133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[15:16]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þunnskipaðir eru ráðherrabekkirnir þegar við ræðum þetta sérstaka áhugamál ríkisstjórnarinnar. Ég ætlaði eiginlega að byrja á því að leggja til við hæstv. landbúnaðarráðherra, því að ég sé hann hér í hliðarsölum, alveg sérstaklega leggja það til við ráðherra Framsóknarflokksins að þeir dragi þetta frumvarp til baka. Er ekki nóg komið, frú forseti? Ætli ekki sé nóg komið fyrir hæstv. ráðherra Guðna Ágústsson sem þarf að fara að láta sjá sig á Suðurlandi og reyna að fá fólk til að kjósa sig þar? Vantar hann meira nesti af þessu tagi til að fara með í sveitir landsins og taka á sig reiðina út af hækkun raforkuverðs og ósköpin sem ríkisstjórnin er búin að kalla yfir sig með þessum málatilbúnaði sínum öllum? Ég spái því, virðulegur forseti, að fegnastur yrði hæstv. landbúnaðarráðherra ef þetta frumvarp gæti gufað upp af yfirborði jarðar og margt sem því tengist. Það getur varla verið sérstakt gleðiefni fyrir Framsóknarflokkinn að fara með þessi ósköp með sér út í kosningabaráttuna sem fram undan er. En verði þeim að góðu, auðvitað eiga þeir ekkert annað skilið en að vera hýddir með þessum málum. Hverju hefur Framsókn verið að þjóna í markaðs- og einkavæðingarsýkinni þegar kemur að orkumálum? Ekki landsbyggðinni, ekki almennum notendum. Nei, það er orkugeirinn, orkurisarnir, fákeppnis- og einokunarrisarnir sem á að mala undir, auðvitað nuddar Sjálfstæðisflokkurinn saman lófunum af gleði, getur haft Framsókn í flórnum eins og venjulega við að puða áfram á þingi með einokunar- og einkavæðingarfrumvörpin og Framsókn tekur á sig óvinsældirnar. Framsókn tekur á sig óvinsældirnar og Sjálfstæðisflokkurinn fitnar. Þetta er undarlegt ráðslag, þetta er merkileg sjálfseyðingarhvöt, sjálfseyðingarleiðangur (Landbrh.: … framsóknarmaður.) sem hæstv. landbúnaðarráðherra tekur þátt í, að því er virðist eins og viljalaust verkfæri. Kannski hann hafi forðað sér til Kanaríeyja til að vera í burtu meðan þetta frumvarp var tekið í gegnum ríkisstjórnina, komið í gegnum þingflokka og inn á þing.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég undrast að þetta skuli birtast hérna aftur. Ríkisstjórnin fékk aðvörun í þessum efnum fyrir áramótin og þá bilaði kjarkurinn og málið var dregið til baka. En þráhyggjan er svo ofboðsleg að þetta birtist hér, gott ef ekki þurfti að taka það á dagskrá með afbrigðum — a.m.k. voru það einhver mál ríkisstjórnar hér — rétt áður en þingið á að ljúka störfum fyrir kosningar. Það eru ekki að verða margir virkir þingdagar eftir ef á að standa við áætlun þingsins um að klára hér um miðjan mars. Febrúar er stuttur eins og kunnugt er, ekki einu sinni hlaupár í ár ef ég man rétt.

Nei, ég held að hæstv. ríkisstjórn gerði réttast í því að draga þetta til baka og ég spái henni engri frægðarför með þetta mál í gegnum þingið. Ég held að það sé orðin mjög almenn og útbreidd skoðun að það sé meira en nóg komið af þessu. Þetta markaðs- og einkavæðingarflan ríkisstjórnarinnar í orkumálum er eitt af því versta, og er þá mikið sagt, þegar allur sá leiðangur er ræddur. Hér hafa menn nú þegar upplifað á eigin skinni það sem auðvitað er óumflýjanlegur fylgifiskur markaðsvæðingar af þessu tagi, að raforkuverðið hefur stórhækkað. Það hefur auðvitað hækkað vegna þess að nú er fyrirtækjunum uppálagt, þótt í opinberri eigu séu, að reikna sér arð fyrir hvert viðvik og að hann verði tekinn út úr rekstrinum. Það er búið til regluverk og málin eru flækt, fyrirtækjum skipt upp, allt í þágu þeirrar vitleysu að innleiða hér orkutilskipun Evrópusambandsins sem átti ekkert erindi við íslenskan orkumarkað, ekki neitt. Auðvitað er undarlegt að Framsóknarflokkurinn sem var í öllum færum til að reyna að semja um undanþágu eða sérframkvæmd þeirra mála skyldi ekki einu sinni reyna það. Evrópuglýjan réð þá alveg ferðinni og í tíð fyrrverandi formanns flokksins, Halldórs Ásgrímssonar, sem þá var utanríkisráðherra kom auðvitað ekki til greina að fara neitt að ybbast við, og studdur af iðnaðarráðherra sínum sem þá var, Valgerði Sverrisdóttur, tók Framsóknarflokkurinn þá afstöðu að innleiða þetta hér gagnrýnislaust og hefur ef eitthvað er gengið meira að segja heldur lengra en endilega þarf að gera til að uppfylla ákvæði þessarar margfrægu orkutilskipunar.

Það hefur rignt yfir okkur þingmenn, a.m.k. þingmenn úr landsbyggðarkjördæmunum, að undanförnu ýmiss konar mótmælum frá sveitarstjórnum og öðrum aðilum vegna hækkunar á raforkuverði. Hún er núna staðreynd. Hún er núna ekki bara eitthvað sem erfitt er að bera saman út af kerfisbreytingum eða einhverju sem var í pípunum eða hvað það nú var sem menn sögðu hérna fyrst um áramótin 2004/2005. Nei, núna er raunhækkun raforkuverðs hjá fjölmörgum aðilum staðreynd.

Ég hef eiginlega ekkert dæmi fengið um lækkun. Því var haldið fram að einhver iðnfyrirtæki hefðu náð fram einhverri lækkun, ég held að bara ekki eitt einasta slíkt dæmi hafi komið inn á mitt borð. Ég hef séð ein tvö tilvik þar sem menn komu út á sléttu, þar sem menn hafa sloppið við hækkun. Kannski telja menn sig góða þar með. En til húshitunar í strjálbýlinu þar sem dreifbýlisgjaldskrár Rariks og Orkubús Vestfjarða gilda er þetta veruleg hækkun, það er staðreynd. Og er þá ekki nóg komið? Nei, það er ekki nóg komið, Framsókn vill meira. Hún vill markaðs- og einkavæða meira. Hún ætlar að taka Rarik og Orkubú Vestfjarða og setja undir Landsvirkjun þannig að til geti orðið enn þá harðsvíraðri einokunarrisi á sviði orkumála í landinu og þar sem Landsvirkjun fær þá í fyrsta skipti markaðsráðandi stöðu á sviði smásölu. Hingað til hefur þó verið það fyrirkomulag að Landsvirkjun hefur selt beint til stórframleiðendanna og síðan verið uppistöðuaðili í heildsölu á rafmagni til dreifiveitna. En þarna á að leyfa henni í gegnum dótturfyrirtæki sín að koma krumlu sinni inn á smásölumarkaðinn. Auðvitað er það fullkomlega fáránlegt, það er absúrd, virðulegur forseti, með leyfi, ef ég má sletta þannig, að standa fyrir slíku.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst Samkeppniseftirlitið, miðað við það sem vitnað er í það hér, vera heldur lint, heldur mjúkt í hnjáliðunum þegar það segir að það „þurfi að huga að“, það er haft hér eftir því í greinargerð með frumvarpinu að það „þurfi að huga að markaðsráðandi stöðu Landsvirkjunar á markaðnum fyrir smásölu raforku til stórnotenda og á markaðnum fyrir framleiðslu og heildsölu á raforku. Enn fremur kunni Landsvirkjun að komast í markaðsráðandi stöðu á markaðnum fyrir smásölu raforku til almennra nota. Gæta verði að því að fyrirkomulagið á þessu sviði hindri ekki virka samkeppni á mörkuðum fyrir framleiðslu og smásölu raforku í skilningi 1. mgr. 17. gr. samkeppnislaga“ og setja skilyrði o.s.frv.

Óskaplegur lopi er þetta. Af hverju segja menn bara ekki hreint út: Þetta er óæskilegt, það er verið að bjóða hættunni heim? Það er verið að setja þetta í hendurnar á fyrirtækinu sem fær á sig fésektirnar núna og er að borga sig frá brotum á samkeppnislögum þegar þeir ætluðu í samráði við Símann að búa til enn harðari einokun á sviði fjarskiptamála og gagnaflutninga.

Auðvitað er sorgarsaga mikil að rekja það hvernig almennir raforkunotendur á Íslandi hafa farið út úr hlutunum í þessu landi þar sem eru sennilega einstakari aðstæður og betri en nokkurs staðar annars staðar til þess að hafa hagstætt raforkuverð ef öðruvísi hefði verið staðið að málum. Það er ekki nokkur minnsti vafi á því í mínum huga að ef raforkusölu og framleiðslu og sölu til almennra nota í landinu hefði aldrei verið blandað saman við stóriðjuna og stórflutningana væru allar aðstæður til þess að hafa raforkuverðið hér miklu lægra en það er í dag.

Það er svo gríðarlega hagkvæmt að framleiða rafmagn í afskrifuðum vatnsaflsvirkjunum eins og Sogsvirkjun eða framleiða það sem viðbótarafurð á háhitasvæðum þar sem tekinn er jarðvarmi til húshitunar eins og í Svartsengi og á Nesjavöllum að það hálfa væri nóg. Er þá ekki undarlegt að mönnum skuli hafa tekist að standa þannig að verki að raforkuverð hér er með því hærra sem gerist í Evrópu? Ég veit að hæstv. landbúnaðarráðherra man — ég hef stundum rifjað þetta upp, virðulegur forseti, fyrir hann áður — eftir því þegar hann setti starfshóp á laggirnar fyrir nokkrum árum til að rannsaka starfsskilyrði garðyrkjunnar sem átti þá í þrengingum. Út úr því komu sumpart ágætar tillögur til að taka á þeim vanda, það ber að viðurkenna það. En hver var ein tillagan í starfshópi hæstv. landbúnaðarráðherra Guðna Ágústssonar sem hér ætlar að standa að frekari markaðs- og einkavæðingu í raforkumálum? Jú, það var að reyna að fara í aðgerðir til að lækka raforkuverð til garðyrkju á Íslandi niður í það sem það væri í samkeppnislöndunum, niður í það sem það væri í Hollandi. Ergó, raforkuverðið á Íslandi til garðyrkjubænda var hærra. Við vorum að selja grænu stóriðjunni okkar í gróðurhúsunum raforku á einhverju hæsta verði sem þekktist í Evrópu. Það er nú hinn glæsilegi árangur sem við sitjum uppi með. (Landbrh.: Það var lækkað.) Það var auðvitað örlítið lækkað, já, og ber að virða það og gott ef ekki einhverjar endurgreiðslur eða niðurgreiðslur settar þar inn. En er ekki dapurlegt að þurfa þess þar sem í raun og veru ættu að vera svo kjörnar aðstæður til að hafa þetta verð miklu hagstæðara? Það vita t.d. bændur og aðrir sem hafa reist smárafstöðvar að ef þær eru tæknilega vel úr garði gerðar og rennsli af þeim öruggt eru þetta einhverjar allra mestu gullkvarnir sem fyrirfinnast. Það þarf að skipta um legur sirka á 10 ára fresti ef vel er um þær hirt. Og þegar búið er að afskrifa stofnfjárfestinguna geta menn verið með ákaflega hagstætt rafmagn áratugum og þess vegna öldum saman, t.d. þegar um er að ræða rennslisvirkjanir í bergvatnsám þar sem ekki eru nein vandamál í formi setfyllingar í inntakslón eða annað því um líkt.

Auðvitað er það alger sorgarsaga hvernig okkur Íslendingum hefur tekist að standa þarna að málum og þar er við raforkustóriðjutrúarbrögðin að sakast. Það er enginn vafi á því í mínum huga. Það er vegna þess að fyrirtækin hafa hlaðið á sig skuldum jafnóðum og hefur séð til lands til þess að framleiða meira rafmagn í þágu erlendrar stóriðju á útsöluverði. Má lengi um það deila hversu mikið flæðir þar á milli, það er auðvitað alþekkt þræta, en framan af árum er þó í öllu falli enginn vafi að innlendir notendur neyddust til að taka á sig hækkað verð til þess að greiða niður rafmagnið í stóriðjuna. Á áttunda áratugnum var raforkuverð til almennings ítrekað hækkað vegna þess að Landsvirkjun átti þá í miklum erfiðleikum vegna hins lága verðs sem greitt var fyrir raforkuna á grundvelli upphafssamninganna í Straumsvík.

Nú á að fara að taka Orkubú Vestfjarða, það ágæta fyrirtæki sem byggðist upp á Vestfjörðum og skilaði Vestfirðingum þeim árangri áður en þeir misstu það úr sínum höndum að raforkuverð var 10–15% hagstæðara á Vestfjörðum en á svæði Rariks og annarra veitna. Þetta er staðreynd. Það er ekki slakur árangur að ná því að skila við aðstæður eins og þær eru á Vestfjörðum þar sem er strjálbýli og miklar flutningaleiðir hagstæðara raforkuverði. Það var þó staðreynd — áður en Orkubú Vestfjarða var tekið af sveitarfélögunum þar. Það var m.a. vegna þess að Orkubú Vestfjarða framleiddi, ef ég man rétt, um 40% af sinni orkuþörf sjálft og var farið að njóta góðs af því að eiga afskrifaðar eða tiltölulega afskrifaðar virkjanir sem framleiddu inn á kerfið.

Maður batt vonir við það að Orkubú Vestfjarða gæti orðið svipuð aflvél í fyllingu tímans þar eins og Hitaveita Suðurnesja hefur verið á Suðurnesjum. Hvað gerist þá? Jú, ríkisstjórnin neyðir sveitarfélögin á Vestfjörðum til að láta frá sér þessa verðmætustu eign upp í skuldir, ekki síst vegna félagslega íbúðalánakerfisins. Auðvitað voru þau neydd til þess, auðvitað horfðu menn með tárum á eftir Orkubúi Vestfjarða fara úr fjórðungnum og öllum þeim framtíðarmöguleikum sem hefðu átt að geta fylgt.

Svipað má segja um Rarik, það er ekki hagstætt fyrir landsbyggðina á Íslandi að Rarik gangi þá leið sem þarna er lögð til. Margir höfðu bundið vonir við að frekar gætu átt sér stað skipulagsbreytingar í raforkumálum af því tagi að Rarik, eða a.m.k. hlutar af starfsemi þess á viðkomandi svæðum, rynni saman við orkufyrirtæki í landshlutunum eins og Norðurorku og myndaði sterk landshlutaveitufyrirtæki. Þannig hefði getað komist á laggirnar slíkt skipulag. Nei, en þeir ætla ekki að standa fyrir því, framsóknarmenn. Nei, þeir ætla að leggja þetta undir Landsvirkjun sem þeir áforma svo að einkavæða eins og kunnugt er. Það þarf ekki að fara aftur með þær beinu tilvitnanir sem hér hafa verið í orð t.d. fyrrverandi viðskiptaráðherra Valgerðar Sverrisdóttur, þau hafa ekki verið dregin til baka. Ég veit ekki betur en að þau áform standi, að það sé ekki ætlun þessarar ríkisstjórnar ef hún fengi um það ráðið að Landsvirkjun verði lengi í viðbót í opinberri eigu, a.m.k. ekki alfarið.

Það er alveg vitað að ýmsir aðilar úti í þjóðfélaginu bíða tilbúnir eftir því að hreppa hnossið. Ýmsa hungrar í þau verðmætu réttindi sem Landsvirkjun hefur fengið í gegnum tíðina á silfurfati, endurgjaldslaus afnot af sameiginlegum auðlindum, orkulindum í eigu landsmanna, bætur sem hún hefur greitt fyrir land í einkaeigu hafa náttúrlega verið hverfandi, hlægilegar í raun þegar betur er að gáð, eins og bótakröfur landeigenda á svæði Kárahnjúkavirkjunar núna sýna. Ef menn horfa á þetta og virða þetta í ljósi mögulegra framtíðarverðmæta sem þarna kunna að vera fólgin hafa þær bætur sem hingað til hafa verið greiddar beinlínis verið hlægilegar, nánast engin hlutdeild í hinum eiginlega arði sem af orkuvinnslunni getur sprottið á áratugum og öldum, heldur tiltölulega lágar einskiptisbætur eins og til að koma til móts við það jarðrask og land sem með beinum hætti hefur farið undir mannvirki.

Ekki mælir sá þáttur sérstaklega með því að hér sé vel staðið að verki, og ætlar svo ekki ríkisstjórnin einmitt á þessu sama þingi, ef hún fengi því framgengt, að afhenda Landsvirkjun þjóðlendur? Það er algert brot á því sem legið hefur til grundvallar þjóðlendumálinu og því að fá úr því skorið hvaða land skuli verða í ævarandi sameign þjóðarinnar? Nei, en þeim dettur það í hug, snillingunum, ofan í yfirlýsingar um að hafinn sé undirbúningur að einkavæðingu Landsvirkjunar, að gefa henni þjóðlendur. Svona er hugsunin. Það er alveg ljóst hverjum er þjónað, það er alveg ljóst hverjum Framsóknarflokkurinn þjónar í þessu máli. Ekki almennum raforkunotendum, ekki landsbyggðinni, ekki þjóðinni sem slíkri gagnvart sameignum hennar. Nei, þeir þjóna þessum geira, stóriðjufyrirtækjunum, erlendu álhringunum og fyrirtækjunum sem hér eru í því að framleiða rafmagn ofan í þau á útsöluverði þar sem náttúra landsins er metin einskis — einskis — og sameiginleg verðmæti færð á silfurfati í púkkið.

Að síðustu, frú forseti, væri náttúrlega sá hluti þessa máls sem snýr að samkeppnisréttinum einn og sér næg ástæða til að vísa þessu frumvarpi tafarlaust frá, auðvitað. Það er algerlega fáránlegt að Alþingi taki frumvarp til umfjöllunar sem beinlínis felur í sér stórfellda hættu á að styrkja markaðsráðandi fákeppnisstöðu á sviði þar sem á að heita að ætlunin sé að láta frjálsa samkeppni ráða verðlagi. Það er bara aldeilis fáránlegt. Og að gera það ofan í þó varnaðarorð, þótt linkuleg séu, frá samkeppnisyfirvöldum, er með miklum endemum. Hvernig nálgast hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem fer með samkeppnismál, hlutverk sitt? Hvar liggur trúnaður hans? Ekki við samkeppnislögin, ekki við neytendur. Hvar er hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra? Tollir hann ekki í salnum þegar verið er að ræða við hann? Er þetta orðið eitthvað erfitt? Mér finnst heldur leiðinlegt að ráðherrann skuli ekki geta verið hér.

(Forseti (JóhS): Óskar hv. þingmaður eftir því að forseti geri …?)

Mér þætti það voðalega gaman ef hann er í húsinu, en ég er nú að verða búinn með ræðutíma minn. Ég hefði gaman af að heyra hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggja það á sig að koma í stólinn og svara því hvar trúnaður hans liggur í máli af þessu tagi. Telur hann að honum sé stætt á því sem yfirmanni samkeppnismála í landinu að leggja frumvarp af þessu tagi fyrir þingið? Eða vill hann þá vera svo góður að segja af sér sem samkeppnisráðherra, segja af sér sem viðskiptaráðherra og — (Gripið fram í.) ég veit það en ráðherrann fer með sitt viðfangsefni eftir sem áður — viðurkenna að hann sé bara iðnaðarráðherra, hann sé bara álmálaráðherra eins og forveri hans var. Sá er auðvitað mergurinn málsins. Ráðherrar Framsóknarflokksins, bæði hæstv. núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra og fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Jón Sigurðsson og Valgerður Sverrisdóttir, eru fyrst og fremst álmálaráðherrar. Þau þjóna trúboðinu um álvæðingu landsins hvað sem tautar og raular, þau dæma neytendur til þess að fá á sig óskapnað af þessu tagi. Þau hækka raforkuverðið til almennra notenda án þess að depla auga og allt er þetta gert í þágu þessarar miklu þjónkunar undir áliðnaðinn. Auðvitað þarf hæstv. ráðherra að gera Alþingi hér grein fyrir því hvaða augum hann líti embættisskyldur sínar og í hvaða hlutverki hann ætli sér yfirleitt að vera. Vill hann þá ekki bara vera svo góður að segja af sér sem samkeppnisráðherra þannig að það sé á hreinu, það sé ekkert að þvælast fyrir honum, og gangast við því sem hann raunverulega er, sem sagt arftaki hæstv. fyrrverandi álmálaráðherra Valgerðar Sverrisdóttur?

(Forseti (JóhS): Forseti gerði ráðstafanir til að kalla hæstv. iðnaðarráðherra í salinn en hann hefur ekki enn orðið við þeirri ósk og þykir forseta það miður.)