133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:39]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega ánægð með að tekist hafi að mjaka ríkisstjórninni til þeirra aðgerða sem hún þó greip til í október þegar við vorum búin að leggja fram tillögur okkar miðað við það sem áður hafði gerst. Ég get minnt hæstv. landbúnaðarráðherra á að ég átti utandagskrárumræðu við fyrrverandi formann hans í fyrrahaust eða haustið áður en hann hætti. Hann hafði engan áhuga og sá ekki neitt fram undan í því að matarverð yrði lækkað. Með eftirfylgni tókst okkur samt að ýta nógu mikið á ríkisstjórnina til að hún gripi til þessara aðgerða en það tók fimm ár.

Ég ætla að skoða sauðfjársamninginn mjög vel. Ég tók eftir því þegar hann var kynntur að þá sagði hæstv. landbúnaðarráðherra að í honum fælust mörg þróunartækifæri og frelsi til stækkunar og að menn gætu eflt bú sín. Ég bið alla sem á ræðu mína hlýða að taka eftir því hvað þessir tveir þingmenn stjórnarliðsins hafa talað í kross varðandi þessa möguleika. Það er ekki hægt að stækka búin, ekki landfræðilega, ef búið verður að kaupa upp allar jarðirnar í kring. Það var það sem ég benti á áðan og var náttúrlega snúið út úr því eins og öðru. Ég hef aldrei nokkurn tímann efast um að sauðfjárrækt okkar sé afburðagóð. Ég er sjálf afar hrifin af íslenskri landbúnaðarvöru. Ég tek lambakjöt fram yfir annað, hvort heldur það er heima hjá mér eða þegar ég fer á veitingastaði og vil helst ekki sjá það erlendis. Ég er að tala um allt annað og það veldur mér miklum vonbrigðum að hæstv. landbúnaðarráðherra skuli ekki hafa skýrt hvaða þróunartækifæri þetta eru eða hvaða magn er verið að tala um.