133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[19:34]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

(Gripið fram í: Er ráðherra í salnum?)

(Forseti (BÁ): Hæstv. samgönguráðherra verður gerð grein fyrir því að fundur sé hafinn og hv. þingmaður óski eftir því að hann komi í salinn.)

Herra forseti. Ég á erfitt með að hefja mál mitt fyrr en hæstv. ráðherra gengur í salinn — hann bregst snarlega við. (Samgrh.: Ég var á leiðinni.) Ég ætlaði nefnilega að ræða það upphlaup hans áðan að bregða sér í ræðustól með úrklippu úr Blaðinu og lesa upp úr grein hv. þm. Helga Hjörvars, náttúrlega úr samhengi við það sem raunverulega er fjallað um í þeirri grein.

Ég hef heyrt hv. þm. Halldór Blöndal setja fram margvíslegar athugasemdir við samgönguáætlun. Ég hef enn fremur lesið greinar eftir hv. frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins, Árna Johnsen, þar sem gerðar eru athugasemdir við stefnuna sem tekin er í samgöngumálum varðandi Vestmannaeyjar. En ekki hvarflar að mér að draga þá ályktun að þó að þessir hv. þingmenn hafi einhverjar skoðanir á samgönguáætlun sé þar með verið að lýsa stefnu Sjálfstæðisflokksins. Með sama hætti tel ég óviðeigandi af hæstv. ráðherra að hann sé að klípa eitthvað út úr tiltekinni blaðagrein og fullyrða að þar sé verið að lýsa stefnu Samfylkingarinnar í samgöngumálum. Mér fannst þetta satt að segja vera ólíkt ráðherranum og ódýrt og ekki í takt við þann málflutning sem hann jafnan hefur í ræðustól á hinu háa Alþingi.

Þegar ég átti börn á unga aldri hafði ég það fyrir sið, eins og margir aðrir, að biðja þau um að leggja fram óskalista þegar nær dró jólum, óskalista um það hvað þau vildu fá í jólagjöf. Stundum fékk ég langa og skemmtilega lista og auðvitað var eitthvað valið úr til að gefa. Mér kemur þetta til hugar þegar ég lít yfir þær samgönguáætlanir sem hér eru lagðar fram og eru til umræðu. Þær eru nokkurs konar óskalisti, kosningagjafalisti þar sem kennir margra grasa. Fyrir vikið eru náttúrlega margar ágætistillögur fram komnar. Áætlunin er metnaðarfull og hægt er að taka undir hana að langmestu leyti. Þetta eru sem sagt vonir okkar og draumar um það sem gera skal á næstu árum og ekki gagnrýni ég það sérstaklega.

En því miður, þrátt fyrir að þarna sé dengt inn óskum og vonum til næstu tíu ára, er það svo að ýmislegt vantar upp á í samgönguáætlun. Þá er fyrst að telja það sem snýr að höfuðborginni, það er það sem ég ætla að tala um a.m.k., og það var reyndar það sem hv. þm. Helgi Hjörvar gerði að umtalsefni í títtnefndri blaðagrein. Hann lýsti yfir vonbrigðum sínum með þær áætlanir sem snúa að Reykjavík og taldi upp það sem á vantaði í þeim efnum.

Núverandi borgarstjórn, sem skipuð er að meiri hluta til Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, hefur gert áætlanir sínar um gatnaframkvæmdir og samgönguáætlanir hér í borginni. Margt af því er í samræmi við fyrri áætlanir sem þáverandi meiri hluti borgarstjórnar lagði áherslu á. Ég held að í stórum dráttum megi segja að þeir sem stýra Reykjavíkurborg séu nokkuð sammála um á hvað beri að leggja höfuðáherslu í samgöngumálum í Reykjavík.

Þrátt fyrir að þessar tillögur þeirra hafi verið lagðar fram eru þær ekki nema að mjög takmörkuðu leyti á blaði í samgönguáætluninni sem lögð er fram af hæstv. samgönguráðherra. Nefna má Sundabrautina sem er í uppnámi vegna þess að þar er ekki tjaldað nema til hálfrar nætur. Það getur varla verið auðvelt fyrir menn að fara af stað með lagningu Sundabrautar án þess að vita hvar sú braut á að enda og hvort endar nái saman í fjármögnun á þeirri miklu framkvæmd.

Mýrargötustokkur, sem hefur verið á dagskrá í Vesturbænum með hliðsjón af Örfirisey og Mýrargötunni og hafnaruppbyggingu, er ekki á áætlun á næstu fjórum árum.

Göngin sem menn hafa lagt til að yrðu lögð í gegnum Öskjuhlíðina, sem ekki aðeins Reykjavíkurborg heldur nágrannasveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru sammála um að sé ein mikilvægasta samgöngubót sem hægt er að ráðast í, eru ekki á dagskrá fyrr en í fyrsta lagi árið 2018.

Talað hefur verið um stokk undir Miklubrautina og það mál hefur nú fengið aukna þyngd með því að menn hafa uppgötvað að á þeim slóðum er mikið svifryk og nauðsynlegt að grípa til einhverra aðgerða. En þessi stokkur undir Miklubrautina er ekki sjáanlegur á blaði og er alls ekki á dagskrá.

Gert er ráð fyrir fjárveitingu til nýlegra gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar upp á tíu milljarða. En það er samdóma álit þeirra sem að því máli koma að það þurfi a.m.k. tíu milljarða í viðbót vegna samgöngumannvirkja og tengibrauta. Það skortir sem sagt helminginn upp á að hægt sé að leggja í það verkefni.

Ég held að það hljóti að vera mikið áfall fyrir núverandi meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur að lesa þessa samgönguáætlun og sjá hve lítið tillit hefur verið tekið til óska þeirra. Maður spyr sig að því hvort borgarstjórnin hafi kannski gleymt að koma því á framfæri við hæstv. ráðherra hvaða mál hún leggur mesta áherslu á.

Ég vil enn fremur nota þetta tækifæri, þó að það gildi ekki um þessa fjögurra ára áætlun, og gera athugasemd við þær ráðagerðir að byggja samgöngumiðstöð, sem á að kosta þrjá milljarða, við núverandi Reykjavíkurflugvöll. Þetta er áætlun sem gildir til 2018 og ég geri þessa athugasemd með vísan til þess að gert hefur verið samkomulag milli samgönguráðuneytis og Reykjavíkurborgar um status quo með öllum sínum fyrirvörum til 2016, en hérna er um að ræða áætlun til 2018. Ég held að mjög misráðið sé að leggja fé í byggingu á samgöngumiðstöð á þessum stað þar sem allsendis er óvíst hvort flugvöllurinn fer eða ekki. Það liggur fyrir að gert er ráð fyrir því að einhverjar niðurstöður um frekari rannsóknir verði lagðar fram fyrri hluta árs 2007 sem geti kannski ráðið úrslitum um það hvort flugvöllurinn verður þarna áfram til langrar framtíðar eða ekki. (Forseti hringir.)

Ég vil svo að lokum, ef ég má aðeins syndga upp á náðina, spyrja: Af hverju er ekki gert ráð fyrir fjárveitingu til hjólreiðastíga í þessari samgönguáætlun eins og um var talað fyrr í vetur?