133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[15:36]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er allt að ganga eftir sem sagt var í þessum sölum að yrði í raforkumálum hér á landi með því að fara hér í gegn með raforkulögin á sínum tíma. Enn fremur gengur eftir spáin um til hvers mundi draga þegar rædd var salan á Orkubúi Vestfjarða til ríkisins, að það yrði sameinað Landsvirkjun og síðan yrði stefnumótunin sú að orkugeirinn í landinu yrði í raun falur einkaaðilum á komandi tímum. Ég hygg að það sé stefnan sem hvílir undir þessu máli hvað svo sem stjórnarliðar segja um þau skref sem þeir stíga núna með yfirtöku Orkubús Vestfjarða og yfirfærslu til Landsvirkjunar og einnig Rafmagnsveitna ríkisins.

Orkubú Vestfjarða var Vestfirðingum afar dýrmætt og við Vestfirðingar væntum þess á sínum tíma að það fyrirtæki gæti verið bakhjarl nýsköpunar og stuðningsaðili við fyrirtæki í fjórðungnum, ákvörðunaraðili um nýtingu orkunnar á þessu landsvæði og jafnvel víðar með því að eignarhaldið héldist á Vestfjörðum og fyrirtækið væri sjálfstætt starfandi í eigu sveitarfélaganna á Vestfjörðum eins og það var.

Eins og menn muna var þetta fyrirtæki hálfpartinn tekið upp í skuldir við ríkissjóð í uppgjörsmálum sem sneru m.a. að íbúðarhúsnæði og leiguíbúðum í sveitarfélögum á Vestfjörðum. Sveitarfélögunum var stillt upp við vegg með að selja fyrirtækið til ríkisins. Þeir fjármunir sem sveitarfélögin fengu fyrir Orkubúið voru af sumum taldir verulega miklir og að á þeim mætti byggja til langrar framtíðar. Ég minnist þess m.a. að bæjarstjórinn á Ísafirði taldi að það væri ekki úr vegi að leggja verulegan hluta af þeim fjármunum sem fengust fyrir Orkubú Vestfjarða inn á sérstakan reikning og ávaxta þá vel, nýta mætti ávöxtunina til rekstrar í bæjarfélaginu eða til nýrra og skapandi verkefna á vegum þess. Ég held að allir sem fylgdust með þeirri umræðu á sínum tíma muni hvaða björtu framtíðarhorfur sjálfstæðismenn á Ísafirði þóttust sjá í því að fá þessa orkubúspeninga til sín, m.a. með því að geyma þá á sérstökum reikningi og nota ávöxtunina sem bakhjarl fyrir bæjarfélagið. Nú háttar hins vegar svo til í því bæjarfélagi, Ísafjarðarbæ, að allir þessir peningar eru löngu horfnir í eyðslu og rekstur bæjarfélagsins með einhverjum hætti. Ísafjarðarbær stendur ekki vel fjárhagslega, hann er búinn að vera lengi undir stjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, þeirra sömu og mynda ríkisstjórn landsins og hafa gert í meira en áratug. Þetta er afraksturinn, hæstv. forseti.

Við sem vildum sérstaklega halda Orkubúi Vestfjarða í eigu Vestfirðinga áfram höfðum vænst þess að það yrði fyrirtæki sem byggði á þekkingu og reynslu til framtíðar, byggði á þekkingu á nýtingu vatns og jarðhita, rekstri kyndistöðva fyrir byggðakjarna á Vestfjörðum sem og nýtingu hitaorku, t.d. frá sorpbrennslu eins og á Ísafirði, fyrirtæki sem hefði víðtæka þekkingu á því að nýta orku. Við gerðum okkur vonir um að Orkubúið yrði sá aðili sem beitti sér fyrir því að stofna til nýrra virkjana á Vestfjörðum með nýtingu vatnsfalls eins og á Ófeigsfjarðarheiði. Því miður hefur ekkert orðið af þeim framkvæmdum, hins vegar hafa nokkrir einkaaðilar á Vestfjörðum virkjað, m.a. í Botni í Súgandafirði og vestur í Arnarfirði, talsverðar virkjanir byggðar á einstaklingsframtaki og selja orku inn á svæðið. Orkubú Vestfjarða hefur reist eina litla virkjun í Tungudal með vatninu sem kom út úr jarðgöngunum og bættist í ána þar og er allt gott um það að segja. Ég held að hún sé eina nýja virkjunin sem reist hefur verið á Vestfjörðum af Orkubúi Vestfjarða. Það hefur auðvitað verið endurbyggt og lagað, eins og virkjunin í Steingrímsfirði, og menn hafa reynt að halda þeim orkuveitum við sem orkubúið rekur. Og allt gott um það.

Það er ekki lengur á valdsviði Vestfirðinga að stjórna frekara frumkvæði og nýsköpun á Vestfjörðum. Nú er verið að færa eignabönd þessa fyrirtækis algjörlega yfir til Landsvirkjunar og þá vaknar umræðan um samkeppnismál, hvernig þeim er fyrir komið o.s.frv. Hér er verið að reyna að búa það í þann búning að þó svo að Landsvirkjun eignist algjörlega eignarhlutann í Rafmagnsveitum ríkisins og í Orkubúi Vestfjarða sé samt hægt að halda uppi samkeppni með því að þessi fyrirtæki hafi sérstakar stjórnir o.s.frv. þó að þau séu 100% í eigu Landsvirkjunar. Hér er líka opnað á það að Landsvirkjun sé komin inn á smásölumarkaðinn, og kannski veitir henni ekki af miðað við þá orkusamninga sem Landsvirkjun hefur gert með sölu á þeirri orku sem m.a. hefur verið ráðstafað til álframleiðslunnar. Ég held að það orkuverð sé langt undir því sem við ættum að selja orku á í dag, hvað þá heldur ef við lítum til framtíðar og virðis orkunnar þá. Ég held að allir sem velta því fyrir sér í alvöru séu orðnir sammála um að ekki sé ástæða til að halda áfram og flýta sér við sölu á orku til frekari stóriðnaðar hér á landi á því verði sem hún hefur verið seld á frá orkufyrirtækinu Landsvirkjun til hinna stóru aðila sem hingað hafa sótt til uppbyggingar. Þar er einfaldlega verið að semja um of lágt verð til framtíðar litið.

Hæstv. forseti. Allt þetta ferli með Orkubú Vestfjarða frá því að ríkið yfirtók það, síðan það sem við stöndum frammi fyrir núna og það sem væntanlega verður í framtíðinni eftir kannski eitt ár, þ.e. ef þessi ríkisstjórn heldur velli sem ég vona vissulega að landsmenn hafi skynsemi til að tryggja að verði ekki, tel ég víst að verði það sama áfram og að hér verði stefnt að einkavæðingu og sölu á orkufyrirtækjunum og raforkumarkaðurinn einkavæddur. Ég er algjörlega andvígur því að þannig verði staðið að málum hér á landi.

Að mínu viti er verið að stíga skref sem ekki verða aftur tekin ef sú vegferð verður farin sem hér er boðuð. Ég vænti þess að okkur takist að láta þetta mál sofna í nefnd og það verði ekki afgreitt fyrir þinglok. Það væri áfangi að ná því fram. Ég held að stjórnarandstaðan verði að reyna að sjá til þess að þau skref sem ríkisstjórnin vill stíga núna í þessa veru nái alls ekki fram að ganga á þessu þingi og þetta verði eitt af þeim málum sem liggi óafgreidd fram yfir kosningar. Væntanlega fær þá ný ríkisstjórn tækifæri til að takast á við að skipa þessum málum með öðrum hætti en hér er lagt upp með. Ég lýsi því hér yfir að við erum algjörlega ósammála þessu frumvarpi.