133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[22:46]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka hv. þingmönnum fyrir ágæta yfirferð og málefnalegar umræður í dag. Það er afar mikils virði fyrir okkur að farið sé rækilega yfir tólf ára áætlunina áður en hv. samgöngunefnd fær tækifæri til að fara yfir hana með hefðbundnum hætti.

Það sem stendur upp úr umræðunni, virðulegur forseti, er að það er mikill áhugi og mikil áhersla sem menn leggja á uppbyggingu samgöngukerfanna allra og það er auðvitað verkefnið. Þess vegna get ég ekki verið annað en ánægður með viðbrögðin þó að auðvitað séu mismunandi áherslur. Aðalatriðið er að samgönguáætlunin verði afgreidd frá þinginu þannig að stofnanir samgönguráðuneytisins geti farið að vinna á grundvelli hennar. Með þeim orðum lýk ég máli mínu í kvöld, virðulegur forseti, og vænti þess að fá sem fyrst tækifæri til að mæla fyrir fjögurra ára áætluninni hér í þinginu.