni til ánægju, að umræddir göngu- og hjólreiðastígar munu leiða til þess að hv. samgöngunefnd mun skoða alvarlega þá þingsályktunartillögu sem hún hefur flutt um að auka hraða vélknúinna hjóla úr 15 km upp í 25.